Kristinn Sigurðsson fæddist 1. maí 1951 á Akureyri. Hann lést á Landspítalanum 11. október 2017.

Foreldrar hans eru Anna G. Árnadóttir húsmóðir, f. 25. júlí 1924 á Eskifirði, og Sigurður Sigursteinsson bifreiðarstjóri, f. 15. september 1926 á Akureyri, d. 31. ágúst 1988. Þau bjuggu á Akureyri til ársins 1974 er þau fluttust á Seltjarnarnes. Anna dvelur nú á Grund. Bræður Kristins eru Árni Gunnar, f. 16.1. 1949, flugstjóri í Kópavogi, giftur Ingibjörgu H. Elíasdóttur, og Anton, f. 17.12. 1955, pípulagningameistari, búsettur á Seltjarnarnesi. Kona hans er Hjördís Vilhjálmsdóttir.

Kristinn lauk gagnfræðaprófi frá Akureyri árið 1968 og fór síðan til Bandaríkjanna sem skiptinemi í eitt ár. Hann dvaldi í Indiana og lauk prófi frá framhaldsskóla (e. high school). Eftir heimkomuna vann hann hin ýmsu störf þar til hann fór á samning hjá Hótel KEA árið 1970 í matreiðslu. Hann útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskólanum 1974 og öðlaðist meistararéttindi 1982. Hann vann sem matreiðslumaður á Ölandi í Svíþjóð sumarið 1974 og svo á Hótel Blönduósi til haustsins 1975. Frá 1975 til 1983 vann Kristinn hjá bandaríska sjóhernum á Keflavíkurflugvelli og síðar á Landakoti. Síðar flutti hann til Svíþjóðar og bjó þar frá 1986 til 2001 og vann sem matreiðslumaður og bílstjóri. Hann vann svo aftur hjá bandaríska sjóhernum eftir heimkomuna þar til herstöðinni var lokað. Eftir það vann hann í mötuneyti Grandaskóla þar til hann hætti um síðastliðin áramót vegna veikinda sinna.

Fyrri sambýliskona Kristins var Elísabet Sæmundsdóttir, f. 25.7. 1956. Þau slitu sambúð. Dóttir hennar úr fyrra sambandi er Guðrún Arna Steindórsdóttir, f. 30.9. 1973. Sonur þeirra er Sigurður Ingi, f. 9.8. 1978, flugvirki, búsettur í Grafarvogi. Unnusta Sigurðar er Vallý Ragnarsdóttir frá Vestmannaeyjum. Sonur Sigurðar er Hinrik Már, f. 10.10. 2007.

Seinni sambýliskona Kristins var Hildur J. Agnarsdóttir, f. 21.12. 1953. Þau slitu sambúð. Synir þeirra eru: 1) Benedikt, f. 19.8. 1987, tölvunarfræðingur, búsettur í Berlín. Unnusta hans er Eva Catharina Saxebøl frá Noregi. 2) Kristinn, f. 16.12. 1989, doktor í eðlisfræði, búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans er Margherita Zuppardo frá Ítalíu og sonur þeirra er Mattías Calogero f. 23.2. 2017. 3) Bjarni Jens, f. 10.5. 1991, stærðfræðingur, nú í meistaranámi í Hollandi. Unnusta hans er Kristrún Skúladóttir frá Akranesi.

Kristinn átti þrjá glæsibíla, var stofnmeðlimur Krúsers og meðlimur í Fornbílaklúbbnum. Hann ferðaðist árlega til Varberg í Svíþjóð, oft sem fararstjóri á fornbílamót sem þar eru haldin árlega.

Útför Kristins fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 19. október 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég veit ekki hvort bróðir minn kunni mér nokkurt þakklæti fyrir að vera að mæra hann hér í grein enda ekki fyrir að hampa sínum verkum, hæfileikum né að vera í sviðsljósinu. Tveggja ára munur var á okkur og var það eins og heil kynslóð þegar við vorum í foreldrahúsum og ég eldri, fór alfarinn 17 ára en hann þá 15. Náið samband hófst ekki fyrr en um 2000, þá báðir um fimmtugt, gegnum sameiginleg áhugamál sem voru bílar, aðallega fornbílar frá USA og vorum við þar saman í félaginu Krúser. Kristinn lætur ekki mikil veraldleg auðæfi eftir sig, kunni hins vegar að gera mikið úr litlu, hans auðæfi voru í formi fjögurra vel heppnaðra og menntaðra, frábærra sona hans sem nú syrgja góðan föður sem studdi þá á alla kanta og til náms. Tókst þeim að verða það sem hugur þeirra stóð til með hjálp hans og mæðra þeirra, en synirnir dvöldu einnig hjá þeim eftir þörfum eftir hvernig á skólagöngu stóð. Söknuður er líka mikill hjá móður okkar, sem dvelur nú á Grund, og einnig tveim afastrákum, fósturdóttur og hennar börnum. Stóri bróðir,

Árni G. Sigurðsson.

Með miklum harmi í hjarta kveð ég þig, elsku besti bróðir minn. Þú varst afar traustur, heiðarlegur, öllum góður, duglegur, vinnusamur og seinn til vandræða. Við fæddumst allir bræðurnir þrír á Akureyri og ólumst þar upp hjá foreldrum okkar. Aldursmunur okkar er rúm fjögur ár, sem er ekki mikið í dag, en þegar við vorum litlir var sá aldursmunurinn meiri og við urðum því nánari á fullorðinsárum. Eftir að Kristinn lauk skiptinemadvöl sinni í Bandaríkjunum lærði hann matreiðslu á KEA á Akureyri. Svo lá leið hans til Reykjavíkur í bóklegt nám og starfaði hann sem matreiðslumeistari alla sína starfsævi og fram að því að hann veiktist um áramótin síðustu. Hann var farinn að hlakka til að fá meiri tíma fyrir fjölskylduna og bílana, enda átti hann aðeins fá ár eftir í eftirlaun.

Kristinn skilur eftir sig fjóra mjög duglega og góða syni sem hann studdi til náms og gerði allt fyrir þá sem hægt var fyrir nokkurn föður að gera. Þeir voru líf hans og yndi. Með árunum hafa tengdadætur bæst við fjölskyldu hans og tvö barnabörn og var hann afar stoltur af þeim öllum. Hann bjó í Svíþjóð í nokkur ár og starfaði þar sem matreiðslumeistari og bílstjóri.

Fyrir utan fjölskylduna áttu bílar allan hug hans og frítíma. Heimili Kristins bar bílaáhuga hans ágætis vitni. Við bræðurnir allir höfum mikinn áhuga á bílum og margar samverustundir okkar voru tengdar bílum og við þrír eigum skúra hlið við hlið fyrir áhugamál okkar.

Ekki datt mér í hug þegar hann fór í jólafrí sitt fyrir síðustu jól að hann færi ekki aftur til vinnu sinnar. Þrátt fyrir erfið veikindi var hann duglegur að sinna lífi sínu eftir bestu getu. Hann bauð sonum sínum til sín í mat við hvert tækifæri, var duglegur að heimsækja ástkæra móður okkar á Grund og sinna bílum sínum.

Hann kom hingað til okkar konu minnar út á Seltjarnarnes í sína síðustu heimsókn nú í sumar og eftir það fórum við saman á Krúserkvöld. Svo sýndi ég honum hitaveitu Seltjarnarness í september og hann hafði mikinn áhuga á því og spurði mikið.

Nú er afar stórt skarð höggvið í tilveruna við fráfall hans og það voru mér þung skref að tilkynna aldraðri móður okkar um andlát hans. Sorgin er henni erfið eins og hjá okkur öllum og hún er með mynd af honum í ramma á brjósti sér öllum stundum. Ég votta sonum hans, tengdadætrum og barnabörnum, mína dýpstu samúð á þessum erfiðu og sorglegu tímum. Hvíldu í friði, ég mun ávallt muna þig og sakna, þinn bróðir

Anton.

Elsku, elsku Kiddi minn.

Ég þakka þér fyrir síðastliðin 43 ár. Ég þakka þér fyrir allt það góða og líka það minna góða. Ég þakka þér fyrir allt það yndislega sem við áttum í gegnum tíðina. Ég þakka þér fyrir vináttuna sem við áttum alltaf saman, fram á þinn síðasta dag.

Fegurðin er frá þér barst,

fullvel þótti sanna,

að yndið okkar allra varst,

engill meðal manna.

Hlutverk þitt í heimi hér,

þú hafðir leyst af hendi.

Af þeim sökum eftir þér,

Guð englahópa sendi.

Sú besta gjöf er gafst þú mér,

var gleðisólin bjarta,

sem skína skal til heiðurs þér,

skært í mínu hjarta.

(B.H.)

Elsku vinur minn, njóttu nýju heimkynnanna.

Elísabet (Lísa).

Kæri Kristinn, nú kveð ég þig í hinsta sinn á jörðinni. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér síðastliðin tæp fimm ár. Við hittumst ekki daglega en þegar við hittumst voru það góðar stundir. Það var ekki til neitt slæmt í þér, þú varst góður og heiðarlegur maður á góðum stað í lífinu. Baráttuna við krabbameinið háðir þú af miklu æðruleysi og nýttir hverja stund sem gafst til þess að sinna lífinu og öllum ástvinum þínum. Mér þykir dauðinn mjög erfiður, þó svo að ég viti að hann er hluti af lífinu. Að svo góður maður eins og þú værir tekinn alltof fljótt frá okkur öllum, þykir mér mjög óréttlátt.

Ég man að mér þótti það talsverð áskorun fyrst þegar þú komst til okkar Antons míns í mat, þú matreiðslumeistarinn sjálfur. En þú tókst ávallt vel til matar þíns svo ég veit að ég stóð mig vel í matargerð og veisluhöldum og það skipti mig miklu máli.

Sonum þínum, tengdadætrum og barnabörnum, ásamt öllum þínum nánustu, sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Sorg okkar allra er mikil og ekki síst elsku Mömmu þinnar og tengdamóður minnar, að missa barn sitt er öllum mjög þungbært óháð aldri. Megi góður Guð vera huggun í sorg okkar allra sem þótti vænt um þig og munu sakna þín mjög. Kveð þig nú með sömu orðum og ég kvaddi þig kvöldið áður en þú kvaddir þennan heim; sjáumst síðar.

Þú varst hraustur, þjáning alla

þoldir þú og barst þig vel,

vildir aldrei, aldrei falla:

Uppréttan þig nísti hel.

Þú varst sterkur, hreinn í hjarta,

hirtir ei um skrum og prjál;

aldrei náði illskan svarta

ata þína sterku sál.

(Matthías Jochumsson)

Þín mágkona,

Hjördís.

Hann var afskaplega góður vinur og ég mun sakna hans skelfilega mikið.

Þinn ameríski bróðir,

Timothy J. Gerbracht, Ellen og fjölskylda.