Hvolpar Tölvuteiknaðar hetjur í sjónvarpinu alla daga
Hvolpar Tölvuteiknaðar hetjur í sjónvarpinu alla daga
Sem barnlaus maður hafði ég einungis heyrt talað um sjónvarpsfyrirbærið Hvolpasveitina. Vinir mínir og vinkonur sem eiga börn hafa talað um þættina sem dáleiðandi fyrirbæri þegar þörf er á smá hvíld frá foreldrahlutverkinu.

Sem barnlaus maður hafði ég einungis heyrt talað um sjónvarpsfyrirbærið Hvolpasveitina. Vinir mínir og vinkonur sem eiga börn hafa talað um þættina sem dáleiðandi fyrirbæri þegar þörf er á smá hvíld frá foreldrahlutverkinu. Ég hef alltaf talið þetta tal vera ýkjur, þangað til ég var settur í það hlutverk að passa rúmlega eins árs gamla frænku mína. Stóra systir mín, algjörlega meðvituð um hversu óhæfur ég var til verksins, benti mér á að það væri alltaf hægt að kveikja á Hvolpasveitinni, ef henni færi að leiðast.

Ég auðvitað hélt að slíkt væri algjör óþarfi enda afar spenntur fyrir að eyða tíma með litlu frænku minni. Það tók mig hins vegar um þrjátíu mínútur að átta mig á að frænka mín var ekki alveg jafn spennt fyrir mér og ég henni. Ég greip því til þess örþrifaráðs að biðja Hvolpasveitina um hjálp. Köggur, Kappi, Seifur, Píla og Rikki hoppuðu útur hundakofunum sínum og björguðu ekki bara kisunni í trénu heldur einnig mér. Ég þakka ykkur fyrir og þótt ég eigi ekki börn þá er gott að vita að alltaf séu einhverjir á vaktinni, bjargandi kisum, foreldrum og barnlausum frændum á RÚV alla virka daga.

Magnús Heimir Jónasson