Pálmi Jónsson, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fæddist 11. nóvember 1929 á Akri, Austur-Húnavatnssýslu. Hann lést á Vífilsstöðum 9. október 2017.
Foreldrar hans voru hjónin Jónína Ólafsdóttir, f. 1886, húsfreyja á Akri, og Jón Pálmason, f. 1888, bóndi á Akri, alþingismaður, landbúnaðarráðherra og forseti sameinaðs þings. Systkini Pálma voru Ingibjörg, f. 1917, Eggert Jóhann, f. 1919, Margrét Ólafía, f. 1921,// Salóme, f. 1926, þau eru öll látin.
Eftirlifandi eiginkona Pálma er Helga Sigfúsdóttir, f. 1936, húsfreyja á Akri. Börn þeirra eru: 1) Jón Pálmason, f. 1957, rafmagnsverkfræðingur, kvæntur Marianne Skovsgård Nielsen, f. 1958, félagsráðgjafa og þýðanda. Börn þeirra Níels Pálmi Skovsgård Jónsson, f. 1988, Henrik Skovsgård Jónsson, f. 1990, Anna Elísabet Skovsgård Jónsdóttir, f. 1994, unnusti Sturla Lange, f. 1994. 2) Jóhanna Erla Pálmadóttir, f. 1958, bóndi og framkvæmdastjóri, gift Gunnari Rúnari Kristjánssyni, f. 1957, bónda og hagfræðingi. Börn þeirra eru Helga Gunnarsdóttir, f. 1983, og Pálmi Gunnarsson, f. 1989. 3) Nína Margrét Pálmadóttir, f. 1970, ferðamálafræðingur, gift Ómari Ragnarssyni, f. 1957, yfirlækni. Börn þeirra eru Helga Sólveig Ómarsdóttir, f. 2002, og María Rut Ómarsdóttir, f. 2003. Fyrir átti Nína Margrét Ragnar Darra Guðmundsson, f. 1993. Fyrir átti Ómar, Unni Björgu Ómarsdóttur, f. 1984, sambýlismaður Hrafnkell Már Stefánsson, f. 1984, og Frímann Hauk Ómarsson, f. 1986, kvæntur Tinnu Björk Gunnarsdóttur, f. 1985.
Pálmi ólst upp á Akri í Torfalækjarhreppi við öll almenn sveitastörf. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum að Hólum árið 1948. Pálmi tók við búi á Akri 1953 og var þar bóndi til 1997. Hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Norðurlandi vestra árið 1967 og sat á Alþingi til ársins 1995. Pálmi var landbúnaðarráðherra 1980-1983, var lengi í fjárlaganefnd Alþingis og formaður samgöngu- og allsherjarnefndar. Pálmi var virkur í félagsstörfum. Hann var formaður Jörundar, FUS í Austur-Húnavatnssýslu, 1963-1964. Sat í hreppsnefnd Torfalækjarhrepps 1962-1974. Í stjórn Rarik um áratuga skeið og sem formaður stjórnar 1978-1990. Sat í Hafnaráði 1984-1987. Í ríkisfjármálanefnd 1984-1987. Í stjórn Byggðastofnunar 1991-1993. Pálmi sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1991. Hann var yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1992-1995. Formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands frá 1994-2000.
Minningarathöfn um Pálma Jónsson fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 14. október 2017, klukkan 11. Útför fer fram frá Blönduóskirkju mánudaginn 16. október 2017 klukkan 14. Jarðsett verður í Þingeyraklausturskirkjugarði.

Látinn er tengdafaðir minn, Pálmi Jónsson, eftir sex og hálfsmánaðar stranga sjúkdómslegu.
Þegar ég kynntist Pálma og sérstaklega þegar ég fór að venja komur mínar að Akri fannst mér hann með eindæmum fróður um marga hluti og svakalega minnugur nema á mannanöfn. Söguna þekkti hann mjög vel og þótti mér gaman að hlýða á hann hafa eftir atburði úr Njálu en ég hygg að honum hafi þótt hún merkust Íslendingasagna. Sturlungu þekkti hann líka mjög vel. Hann hafði unun að kveðskap og þótti gaman að fara með falleg ljóð og kraftmikil. Ljóð Einars Benediktssonar voru honum mjög hugleikin. Nefna má ljóð eins og Dettifoss og Hvarf séra Odds frá Miklabæ. Þá voru ljóð Davíðs Stefánssonar honum kær og á góðri stundu og gleðimótum var ósjaldan farið með ljóð Davíðs um Katarínu. Gott dæmi um minni hans er að hann gat þulið upp öll lönd í Evrópu og víðar sem stærstu ár renna um. Einnig mundi hann nöfn höfuðborga flestra landa í heiminum, líka þeirra sjálfstæðu ríkja á millistríðsárunum. Pálmi naut ekki mikillar menntunar. Auk barnaskólans fór hann í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Mér finnst það ekkert hafa háð honum í lífinu að hafa ekki meiri menntum. Hann var fljótur að tileinka og kynna sér hluti sem hann þurfti starfa sinna vegna og því sem hann hafði áhuga á. Þá var hann mikill íslenskumaður og átti það oft til að leiðrétta vitleysuna sem hann heyrði í fréttatímum. Það er með höppum og glöppum að leiðréttingarnar hafi komist til skila.
Pálmi var léttur og frár á fæti. Hann gat gengið endalaust ef því var að skipta og lengi vel átti hann auðvelt með að hlaupa lengri vegalengdir en jafnvel yngra fólk. Á yngri árum munaði hann ekkert um að smala á Sauðadalnum um morguninn fram eftir degi og fara síðan yfir heimalandið á Akri, og um jarðir nágrannabæja hvort heldur til að smala eða líta eftir í sauðburði. Þá voru engar girðingar milli jarða og þjóðvegurinn var ekki girtur af. Einhverju sinni spurði vinafólk okkar Jóhönnu hvort það væri ekki hundur á Akri. Jóhanna svaraði að bragði; Nei, pabbi hleypur sjálfur. Hún var að sjálfsögðu að meina að hann hlypi sjálfur við smalamennsku en vinafólkið okkar sá hann fyrir sér hlaupandi eftir bílum. Þess má geta að vinafólkið okkar er uppalið á mölinni og þekktu lítið til sveitastarfa þá en það hefur breyst.
Pálmi var ekki bara lipur og frár á fæti. Hann var mjög sterkur. Vegna þessa hugsaði Pálmi ekkert mikið um vinnuhagræðingu. Hann var heldur ekkert mjög tæknilega þenkjandi. Síðasti gsm-síminn hans er Nokia-samlokusími sem hægt er að hringja úr, skrifa og senda skilaboð og nota sem vekjaraklukku en t.d. ekki hægt að taka myndir á. Pálma fannst sími verkfæri til að tala í. Honum fannst óþarfi að læra ritvinnslu í tölvu en handskrifaði allt sem hann þurfti. Eitt tókst þó að kenna honum en það var að leggja kapal í tölvu en ég held að hann hafi kunnað betur við að leggja kapal á borði.
Það kom mér mjög á óvart hve umfangsmikið ræktunarstarfið í sauðfjárrækt er en því kynntist ég vel á Akri. Pálmi var mikil áhugamaður um sauðfjárrækt og tileinkaði hann sér allt sem viðkom henni. Hann var með eindæmum glöggur á fé og skipti engu hvort hann dvaldi langdvölum í Reykjavík við þingstörf. Þegar heim var komið sá hann strax ef einhverja vantaði sem hafði verið sett á nú eða hvort komin væri í hópinn á sem heimtist eftir að hann fór til Reykjavíkur. Hann mundi ættir áa og hrúta langt fram og það alveg fram á síðasta dag. Hann var einnig mikill ræktunarmaður og á hverju ári var túnspilda tekin til endurræktunar. Auk þess var honum landgræðsla hugleikin og löngu áður en Landgræðslan setti á laggirnar Bændur græða landið og bar Pálmi moð og skít á mela sem eru í Akurslandi.
Áður hef ég minnst á að þrátt fyrir takmarkaða skólagöngu kynnti hann sér vel alla hluti áður en hann tók ákvörðun. Þá fannst mér rök hans oft á tíðum fyrir tilteknum skoðunum standast mjög vel og það þó ég væri ekki alltaf sammála honum. Annað gott dæmi um hve vel Pálmi kynnti sér hlutina og leitaði ráða ekki síst hjá konu sinni Helgu var þegar hann ákvað að fylgja Gunnari Thoroddsen í stjórnina 1980. Síðar sagði hann í viðtali, í þættinum Maður er nefndur, við Jón Orm, þáttastjórnanda, að hann hafi fyrst og fremst fylgt Gunnari til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði. Mér hefur alltaf þótt þessi skýring merkileg og kannski er heilmikið til í henni.
Pálmi var mjög viljasterkur og átti kannski mjög erfitt með að skilja á stundum af hverju aðrir sáu ekki sömu leiðina og hann var búinn að hugsa og ákveða. Þar með er ekki sagt að hann hafi verið ósveigjanlegur og sættist hann oft á aðra leiðir.
Pálmi var mikill fjölskyldumaður og reyndist mér og fjölskyldu minni einstaklega vel. Hann var óþreytandi að koma norður og aðstoða okkur við bústörfin og annað sem til féll. Er ég ævinlega þakklátur fyrir það.
Mikinn öldung höfum vér að velli lagt sagði Gissur Þorvaldsson eftir að veginn var Gunnar á Hlíðarenda. Mér dettur Pálmi í hug þegar ég heyri þessa setningu en oft tók Pálmi  svo til orða að afloknum verkum. Í dag dettur mér í hug að þessi setning gæti hljóðað þannig (völlur með aðra merkingu): Mikill öldungur er nú af velli farinn.

Ég votta fjölskyldumeðlimum mína dýpstu samúð.




Gunnar Rúnar Kristjánsson.