[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Doddi – ekkert rugl Eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur. Bókabeitan, 2017. Innbundin, 157 bls.
Doddi – ekkert rugl er nýlega komin út hjá Bókabeitunni sem undanfarin misseri hefur gefið út mikið af barna- og unglingabókum, þýddum og íslenskum, sem er afar vel því til lítils er að reyna að fá börn til að lesa nema hafa upp á gott og fjölbreytt efni að bjóða.

Doddi – ekkert rugl er fyndin og fersk samtímasaga um líf reykvískra unglinga. Höfundarnir Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir skrifa þessa bók í sameiningu og með henni fylgja þær eftir bókinni sem kom út í fyrra, Doddi – bók sannleikans , en sú var tilnefnd til allra helstu bókmenntaverðlauna á Íslandi. Doddi, sem segir frá í bókunum í eins konar dagbókarformi, hefur sjálfur sagt að unglingabækur séu ýmist of þykkar, ævintýralegar eða gerist í fornöld og tekur því til sinna ráða. Bókin um Dodda er ekkert af þessu, hún er raunsæ saga um líf Dodda sem er upprennandi skordýrafræðingur og vinar hans Pawels sem er mikið stærðfræðiséní og hin (ó)hversdagslegu ævintýri sem á daga þeirra drífa á nokkurra mánaða tímabili árið 2016. Nokkrar þjóðþekktar persónur koma við sögu og þessir strákar á fimmtánda ári í Hlíðunum lenda í hringiðu atburða sem settu allt á annan endann í íslensku samfélagi í fyrra og felldu að lokum heila ríkisstjórn. Þeir félagar taka einnig þátt í femínískri byltingu sem skólasystur þeirra leiða af miklum eldmóð og lýkur með því að Hlíðaskóli er frelsaður undan feðraveldinu, hvorki meira né minna.

Það sem drífur söguna helst áfram er þráðurinn sem spinnst í kringum dularfullan og að því er virðist varasaman útlending sem er að sniglast í kringum mömmu Dodda. Það skiptir engum togum að þeir vinirnir fara í heilmikla njósnaleiðangra til að komast til botns í því máli. Þetta er ágætlega skemmtilegt en maður veltir þó fyrir sér hvort málalok hitti alveg í mark hjá unglingum miðað við þá spennu sem hefur verið byggð upp. En sagan heldur áfram og nær hápunkti á mótmælunum frægu á Austurvelli vorið 2016 þegar Doddi lendir óvænt í miklum hremmingum og ástarsamband hans og Huldu Rósar sem lesendur kynntust í fyrri bókinni tekur dramatískan kipp.

Doddi – ekkert rugl er mjög fyndin, sú sem hér skrifar skellti oft upp úr við lesturinn. Doddi og Pawel eru miklir brandarakarlar en húmorinn liggur þó ekki síst í því að Doddi spáir í ýmis flókin og fullorðinsleg mál ef svo má segja en sníður þeim frekar barnalegan búning og þessi blanda verður oft og tíðum kostuleg og fyndin. Bókin er kynnt sem unglingabók en er að mínu viti líka fyrir aðeins yngri lesendur og foreldrar geta án efa einnig haft gaman af henni. Yngri lesendur hafa þó kannski minni áhuga en Doddi sjálfur á ástamálum og geta verið feimin við slíkar pælingar en allt er þar innan skikkanlegra marka enda Doddi bara að stíga sín fyrstu skref á hálu sviði ástarinnar.

Þetta er vel skrifuð og skemmtileg bók þar sem íslenskur samtími er skoðaður með augum unglingsins.

Hildigunnur Þráinsdóttir