Lokamótið Löngu keppnistímabili fer að ljúka hjá Ólafíu Þórunni.
Lokamótið Löngu keppnistímabili fer að ljúka hjá Ólafíu Þórunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur er í 44. sæti þegar Tour Championship, lokamót bandarísku LPGA-mótaraðarinnar í golfi, er hálfnað í Naples á Flórída.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur er í 44. sæti þegar Tour Championship, lokamót bandarísku LPGA-mótaraðarinnar í golfi, er hálfnað í Naples á Flórída.

Fuglarnir létu á sér standa hjá Ólafíu á öðrum hringnum í gær. Hún fékk tvo slíka en á hinn bóginn fjóra skolla. Restina paraði Ólafía og skilaði inn skori upp á 74 högg sem er því tvö högg yfir pari vallarins.

Samtals er Ólafía á pari eftir að hafa spilað á 70 höggum fyrsta daginn. Að honum loknum var Ólafía í 18. sæti og féll hún því nokkuð niður listann í gær. Einungis 74 kylfingar fengu keppnisrétt í mótinu og var þar miðað við samanlagðan árangurinn á mótaröðinni á árinu. Keppendafjöldi er því ekki skorinn niður að 36 holum loknum af þeim 72 sem spilaðar eru.

Til mikils er að vinna í lokamótinu eins og við var að búast en heildarverðlaunaféð er 2,5 milljónir dollara eða um 260 milljónir króna sem dreifist á kylfingana. Ólafía er í 179. sæti heimslistans og kemur væntanlega til með að hækka á þeim lista að mótinu loknu.

Sung Hyun Park frá Suður-Kóreu er í efsta sæti þegar mótið er hálfnað en hún er í 2. sæti heimslistans. Park er á samtals 12 höggum undir pari. Hefur hún þriggja högga forskot á Caroline Massan og Söruh Jane Smith.