Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, bjóst við að þrautavaralán sem fyrirhugað var að veita Kaupþingi í byrjun október 2008, að andvirði 500 milljónir evra, yrði ekki endurgreitt af...

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, bjóst við að þrautavaralán sem fyrirhugað var að veita Kaupþingi í byrjun október 2008, að andvirði 500 milljónir evra, yrði ekki endurgreitt af bankanum. Fullyrðingar forsvarsmanna bankans um annað væru „ósannindi“ eða „óskhyggja“.

Þetta má lesa í endurriti af símtali milli hans og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sem þeir áttu rétt fyrir hádegi mánudaginn 6. október, í þann mund sem bankakerfið íslenska riðaði til falls. Morgunblaðið hefur endurritið undir höndum og birtir það í heild sinni í blaðinu í dag.

Í símtalinu sagði seðlabankastjóri að lánið yrði ekki veitt nema með ýtrustu veðum og var forsætisráðherra sammála því.

Af símtalinu, sem tekið var upp af Seðlabankanum án vitundar viðmælendanna tveggja, má ráða að forsætisráðherra hefur í fyrri samtölum við Seðlabankann kallað eftir svörum um hvort hægt væri að veita Kaupþingi fyrirgreiðslu sem tryggt gæti rekstrarhæfi þess. Í símtalinu benti seðlabankastjóri á að þrautavaralán til Kaupþings kæmi í veg fyrir björgunaraðgerðir gagnvart Landsbanka og Glitni. Spurði forsætisráðherra hvort ákvörðunin myndi leiða til gjaldþrots Landsbankans samdægurs. Því játti seðlabankastjóri. Vék forsætisráðherra þá að Glitni og spurði hvort dagar bankans yrðu taldir strax daginn eftir. Var svar bankastjórans við þeirri spurningu á sömu lund.