[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þór Eyfeld Magnússon fæddist á Hvammstanga 18.11. 1937 og ólst þar upp á heimili afa síns og ömmu og móðursystur sinnar. Þór flutti til Reykjavíkur 1949, var fyrst í Melaskóla, síðan í Gagnfræðaskólanum við Hringbraut og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar.

Þór Eyfeld Magnússon fæddist á Hvammstanga 18.11. 1937 og ólst þar upp á heimili afa síns og ömmu og móðursystur sinnar.

Þór flutti til Reykjavíkur 1949, var fyrst í Melaskóla, síðan í Gagnfræðaskólanum við Hringbraut og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hann stundaði nám við MR og tók þaðan stúdentspróf 1978, fór utan til Uppsala í Svíþjóð haustið 1959 og nam þar fjóra vetur, fornleifafræði, þjóðháttafræði og þjóðfræði. Hann lauk þar fil. kand. prófi árið 1964.

Þór varð safnvörður við þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands 1965 en vann jafnframt hvers konar safnstörf og fyrstu sumurin við fornleifarannsóknir í Hvítárholti í Hrunamannahreppi, þar sem rannsökuð var landnámsaldarbyggð.

Þór varð þjóðminjavörður 1968 og gegndi því embætti til ársins 2000. Þá var hann formaður Húsafriðunarnefndar ríkisins um árabil frá 1969.

Á starfsferli sínum hefur Þór skrifað fjölmargar greinar, m.a. í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, dagblöð og tímarit. Hann hefur rannsakað íslenska silfursmíði allt frá miðöldum og fram á tuttugustu öld. Árið 1996 gaf Þjóðminjasafnið út bók Þórs, Silfur í Þjóðminjasafni. Það rit varð undanfari tveggja binda ritverks Þórs, Íslenzk silfursmíð, sem kom út hjá Þjóðminjasafni Íslands árið 2013. Ritið er heimild og fróðleikur um íslenska silfursmiði og verk þeirra, allt frá miðöldum og fram til tuttugustu aldar en henni fylgir gullsmiðatal þar sem fjallað er um gull- og silfursmiði fædda á Íslandi fram til ársins 1950.

Á undanförnum árum hefur Þór skrifað mikið um íslenska kirkjugripi í hina viðamiklu ritröð Kirkjur Íslands. Hann samdi rit Ferðafélags Íslands um Vestur-Húnavatnssýslu og er nú að vinna að Ábúendasögu Vestur-Húnavatnssýslu.

Fjölskylda

Þór kvæntist 22.8. 1964, eiginkonu sinni, Maríu Vilhjálmsdóttur Heiðdal, f. 13.6. 1939, hjúkrunarfræðingi og síðast hjúkrunarforstjóra við Heilsugæzlustöð Hlíðasvæðis.. Foreldrar hennar voru Vilhjámur Heiðdal, f. 4.8. 1912, d. 3.2. 2005, fulltrúi hjá pósti og síma við skipulag sérleyfisferða og póstflutninga, og k.h., María Hjálmtýsdóttir Heiðdal, f. 1913, d. 1991, húsfreyja.

Börn Þórs og Maríu eru 1) Jóhann, f. 16.10. 1964, dr. í líffræði og starfar við Landgræðslu ríkisins en kona hans er Berglind Orradóttir, magister í líffræði og starfsmaður Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins; 2) Þórður, f. 21.8. 1969, skipstjóri hjá skipafélaginu Royal Carabian en hann siglir skemmtiferðaskipi í Karíbahafi, er búsettur í Höfðaborg og er kona hans Chantell Thompson Thorsson en dóttir þeirra er Lilja Sophia, og 3) Auður Harpa, f. 20.4. 1972, lic. és lettres í listasögu og forstöðumaður Listasafns Íslands en maður hennar er Kári Haraldur Sölmundarson forstjóri og eru dætur þeirra María, f. 2001, Ásgerður, f. 2007 og Þórhildur, f. 2011.

Hálfsystkini Þórs, samfeðra, voru: Gunnar, f. 1929, d. 1929; Fríða, f. 1932, d. 1938. Gunnar, f. 1934, d. 2001, og Jóhanna Dagmar, f. 1936, d. 2010.

Hálfsystir Þórs, sammæðra, og uppeldissystir hans er Sigríður Ágústa, f. 6.12. 1949, sjúkraliði við heimahjúkrun Seltjarnarness, en maður hennar er Jón Hilmar Jónsson, málfræðingur og orðabókahöfundur.

Foreldrar Þórs voru Magnús Richardsson, f. 26.10. 1901, d. 7.2. 1977, lengst af umdæmisstjóri Pósts og síma á Borðeyri, síðar í Reykjavík, og Sigríður Jóhanna Þórðardóttir, f. á Ísafirði 25.6. 1909, d. 22.3. 1988, símastúlka á Hvammstanga, Borðeyri og Ísafirði, síðar húsfreyja í Reykjavík.

Fyrri kona Magnúsar var Sigríður Matthíasdóttir, f. 1893, d. 1947, alþingismanns frá Haukadal í Dýrafirði Ólafssonar, en síðari kona hans var Unnur Jónsdóttir, f. 1907, alþingismanns og bankastjóra í Reykjavík Ólafssonar.

Eiginmaður Sigríðar Jóhönnu Þórðardóttur og uppeldisfaðir Þórs var Karvel Ágúst Sigurgeirsson, f. á Ísafirði 2.8. 1908, d. 19.6. 1989, lengst af sjómaður.