Íslendingar eru ein fámennasta þjóð heims. Engu að síður liggja eftir hana fjórar stórmerkar uppgötvanir, þótt þær hafi ekki allar vakið jafnmikla athygli umheimsins.
Í fyrsta lagi fundum við auðvitað Ameríku árið 1000, þótt Oscar Wilde bætti því við í gamni, að við hefðum verið nógu skynsöm til að týna henni aftur. Þegar stjórnarerindreki einn á leið til Ameríku varð innlyksa í Kaupmannahöfn upp úr 1920, kallaði Jónas Jónsson frá Hriflu hann ýmist Anti-Kólumbus, manninn sem fann ekki Ameríku eða Árna óheppna.
Í öðru lagi stunduðum við hér lagasetningu og réttarvörslu án nokkurs ríkisvalds í röskar þrjár aldir, 930-1262. Þjóðveldið hefur víða vakið undrun og aðdáun, og í októbermánuði síðastliðnum flutti bandaríski hagfræðingurinn David Friedman bráðskemmtilegt erindi í Háskóla Íslands um ýmsa þætti þess.
Í þriðja lagi römbuðum við á kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda, eftir að við eignuðumst Íslandsmið óskipt, en áður höfðu útlendingar veitt helming heildaraflans þar. Þetta kerfi er í senn arðbært og sjálfbært, og höfum við Ragnar Árnason prófessor haldið ófáar ráðstefnur með helstu sérfræðingum heims um það mikla mál.
Í fjórða lagi kemst ég að þeirri niðurstöðu í væntanlegri skýrslu til fjármálaráðuneytisins að snjallræði hafi verið í október 2008 að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka. Þetta hafði raunar tíðkast í Sviss og Bandaríkjunum að vissu marki, en fullt tilefni er til að gera þetta að alþjóðlegri reglu. Það hefði tvo kosti: Aðrir lánveitendur banka yrðu varfærnari og ríkið þyrfti ekki að tryggja innstæður. Freistingar bankamanna myndu minnka og er ekki vanþörf á.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is