Þorgeir Guðmundsson fæddist á Fáskrúðsfirði 10. september 1944. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 23. október 2017.
Foreldrar Þorgeirs voru Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, f. 5.1. 1907, d. 14.9. 1965, og Laufey Sigurðardóttir, f. 19.10. 1910, d. 15.7. 1995. Systkini Þorgeirs eru Sigurbjörg Bára, f. 25.10. 1929, d. 28.2. 1948, Þórdís, f. 27.8. 1931, Jóel, f. 1.7. 1936, d. 4.3. 1981, Bjarni, f. 10.8. 1938, d. 4.3. 1981, drengur f. 28.7. 1942 d. 25.10. 1942, Sigurbjörn Unnar, f. 22.7. 1947, Ómar, f. 30.6. 1953, Ingibjörg, f. 15.1. 1958, d. 21.11. 1960. Þorgeir var ógiftur og barnlaus.
Þorgeir ólst upp á Fáskrúðsfirði til tveggja ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan til Vestmannaeyja, keypti húsið Háagarð og bjó þau þar fram að gosi. Þá fluttu þau í Garðinn.
Hann byrjaði ungur að stunda sjómennsku en jafnframt því lærði hann rafvirkjun og vann lengi sem rafvirki með sjómennskunni sem hann stundaði lengst af með bróður sínum Ómari á bátnum Hlýra GK 305. Hann eignaðist síðan trilluna Eyju GK 305 og réri á henni þegar færi gafst, allt þar til hún var tekin upp fyrir veturinn nú í byrjun október. Þorgeirs var m.a. í hljómsveitunum S.Ó. og Logum frá Vestmannaeyjum á sínum yngri árum. Þá lagði hann stund á golf og sund.
Útför Þorgeirs fer fram frá Útskálakirkju í Garði í dag, 3. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.
Föðurbróðir minn, hann Geiri, er fallinn frá. Geiri frændi var mikið ljúfmenni sem ég held að öllum hafi þótt vænt um sem kynntust. Geiri vann til sjós flest ár en starfaði einnig sem rafvirki, en ég held að honum hafi liðið best á sjónum, þó að hann hafi einnig haft gaman af því að starfa sem rafvirki. Geiri var gítarleikari og var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Loga frá Vestmannaeyjum.
Geiri bjó í sömu götu og foreldrar mínir búa og var því stutt að fara til að líta við í heimsókn. Það eru góðar minningar sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa til Geira, eins og sjóferðin frá Garðinum og til Sandgerðis. Sjómannadagskránni var að ljúka og Geiri búinn að bjóða gestum og gangandi upp á siglingar, í tilefni sjómannadagsins, rétt út fyrir Garðinn. Það var kominn tími til að koma bátnum, Hlýra GK 305, í land í Sandgerði, en þar geymdi hann bátinn. Ég fékk að koma með. Ekki man ég hvað ég var gamall þá en varla hef ég verið hár í loftinu. Ég man að ég varð smá sjóveikur á leiðinni en fannst samt gaman að hafa farið þessa sjóferð með frænda og hjálpað við allt umstangið við að festa bátinn við land.
Geiri hafði gaman af golfi og fór ég stundum með honum á golfvöllinn. Hann kom manni á lagið með því að gefa mér gömlu kylfurnar hans og fórum við oft í keppni. Fyrsta skiptið okkar í golfi var keppni í pútti. Við byrjuðum á ganginum hjá ömmu Laufey með glas liggjandi á gólfinu og púttuðum golfkúlunni í glasið, helst í einu höggi. Þar skapaðist oft spennandi keppni, skemmtileg minning þar. Annað sem er í minningunni er að þegar ég kom í heimsókn var hann oft kominn í gula hægindastólinn sinn, með fætur upp á skemil, að horfa á sjónvarpið eftir langan vinnudag og með skál af poppi í hendi sem hann hafði poppað sjálfur. Fáðu þér popp, sagði hann.
Það kom fyrir að ég renndi við hjá Geira þegar ég kom í heimsókn til foreldra minna en á síðari árum hitti ég Geira meira á mannamótum. Þar ræddum við hitt og þetta, eins og pólitík, en þar urðu einstaka sinnum heitar umræður og menn ekki alltaf sammála en við gátum alltaf staðið upp sáttir frá borði og virt skoðanir hvor annars. Við ræddum þó alltaf um fiskveiðar, hvernig síðasti túr hefði gengið og hvaða verð væri í gangi. Mér þótti alltaf vænt um að spjalla við Geira frænda.
Við leiðarlok er maður dapur, en þó glaður yfir því að hafa heimsótt Geira síðustu daga hans á spítalanum. Kysstu ömmu Laufey frá mér. Hvíl í friði. Þinn frændi,
Guðmundur Unnarsson.
Kæri frændi, við kveðjum þig með sárum söknuði og vitum að þú ert kominn á góðan stað. Það er margt sem lífið kennir okkur og að þú skyldir fara svona fljótt kennir okkur að meta það sem við höfum meðan við höfum það. Minningin um elskulegan frænda mun áfram lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.
Ingibjörg Bára, Vignir Már, Kristján Már, Hrafnhildur Anna Ruth, Benedikt Ármann, Vigdís Sara og Bjarni Þorgeir.
Mér fannst alltaf svo gaman að fá þig í mat og krökkunum fannst gaman að fá þig og þótti svo vænt um þig. Þér fannst gott að borða og varst alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt.
Það er enn erfitt að átta sig á því að þú sért farinn yfir í sumarlandið en ég veit að þú ert á góðum stað með góðu fólki. Þú varst alltaf viljugur til þess að hjálpa öðrum, en ekki eins viljugur að fá hjálp frá öðrum.
Mér finnst ég ekki hafa fullþakkað Geira fyrir allt það góða sem hann gerði fyrir mig og mína fjölskyldu. Geiri, mikið á ég eftir að sakna þín. Ég mun ávallt hugsa til þín með hlýju og söknuði.
Hvíl í friði, elsku frændi.
Laufey Guðmunda
Ómarsdóttir.