Reglan um að aðeins megi einn erlendur leikmaður vera inni á velli í einu hefur eflt íslenskan körfubolta

Réttvísin er blind, segir orðtakið, og er þar átt við það að fyrir henni skuli allir sitja við sama borð, jafnt háir sem lágir. Óhentugt er hins vegar þegar blinda réttvísinnar virðist ná til efnisatriða máls.

Á miðvikudag sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) Íslandi álit þar sem fram kemur að sú regla, sem hefur verið við lýði í efstu deildum í körfubolta á Íslandi þess efnis að aðeins megi einn erlendur leikmaður vera inni á vellinum í einu, stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Sagði í frétt mbl.is um málið að í álitinu kæmi fram að körfuboltamenn frá öðrum ríkjum innan EES ættu að hafa sömu réttindi til atvinnu á Íslandi og íslenskir leikmenn. Til að árétta alvarleikann er talað um að í reglunni sé fólgin mismunun á grundvelli þjóðernis.

„Einn grunnþátta EES-samningsins er sameiginlegi vinnumarkaðurinn sem gerir Íslendingum kleift að starfa í öðrum Evrópulöndum og njóta réttinda þar,“ var haft eftir Helgu Jónsdóttur, stjórnarmanni ESA, í fréttatilkynningu um álitið. „Samningurinn er gagnkvæmur og körfuboltamaður frá öðru EES-ríki sem spilar á Íslandi á því að njóta sömu réttinda og íslenskir leikmenn.“

Tilgangurinn með reglunni um að aðeins megi einn erlendur leikmaður vera inni á vellinum í einu, hinni svokölluðu 4+1 reglu, er að efla íslenskan körfubolta. 4+1 reglan var sjálfsagt höfð þannig að lið mættu vera með eins marga útlendinga á mála og þeim sýndist, en aðeins einn inni á vellinum í einu, til þess að komast framhjá þeim reglum, sem gilda á EES í þessum efnum. Áður var sú regla að aðeins mátti hafa einn leikmann frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (lesist Bandaríkjunum) og síðan eins marga frá löndum innan EES og lið höfðu efni á eða vildu steypa sér í skuldir vegna.

Þetta þýddi að íslenskir leikmenn, sem jafnvel höfðu leikið fyrir sín lið upp alla yngri flokkana, gátu litla von gert sér um að vera í lykilhlutverki þegar á hólminn var komið í meistaraflokki.

Eftir að 4+1 reglan var innleidd hefur orðið reginbreyting á því. Íslenskir leikmenn eru burðarásar nánast allra liða í meistaraflokki. Erlendu leikmennirnir eru vissulega atkvæðamiklir, en það er ekki hægt að halda fram með sama hætti og áður að liðin standi og falli með þeim.

Þessi regla er ein af ástæðunum fyrir velgengni íslenska karlalandsliðsins í körfubolta undanfarin misseri. Í tvígang hefur liðið nú tryggt sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í körfubolta. Það er ekki síst vegna þess að í liðinu eru leikmenn, sem hafa fengið að axla ábyrgð með sínum félagsliðum á Íslandi. Þar hafa þeir fengið reynslu og slípast í leik sínum og oft hefur það opnað dyr þeirra að atvinnumennsku erlendis.

Og þá er komið að lykilatriðinu. Að hve miklu leyti er körfubolti atvinnugrein á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að þorri þeirra, sem leika körfubolta í efstu deild á Íslandi, fær ekki borgað fyrir. Þeir sem á annað borð fá greitt fá sjaldnast það mikið að það dugi til lífsviðurværis og myndu enn sjaldnar falla í hóp hátekjumanna. Fyrir utan ólaunaða leikmenn inni á vellinum er mestallt starf í kringum liðin og umgjörð leikja unnið í sjálfboðavinnu.

Það er því í besta falli hægt að segja að í efstu deildum körfubolta á Íslandi sé stunduð hálfatvinnumennska. Það gildir ugglaust einu þegar ESA er annars vegar. Þar eru FC Barcelona og Bayern München lögð að jöfnu við Hött á Egilsstöðum og Tindastól á Sauðárkróki. Eitt skal yfir alla ganga þótt alls ekki sé verið að tala um sambærilega hluti.

Þessu máli er enn ekki lokið. Það er í ferli, eins og sagt er. Í sumar var Íslandi sent formlegt áminningarbréf og íslenska ríkinu gefinn þriggja mánaða frestur til andmæla. Hann mun ekki hafa verið nýttur. Tveir mánuðir eru til stefnu að bregðast við álitinu, sem barst á miðvikudag.

Í sömu viku og álitið barst kom einnig áminning um að Íslendingum væri ekki stætt á að takmarka innflutning kjöts af heilbrigðisástæðum. Má greinilega einu gilda þótt hér hafi tekist með lítilli sýklalyfjanotkun að koma í veg fyrir fjölónæmar veirur í íslenskum kjötafurðum ólíkt því sem gerist á meginlandinu. Heilbrigði skiptir greinilega minna máli en viðskipti og því eru heilbriðgisráðstafanir skilgreindar sem viðskiptahindranir.

Niðurstaða ESA um 4+1 regluna gæti fært íslenskan körfuknattleik aftur um marga áratugi. Hún slær á vonir um að íslenskur körfubolti muni halda áfram að eflast og dafna að sama skapi og hann hefur gert undanfarin misseri. En það verður þá ekki hægt að segja að íslenskum félagsliðum sé hyglað umfram það sem gerist meðal liða sterkustu körfuboltaþjóða Evrópu næst þegar þau mætast í Evrópukeppni.