Alþingi Þar er í nógu að snúast þótt þingið sé ekki að störfum.
Alþingi Þar er í nógu að snúast þótt þingið sé ekki að störfum. — Morgunblaðið/Ómar
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Starfsfólk Alþingis situr ekki auðum höndum þótt þingið sé ekki að störfum þessa dagana. Mikill erill er í þinghúsinu á hverjum degi að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Starfsfólk Alþingis situr ekki auðum höndum þótt þingið sé ekki að störfum þessa dagana. Mikill erill er í þinghúsinu á hverjum degi að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. „Vinnudagur minn er ekki styttri en áður,“ segir hann. Helgi segir að það sé útbreiddur misskilningur að starfsfólk þingsins eigi náðuga daga meðan þingfundir eru ekki haldnir. Starfsemi þingsins sé miklu víðtækari en svo. „Hér er stöðug umferð um húsið alla daga núna. Þingmenn eru hér á fundum og við ýmis störf. Við vinnum nánast eins og við eðlilegar aðstæður,“ segir hann.

Helgi segir að sér reiknist til að það sé aðeins um þriðjungur starfsmanna Alþingis sem sé beinlínis háður því hvort þingið er að störfum eða ekki. Aðrir séu að sinna öðrum föstum verkefnum, svo sem í fjármáladeildinni, við starfssmannahald, næturvörslu og fasteignaumsjón. „Við reynum að nota tímann meðan þingið starfar ekki til ýmiss konar undirbúnings, viðhalds og umhirðu,“ segir hann. Mikið sé um heimsóknir í þinghúsið, ekki síst nemenda í skólum sem koma í skipulögðum ferðum, og ýmissa annarra gesta. Þá sinni Alþingi áfram viðamiklu alþjóðasamstarfi sem starfsfólkið taki þátt í.

Hugað að nýbyggingu

Meðal undirbúningsverkefna sem verið er að huga að um þessar mundir er nýbygging þingsins á Alþingisreitnum. Hönnun er að mestu lokið og vonir bundnar við að jarðvegsframkvæmdir geti hafist á næsta ári. Mikil umskipti til hins betra verða í húsnæðismálum þingsins þegar nýbyggingin verður tekin í notkun.

„Svo er hér fram undan í lok mánaðarins viðamikið þing samtakanna WPL, Women Political Leaders, sótt af um 400 konum, þar á meðal nokkrum þjóðarleiðtogum, og haldið í Hörpu. Þingið er haldið í samstarfi við Alþingi og kallar á talsverðar annir starfsfólk hér meðan á því stendur,“ segir Helgi. Hann segir að til hafi staðið að halda móttöku fyrir þingfulltrúa í þinghúsinu en það geti ekki orðið vegna þess hve fjöldi þátttakenda er orðinn mikill.

Helgi segir að gangi myndun ríkisstjórnar eftir í næstu viku, eins og um hefur verið rætt, sé líklegt að Alþingi komi saman til funda um mánaðamótin. Það sé orðið aðkallandi vegna fjárlagavinnunnar sem framundan er en samþykkja verður fjárlög fyrir áramót. Staðan verði þá betri en í fyrra þegar þing kom saman án þess að ríkisstjórn, ábyrg fyrir fjárlagafrumvarpinu, hefði verið mynduð.