„Eyjafjarðarsvæðið er í herkví sem verður að rjúfa. Orkan sem flutt er inn á svæði er alltof lítil miðað við hvað þarf til uppbyggingar í atvinnulífinu. Ísland hefur búið við mikinn hagvöxt og er það þannig að aukinn hagvöxtur kallar á aukna raforku en því miður hefur svæðið ekki búið við þau gæði. Við erum því í raun í pattstöðu,“ segir Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Akureyrar.
Línurnar barn síns tíma
Þörf er á að styrkja orkuflutninga um landið svo svara megi þörfum atvinnulífsins á Norðurlandi. Í því efni segir Sigmundur kostina vera tvo; annars vegar styrkingu á Byggðalínunni svonefndu þannig að spenna hennar fari úr 132 kV upp í 220 kV. Hinn möguleikinn sé svo sá að lögð verði háspennulína, 220 kV lína, frá virkjunum á sunnanverðu hálendinu yfir Sprengisand og hún tengd kerfinu fyrir norðan. Báðir þessir valkostir hafa hins vegar mætt andstöðu sem stoppar allt. Þá eru á Eyjafjarðarsvæðinu engar ár með þann fallþunga að þar sé hægt að setja upp virkjun sem skilar því orkumagni sem muna myndi um í hinu stóra samhengi.Í orkuöflun fyrir Eyjafjarðarsvæðið er nærtækast að benda á Blönduvirkjun, en uppsett afl hennar er 150 KW. Því miður, segir Sigmundur, eru flutningslínur frá virkjuninni til austurs það veikar að ekki er hægt að flytja nema tæp 100 MW frá henni vegna þess að línurnar eru barn síns tíma og bera ekki meira.
Hægt væri, að mati Sigmundar, að bæta úr þessu og auka flutningsgetuna frá virkjuninni með nýrri línu sem lengi hefur verið í vinnslu, Blöndulínu 3, auk þess sem lengi hefur verið í skoðun að setja upp þrjár litlar virkjanir milli Blöndulóns og Gilsárlóns, inntakslóns Blöndustöðvar, til þess að fullnýta allt að 68 metra fall á veituleiðinni til orkuöflunar. Uppsett afl yrði um 30 MW og yrði Blönduvirkjun þá komin með uppsett afl upp á um það bil 180 MW. Þeirri orku yrði þá veitt inn á Blöndulínu 3 sem auðvitað yrði þá að vera komin, en sú lína hefur mætt mikilli andstöðu landeigenda. Blöndulína 3 er þó forsenda þess að sú orka sem framleidd er í Blönduvirkjun komist á kerfið og nýtist.