Íslendingar eru ein fámennasta þjóð heims. Engu að síður liggja eftir hana fjórar stórmerkar uppgötvanir, þótt þær hafi ekki allar vakið jafnmikla athygli umheimsins.

Íslendingar eru ein fámennasta þjóð heims. Engu að síður liggja eftir hana fjórar stórmerkar uppgötvanir, þótt þær hafi ekki allar vakið jafnmikla athygli umheimsins.

Í fyrsta lagi fundum við auðvitað Ameríku árið 1000, þótt Oscar Wilde bætti því við í gamni, að við hefðum verið nógu skynsöm til að týna henni aftur. Þegar stjórnarerindreki einn á leið til Ameríku varð innlyksa í Kaupmannahöfn upp úr 1920, kallaði Jónas Jónsson frá Hriflu hann ýmist Anti-Kólumbus, manninn sem fann ekki Ameríku eða Árna óheppna.

Í öðru lagi stunduðum við hér lagasetningu og réttarvörslu án nokkurs ríkisvalds í röskar þrjár aldir, 930-1262. Þjóðveldið hefur víða vakið undrun og aðdáun, og í októbermánuði síðastliðnum flutti bandaríski hagfræðingurinn David Friedman bráðskemmtilegt erindi í Háskóla Íslands um ýmsa þætti þess.

Í þriðja lagi römbuðum við á kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda, eftir að við eignuðumst Íslandsmið óskipt, en áður höfðu útlendingar veitt helming heildaraflans þar. Þetta kerfi er í senn arðbært og sjálfbært, og höfum við Ragnar Árnason prófessor haldið ófáar ráðstefnur með helstu sérfræðingum heims um það mikla mál.

Í fjórða lagi kemst ég að þeirri niðurstöðu í væntanlegri skýrslu til fjármálaráðuneytisins að snjallræði hafi verið í október 2008 að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka. Þetta hafði raunar tíðkast í Sviss og Bandaríkjunum að vissu marki, en fullt tilefni er til að gera þetta að alþjóðlegri reglu. Það hefði tvo kosti: Aðrir lánveitendur banka yrðu varfærnari og ríkið þyrfti ekki að tryggja innstæður. Freistingar bankamanna myndu minnka og er ekki vanþörf á.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is