Uppi í garða Ukulele krefst þess að fá enn pela, enda bæði frek og fordekruð. Ásta Rut kann lagið á henni.
Uppi í garða Ukulele krefst þess að fá enn pela, enda bæði frek og fordekruð. Ásta Rut kann lagið á henni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum þegar hún kom í leitirnar, eftir að hafa verið týnd í tvo og hálfan mánuð. Klóka kindin Ukulele lambastelpa er frekari en nokkru sinni fyrr og vill ei vera í fjárhúsi.

Hún týndist greyið, aðeins þremur vikum eftir að greinin um hana birtist í Morgunblaðinu. Þá var hún enn á pela og ósköp ósjálfbjarga, nýhætt að vera í samfellunni sem hún klæddist. Við leituðum að henni í marga daga. Dætur mínar gengu hér um nágrennið og fóru nokkrar ferðir á fjórhjólum að leita að henni en án árangurs. Hún var þá talin af,“ segir Karen Rut Konráðsdóttir, bóndi á Syðra-Álandi í Þistilfirði, og á þar við gimbrina Ukulele lambastelpu sem rataði hér á þessar síður í vor, með viðtali við eigendur Lúlla lambs á Söndum í Miðfirði, en bæði þessi lömb fæddust svo agnarsmá að þeim var vart hugað líf. Þau voru tekin inn á heimili sín og að þeim hlúð dag og nótt, þeim gefinn peli og sett í bleyju. Og urðu lömbin fyrir vikið fordekruð og miklir heimilisvinir.

„Ukulele lambastelpa týndist þegar ég fór með dóttur mína í keppnisferðalag til Svíþjóðar í sumar, og bóndinn átti að hafa auga með litlu gimbrinni á meðan. En hann hafði ekki mikinn tíma til þess að standa í lambadekri inni á heimilinu, svo hann setti gimbrina út á tún með öðrum heimalningum. Þeir voru mun meira sjálfbjarga en hún sem vissi varla greyið hvað kind var, eftir að hafa verið í fanginu á okkur frá því hún kom í heiminn. Hún forðaði sér því úr þessum ferfætta félgasskap og hefur eflaust farið að leita að tvífættu mannfólki. Hún hvarf sem sagt, það var eins og jörðin hefði gleypt hana. Hún var náttúrlega svo lítil að hún gat troðið sér hvar sem var út fyrir girðingar.“

Allt samfélagið í sveitinni hafði áhuga á hvarfi lambastelpu

Karen segir að dæturnar hafi tekið hvarf gimbrarinnar nærri sér, enda Ukulele lambastelpa sem ein af heimilisfólkinu.

„Allt samfélagið hér í sveitinni hafði áhuga á hvarfi hennar, allir voru að spyrja hvar hún gæti verið, enda þekkti fólk hana vel, hún hafði verið með okkur á kaffihúsinu á Þórshöfn. Það bætti ekki úr skák að maðurinn minn fann dautt lamb úti á túni, frekar smátt og hrafnarnir voru búnir að taka merkið úr því, og við héldum að þetta væri Ukulele. En við sögðum ekki yngstu dóttur okkar frá því, Ástu Rut sem er fimm ára, en fyrir vikið þá missti hún aldrei vonina um að gimbrin kæmi í leitirnar. Hún fullyrti að hún kæmi með haustinu þegar kindurnar kæmu í réttirnar.“

Og sú stutta reyndist sannspá því að loknum réttum og haustsmölun gaf Ukulele lambastelpa sig óvænt fram heima á hlaðinu á bænum Brekknakoti sem er tæpa 20 km frá bæ Karenar.

„Bóndinn á Brekknakoti kom hér í heimsókn og hann hafði lítið lamb í framsætinu á bílnum sínum. Við ætluðum ekki að trúa okkar eigin augum, en þarna var hún komin aftur lambastelpan okkar, tveimur og hálfum mánuði síðar, lítið stærri en um vorið. Það varð uppi fótur og fit á bænum, dæturnar ruku til og blönduðu pela alveg í hvelli handa henni. Þetta urðu miklir fagnaðarfundir.“

Hún ryðst yfir allar grindur og það halda henni engin bönd

Lambastelpan er enn ósköp lítil en byrjuð að braggast og er komin á hús með kindunum á bænum.

„Það gengur ekki nógu vel að venja hana af pelanum. Um leið og hún heyrir okkur nálgast fjárhúsin byrjar hún að kalla frekar frekjulega, stekkur upp í garðann og bíður við dyrnar. Þá er vissara að vera klár með pelann.

Hún er orðin yfirgengilega frek og ágeng, eins og títt er um heimalninga. Hún ryðst yfir allar grindur og það halda henni engin bönd. Hún leitar færis í hvert sinn sem hún sér smugu að komast inn í bæ, hún vill sitt fyrra dekurlíf. En við látum það ekki eftir henni. Hennar framtíð felst í að fullorðnast, eignast lömb og sinna sínu hlutverki líkt og aðrar ær.

En hún verður eflaust frekasta rollan í fjárhúsunum, og auðvitað mun hún njóta ákveðinna forréttinda, hún mun fá nammi og klapp reglulega, fyrst henni tókst að lifa af þessar hrakfarir. Okkur finnst alveg með ólíkindum að þetta litla kríli sem var varla byrjað að éta gras þegar hún týndist, skuli hafa lifað af og skilað sér heim tveimur og hálfum mánuði síðar. Hún ferðaðist þessa tuttugu kílómetra ein sín liðs og þurfti á ferð sinni að komast yfir Sandá og Svalbarðsá í Þistilfirði. Ég verð að segja að þetta er mjög klókt lítið lamb, að hún hafi fundið brýrnar yfir árnar og komast alla þessa leið,“ segir Karen sem hlakkar til að fylgjast með Ukulele lambastelpu verða að fullorðinni frekjudós.