Áslaug Þóra Einarsdóttir fæddist 26. nóvember 1935 á Núpstað á Höfn í Hornafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði 8. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru Einar Guðberg Sigurðsson, f. 22. september 1892, d. 26. febrúar 1947, og Sigrún Halldórsdóttir, f. 29. maí 1899, d. 15. desember 1992. Systkini Áslaugar Þóru, samfeðra, voru: Lúðvík Ferdinand Einarsson, f. 1918, d. 1934; Gunnar Einarsson, f. 1919, d. 2004; Guðrún Einarsdóttir, f. 1920, d. 1996; Bergþóra Hulda Einarsdóttir, f. 1921, d. 1930; Ingimar Jónsson Einarsson, f. 1925, d. 2001. Eiginmaður Áslaugar Þóru var Þorgeir Kristjánsson, f. 1. október í Reykjavík 1935, d. 20. júní 2008. Þau giftu sig 23. desember 1955 og bjuggu allan sinn búskap á Svalbarði 1 á Höfn í Hornafirði. Saman eiga þau fimm börn: 1) Þórarinn Kristjánsson, f. 23. desember 1953, maki Inga Kristjana Sigurjónsdóttir, f. 25. janúar 1954, sonur þeirra er Ásgeir, maki Bergþóra Jónsdóttir, börn þeirra eru Dagur, Inga Lilja og Birta Sól. 2) Kristján Olgeir Þorgeirsson, f. 9. maí 1955, maki Bára Sigurðardóttir, f. 29. janúar 1956, börn þeirra eru: Atli, maki Díana Hilmarsdóttir, börn þeirra eru Ísabella og Hilmar Andri; Stella Rún, maki Einar Birgir Bjarkason, börn þeirra eru Guðjón Leifur og Ólavía Karen; Hafsteinn Dan, sambýliskona Gerður Guðmundsdóttir; og Sandra Dís. 3) Þórhallur Dan Þorgeirsson, f. 8. júní 1962, maki Hafdís Hafsteinsdóttir, f. 17. október 1965, dætur þeirra eru: Ása María, sambýlismaður Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, synir þeirra eru Þorsteinn Dan og Kjartan Daði; Anna Lind, sambýlismaður Atli Arnarsson; og Thelma Ýr. 4) Harpa Dan Þorgeirsdóttir, f. 1. janúar 1966, maki Björn Þórarinn Birgisson, f. 4. mars 1966, börn þeirra eru: Karítas Dan, sambýlismaður Bjarki Þorláksson, dóttir þeirra er Ylva Mekkín og Þorgeir Dan. 5) Börkur Geir Þorgeirsson, f. 15. október 1970, dætur hans eru: Alexandra Pálína og Sigrún Ösp, móðir Guðrún Diljá Lúðvíksdóttir, sambýliskona hans er Ástbjörg Jónsdóttir, f. 17. apríl 1972, og dætur hennar eru: Sara Margrét og Alda María.

Áslaug Þóra, eða Ása Þóra eins og hún var oftast kölluð, ólst upp á Höfn í Hornafirði á Núpstað hjá móður sinni ásamt móðursystur sinni, Áslaugu, og Þórarni Núpan og syni þeirra Ásgeiri Núpan. Ása Þóra starfaði meðal annars sem húsmóðir, við fiskvinnslu, verslunarstörf, kennslu og verslunarrekstur. Einnig var hún virk í félagsstarfi innan Lions og ýmsu fleira. Eftir að Þorgeir eiginmaður Ásu Þóru féll frá hélt hún ein heimili þar til hún flutti á hjúkrunarheimilið Skjólgarð í mars 2015.

Útför Áslaugar Þóru fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 18. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 11.

Elsku mamma, þú hefur nú loksins fengið hvíldina eftir mörg erfið ár og sérstaklega síðastliðna mánuði. Ég veit að þér líður vel núna og ert örugglega komin í faðm pabba sem hefur tekið á móti þér með bros á vör.

Þegar náinn ástvinur kveður þennan heim fer maður ósjálfrátt að rifja upp allskonar minningar en það er jú það sem eftir stendur hjá þeim sem eftir eru. Minningarnar hlýja manni og gleðja og hjálpa oft til við að takast á við sorgina, þótt þær kalli líka fram tár og söknuð.

Ég man hvað það var alltaf gott að koma til þín og pabba út á Svalbarð, alltaf tekið vel á móti manni og auðvitað boðið upp á bakkelsi eða mat, ekki mátti maður nú fara frá ykkur svangur. Þú kenndir mér svo margt sem ég hef haft mér til leiðsagnar í gegnum mín ár bæði í æsku og er ég varð fullorðin. Maður kom aldrei að tómum kofunum ef maður var í vandræðum með eitthvað. Þú reyndir t.d. að kenna mér ýmiskonar handavinnu og gekk það nú misvel og að baka en ég virtist nú ekki hafa erft þá eiginleika frá þér en þú varst einstaklega flink í þessu og í svo mörgu öðru.

Einnig var á seinni árum svo yndislegt að fá að hafa ykkur pabba og seinna þig, er pabbi var fallinn frá, hjá okkur á jólunum. Þá var skipst á að vera hjá okkur krökkunum á Höfn og svo fóruð þið/þú líka suður til strákanna sem þar búa. Ég veit að barnabörnin ykkar voru svo ánægð að fá að hafa ykkur/þig hjá sér á þessum stundum.

Eitt af því sem var þitt hjartans mál var að hafa fjölskylduna þína hjá þér og í kringum þig og eins var það með pabba. Þið buðuð okkur oft í mat, skipti ekki máli hvaða dagur það var og barnabörnin ykkar sóttust í að fá að koma í heimsókn og ekki var verra ef þau náðu því fram að fá að gista, þá voru þau alsæl og þið ekki síður. Ég held að það hafi varla liðið einn dagur sem ég eða börnin mín kíktum ekki aðeins í heimsókn eða hringdum til að eiga smá spjall.

Það er erfitt að ætla að telja allt upp sem kemur upp í hugann, því af mörgu er að taka, eins og ferðalögin sem farin voru eða bara rúntur út á fjörur, upp í sveit, farið var á skauta, tekið var í spil en við spiluðum mikið ýmiskonar spil, sem og borðspil, og svo margt fleira.

Með þessum skrifum vil ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér í gegnum árin og verð ég endalaust þakklát fyrir þau ár sem við áttum saman sem hefðu mátt vera fleiri.

Hvíl í friði, elsku mamma mín, ég elska þig og megi Guð vera með þér og varðveita.

Þegar lífið slokknar,

þá ber sorgin á dyr.

Tárin leka og andlit blotna,

og ekkert er eftir nema minningin ein.

Á meðan ég lifi,

mun minning ei deyja,

né samverustundir með þér.

Að lokum mun sorgin burt víkja,

og gleði og hlátur aftur ríkja,

þannig er lífsins ganga.

Elsku mamma hvíldina hefur fengið.

Við eftir stöndum með tárvota hvarma.

Við kveðjum þig hérna hinstu kveðju

Megi drottinn blessa og varðveita þig.

(H.D.Þ.)

Hvíl í friði, elsku mamma mín, og sofðu rótt.

Ástarkveðjur, þín dóttir,

Harpa Dan Þorgeirsdóttir.

Elsku amma okkar.

Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur, mikið erum við þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér svona vel og alast upp aðeins nokkur skref frá þér.

Minningar okkar um þig eru svo margar og góðar að við brosum með öllu andlitinu. Byrjum á þér sem ömmu, þú varst alltaf svo fín og flott vel til höfð á háum hælum, með bleikan varalit og yfirleitt í svörtu, grænu eða gylltu og með fullt af fallegu gullskarti eða perlur. Þú varst bókstaflega gull af ömmu. Svo góðhjörtuð, skemmtileg, uppátækjasöm með manni, þolinmóð og flink í eldhúsinu og kenndir okkur svo margt um lífið og tilveruna.

Einnig minnumst við þess hve gaman þér fannst að horfa á Formúlu 1 og Leiðarljós, ha ha...okkur fannst það svo geggjað. Og þegar við voru lítil leituðum við svo mikið til þín. Við munum að við vildum oft frekar fara í heimsókn til þín en leika við vini okkar. Þá munum við svo vel að við elskuðum að spila rommí við þig, fara með þér á símstöðina og hjálpa þér að skúra, eða aðstoða í búðinni hjá ykkur afa. Og ég, Karítas, man svo vel hve gaman var að fá að máta alla hælaskóna þína sem þú áttir svo mikið af, skoða allt snyrtidótið þitt og máta skartið sem þú áttir heilan helling af. Já, þú varst svo flott kona og við litum svo upp til þín, amma okkar, þú gerðir allt svo lifandi og skemmtilegt. Þá var nú aldeilis gaman að fá að fara í ferðalögin með þér og afa, fá að gista og sofa upp í hjá ykkur, það var best, og svo bara að hanga saman og spjalla. Við eigum sko aldeilis flott og stórt minningabox af mikilvægum stundum sem við erum svo heppin að hafa fengið að upplifa með þér og minnumst við alls sem þú kenndir okkur og allra okkar eftirminnilegu stunda með gleði í hjarta.

Hvíldu í friði, elsku ömmugullið okkar, nú vitum við að þér líður vel og ert komin í afafang þar sem þér leið best.

Ástarkveðja þín barnabörn,

Karítas Dan og Þorgeir Dan.

Elsku amma.

Þegar við systurnar hugsum til baka streyma minningarnar til okkar. Það sem kemur upp einna helst er hvað það var alltaf þægilegt að vera í kringum þig, þú varst alltaf svo afslöppuð og ekki til stress á heimilinu. Það var ekki amalegt að fá að vera í pössun hjá ömmu og afa þar sem maður fékk að strá sykri yfir cheeriosið, drekka kókómjólk og spila rommí við meistarann sjálfan.

Þú leyfðir okkur að fara í gegnum alla skartgripina þína, sem var alltaf í miklu uppáhaldi enda varst þú alltaf svo vel til höfð og ekki var verra að fá að máta alla fínu hælaskóna sem þú áttir í hvert einasta skipti þegar maður kom í heimsókn.

Okkur er einnig minnistætt á einu ættarmótinu þegar krakkarnir drógu alla með í fótbolta. Þú varst í marki í flatbotna skóm, sem var sjaldséð sjón, en ekki var nóg með heldur ákvaðst þú að skutla þér eftir boltanum eins og ekkert væri eðlilegra og göptum við krakkarnir á þig, hrædd um að þú hefðir slasað þig en svo var ekki.

Nú er komið að kveðjustund og eigum við eftir að sakna þín mikið. Við vitum þó að þú ert komin á góðan stað til Bóbó afa, sem hefur beðið eftir þér. Guð blessi þig, amma mín, og vitum við að þú munt alltaf vera með okkur, hvíldu í friði.

Ástarkveðjur, þínar

Alexandra og Sigrún Ösp.

Elsku Ása amma.

Á Svalbarða ég fór þegar það var sumar,

til að hitta ömmu og afa sem áttu það til að gefa mér humar.

Ása amma var svaka fín frú,

sem trítlaði á hælaskónum yfir fjöll og brú.

Hún hugsaði vel um okkur öll,

og passaði að vera til staðar fyrir okkar helstu föll.

Félagsvera var hún og vildi helst spjalla um allt og við alla,

á meðan hann Bóbó afi smíðaði palla.

Hvernig verður lífið núna án ömmu og afa,

sem ég hélt ég myndi alltaf hafa.

En lífið gengur sinn vanagang,

og við erum heppin að hafa verið í ömmu fangi.

Því ekki eru allir svo heppnir að eiga ömmu eins og Ásu,

sem var frábær, dugleg og aldrei tók sér pásu.

En nú er liðið að endalokum þínum

og því kveð ég þig hér með orðum mínum.

Þitt barnabarn,

Sandra Dís.