[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Hornafjörður Albert Eymundsson Ótrúlegur uppgangur hefur verið í byggingarframkvæmdum í héraðinu síðustu ár og lítið lát virðist á þeim.

Úr bæjarlífinu

Hornafjörður

Albert Eymundsson

Ótrúlegur uppgangur hefur verið í byggingarframkvæmdum í héraðinu síðustu ár og lítið lát virðist á þeim. Þar á ferðaþjónustan stærstan þátt en vegna mikillar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk um allt héraðið eru m.a. sveitarfélagið og Skinney-Þinganes að byggja fjölbýlishús á Höfn. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hvernig sveitirnar eru að ganga í endurnýjun lífdaga þessu samfara.

Gamla kartöfluhúsið á Höfn er nýjasta dæmið um húsnæði sem hefur fengið annað og nýtt hlutverk. Búið er að endurbæta og innrétta húsið á skemmtilegan og smekklegan hátt sem alhliða samkomuhús með bar og veitingaaðstöðu og hefur það hlotið nafnið Hafið. Skinney-Þinganes er eigandi hússins en hjónin Eva Birgisdóttir og Bjarni Ólafur Stefánsson sjá um rekstur staðarins og segja þau að starfsemin hafi farið betur af stað en þau gerðu ráð fyrir.

Akurey SF 51 er gamall fiskibátur sem dreginn var á land og stendur við höfnina. Báturinn er meðal annars vinsælt leiksvæði barna og viðkomustaður ferðamanna. Hugmyndir hafa verið uppi um að varðveita bátinn sem minnisvarða um ákveðið tímabil í útgerðarsögu staðarins. Töluverð umræða fer nú fram um framtíð bátsins en mikill kostnaður við endurbyggingu og viðhald hans gæti haft áhrif á hvort hægt sé að hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd.

Fæðingardagur Svavars Guðnasonar er í dag. Af því tilefni verður úthlutað árlegum styrk, úr Styrktarsjóði Svavars og Ástu konu hans, til efnilegra myndlistarmanna. Sömuleiðis verða tónleikar í Svavarssafni á Höfn. Sveitarfélagið á langstærsta safn verka Svavars sem var gjöf Ástu eftir lát hans.

Ferðabók Bjarna og Eggerts í frumútgáfu er aðeins til í sex eintökum í heiminum en bókin kom út í Danmörku árið 1772. Kolbrún S. Ingólfsdóttir og maður hennar Ágúst Einarsson færðu sveitarfélaginu til varðveislu eitt þessara frumeintaka og verður það varðveitt á Hala í Suðursveit.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu á 30 ára afmæli í ár og haldið er upp á það með ýmsum hætti. Ekki gekk þrautalaust að sannfæra menntamálayfirvöld um gildi þess að fá framhaldsskólamenntun heim í hérað á sínum tíma en enginn efast um áhrif og gildi hans fyrir samfélagið í dag. Skólinn hefur eflst og skapað sér nokkra sérstöðu m.a. sem frumkvöðull í fjarkennslu. Jafnframt er lögð áhersla á samstarf við heimaaðila. Má þar nefna ný námssvið eins og fjallmennsku og ferðaþjónustugreinar, frumkvöðlafræði, kynjafræði, fab-lab-verkefnastöð, erlent samstarf að ógleymdum uppsetningum í samstarfi við leikfélögin á staðnum.

Hornafjarðarfljót verða brúuð á næstu árum samkvæmt áætlunum Vegagerðarinnar. Byrjað var á fyrsta áfanga, vegtengingu úti á Mýrum. Skiptar skoðanir eru á nýju vegstæði enda framkvæmdin umfangsmikil og áhrifa hennar mun gæta nokkuð víða á umhverfi Hornafjarðar. Með þessu styttist hringvegurinn um 10-12 km og kemur til með að bæta aðgengi að þjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins.