Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni, var í þriðja til ellefta sæti eftir fyrsta hringinn á Sanya-mótinu á kínversku eyjunni Hainan sem leikinn var í fyrrinótt að íslenskum tíma. Mótið er liður í Evrópumótaröðinni í golfi.
Hún lék afar vel, spilaði á 68 höggum og var á fjórum höggum undir pari vallarins. Valdís fékk fimm fugla og einn skolla á hringnum. Aðeins Celine Boutier frá Frakklandi og Wichanee Meechai frá Taílandi voru fyrir ofan Valdísi á fimm undir pari.
Annar hringur var leikinn í nótt að íslenskum tíma og frammistöðu Valdísar þar má sjá á mbl.is/sport.
Niðurskurður er eftir annan hringinn en leiknir eru þrír hringir og mótinu lýkur í fyrramálið.
Þetta er næstsíðasta mót tímabilsins og dýrmætt fyrir Valdísi að ná sem lengst. Hún er í 113. sæti á stigalista Evrópumótaraðarinnar en þarf að vera í hópi 80 efstu í lok tímabilsins til að tryggja sér keppnisréttinn á næsta tímabili.