Síðustu tólf mánuðina fyrir bankahrunið 2008 var þögul togstreita milli viðskiptabankanna þriggja og Seðlabankans um, hvernig bregðast ætti við lausafjárvanda bankanna.

Síðustu tólf mánuðina fyrir bankahrunið 2008 var þögul togstreita milli viðskiptabankanna þriggja og Seðlabankans um, hvernig bregðast ætti við lausafjárvanda bankanna. Viðskiptabankarnir vildu, að Seðlabankinn tæki risastórt lán í útlöndum til að stækka gjaldeyrisforða sinn, og sumir stjórnmálamenn og jafnvel hagfræðingar líka voru því hlynntir, þar á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Þorvaldur Gylfason prófessor. Seðlabankinn taldi hins vegar, að fara yrði gætilega. Bankarnir gætu ekki ætlast til þess, þótt þeir hefðu sjálfir kosið að stækka hratt, að gjaldeyrisforðinn yrði stækkaður að sama skapi, og var hann þó hlutfallslega hinn annar stærsti í vestrænum löndum, 13% af landsframleiðslu. Þegar leið fram á árið 2008 var ekki heldur fáanlegt risalán í útlöndum á sæmilegum kjörum.

Vorið 2008 fékk Landsbankinn tvo kunna hagfræðinga, Willem Buiter og Anne Sibert, til að taka saman skýrslu til stuðnings sjónarmiðum bankanna. Þau Buiter og Sibert bentu þar á það, sem seðlabankamenn vissu jafnvel og bankamenn, að bankarnir hefðu stækkað fram yfir það, sem Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið íslenska gætu stutt á raunhæfan hátt í lausafjárkreppu. Ef Íslendingar vildu halda í þetta stóra bankakerfi í stað þess að flytja það út, þá yrðu þeir til langs tíma að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, en til skamms tíma að taka risastórt lán erlendis. Leist Buiter og Sibert einna best á að veðsetja framtíðartekjur af auðlindum landsmanna fyrir slíku láni.

Seinna kváðust Buiter og Sibert hafa varað við bankahruni, þegar þau komu til Íslands þetta vor, en eini ráðherrann, sem hitti þau að máli, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, vísar því eindregið á bug. Það skiptir þó ekki eins miklu máli og hitt, að sem betur fer var ráðum þeirra um að taka risastórt lán með veði í auðlindum ekki fylgt. Þá hefði líklega farið fyrir Íslandi eins og Púertó Ríkó, sem hafði af ýmsum ástæðum nær óheftan aðgang að lánsfé um árabil og veðsetti allar framtíðartekjur landsins, en er nú sokkið í skuldafen og brýst þar um í örvæntingu. Sem betur fer ákváðu Íslendingar að slá skjaldborg um landið og leggja ekki meiri skuldbindingar á ríkissjóð en hann réði við. Þess vegna reis Ísland í stað þess að sökkva.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is