Ingibjörg Kristín Sigurgeirsdóttir fæddist í Ásgarði á Húsavík 18. janúar 1930. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 3. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru Aðalbjörg Stefánsdóttir, f. 19.4. 1898, d. 20.1. 1933, Sigurgeir Þorsteinsson, f. 11.3. 1886, d. 1.4. 1958. Systkini voru Álfdís Sigurgeirsdóttir, f. 15.11. 1925, d. 22.6. 2017, Þórsteinn Sigurgeirsson, f. 26.3. 1932, d. 9.7. 2002, hálfsystur sammæðra Hilma Vigfúsdóttir, f. 5.1. 1917, Friðný Ísaksdóttir, f. 19.5. 1920, báðar dánar.

Ingibjörg Kristín giftist 27.12. 1956 Stefáni Axelssyni, f. 28.2. 1923, d. 28.12. 2010. Börn þeirra 1) Aðalbjörg, f. 6.10. 1956, maki Guðmundur Ágúst Magnússon, barn Völundur Ísar. 2) Axel Jónas, f. 29.10. 1957. 3) Sigríður, f. 6.5. 1959, gift Pétri Bjarna Gíslasyni, börn a) Gísli Gunnar, giftur Huldu Björgu, börn Arna Karen, Pétur Geir, Aníta Fönn og Andrea Dögg. b) Hanna Kristín, maki Eiríkur Briem, börn Sigurgeir Axel, Álfdís Maja, Eiríkur Tumi og Haraldur Nökkvi. c) Svanhildur Björg, maki Sigurður Kári, barn Alexander Kári Fjallmann. d) Stefán Jón. 4) Stefanía Halldóra, f. 27.8. 1960, maki Jóhann Birgir Ingvarsson. 5) Sigurgeir, f. 31.1. 1962, d. 26.10. 1999. 6) Stefán, f. 19.4. 1963, d. 15.9. 1980. 7) Álfdís Sigurveig, f. 4.3. 1966. 8) drengur, nefndur Jón Albín, f. 6.1. 1970, d. 6.1. 1970.

Útför Ingibjargar Kristínar fer fram frá Reykjahlíðarkirkju í dag, 18. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það er komið að kveðjustund og því má ég til með að setjast niður og skrifa nokkur orð.

Ég kynntist Stínu fyrir rúmum 12 árum þegar við Gísli vorum að byrja saman. Þá fór hann með mig í Mývatnssveitina og kynnti mig fyrir fjölskyldunni sinni.

Alveg frá upphafi var mér tekið opnum örmum og alltaf var ég velkomin í Neslönd.

Stína var einstök kona og eignaðist fljótt stað í hjarta mínu.

Dugleg, iðjusöm, umhyggjusöm, blíð og góð eru orð sem koma fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til hennar. Hún fylgdist vel með fólkinu sínu og var annt um það.

Hún var til dæmis sú eina sem spurði mig alltaf hvernig mamma mín hefði það og hvernig gengi með Pétur Geir, það þótti mér afskaplega vænt um.

Börn okkar Gísla voru sérstaklega hænd að henni og þótti alveg stórmerkilegt hvað svona lítil kona komst yfir mörg verk.

Okkur fjölskyldunni þótt einstaklega vænt um hana Stínu ömmu og höfðum við öll á henni mikla matarást, eins og eflaust flestir sem hafa einhvern tímann lagt leið sína í kaffi í Neslönd.

Hún var dugnaðarforkur mikill og svo sannarlega fyrirmynd fyrir okkur hin.

Elsku Stína, ég trúi því að nú sértu komin á góðan stað, umkringd fólkinu þínu á ný. Þín verður sárt saknað en minningin lifir um einstaka konu – ömmu og langömmu.

Hulda Björg Þórðardóttir.

Elsku amma mín. Þú varst duglegasta og flottasta kona sem ég hef kynnst og er ég svo heppin að hafa haft þig sem fyrirmynd í lífinu.

Alltaf þegar eitthvað bjátaði á varst þú til staðar með þinn viskubrunn. Elsku amma, pönnukökurnar þínar voru hreint himneskar og ég hef aldrei fengið jafn góðar pönnukökur og þínar.

Þú sagðir oft brandara án þess að taka eftir því sjálf, það var svo yndislegt. Þegar þú varst að elda eða brasa eitthvað í húsinu raulaðir þú alltaf á meðan, það var svo notalegt að hlusta á það.

Nærvera þín var alltaf svo hlý og notaleg. Mér finnst mjög dýrmætt að hafa getað verið hjá þér þína síðustu stund með okkar nánustu, það var svo sorglegt og fallegt á sama tíma. Það hefur verið tekið vel á móti þér hinum megin, amma mín; afi, Geiri, Fáni og Jón Albín hafa allir tekið á móti þér opnum örmum.

Elsku amma, ég sakna þín svo mikið, símtalanna okkar, húmorsins, raulsins og pönnukakanna. Þú munt alltaf vera mín fyrirmynd.

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður kyssa blómið

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson)

Þín ömmustelpa,

Hanna Kristín.