Tenór Gissur Páll Gissurarson.
Tenór Gissur Páll Gissurarson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kór Neskirkju ásamt einsöngvurum flytur Petite Messe Solennelle eftir Gioachino Rossini á tónleikum í Neskirkju í dag kl. 17 undir stjórn Steingríms Þórhallssonar.

Kór Neskirkju ásamt einsöngvurum flytur Petite Messe Solennelle eftir Gioachino Rossini á tónleikum í Neskirkju í dag kl. 17 undir stjórn Steingríms Þórhallssonar. Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Fjölnir Ólafsson bassi. Hrönn Þráinsdóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir leika á píanó og Erla Rut Káradóttir á harmóníum.

„La Petite Messe Solennelle er fjarri því að vera tónlist sem er smá í sniðum. Þrátt fyrir heitið. Og hún er sannarlega melódísk, taktföst og fjörug,“ segir í tilkynningu.

Þar er rifjað upp að Rossini hafi notið mikillar velgengni á fyrri hluta 19. aldar og náð að semja yfir 40 óperur áður en hann var 37 ára. Á hátindi frægðar sinnar dró hann sig í hlé og átti við erfið og þjáningarfull veikindi að stríða.

Árið 1855, þegar Rossini var orðinn 63 ára, fluttist hann ásamt eiginkonu sinni til Parísar. „Þá brá svo við að hann náði aftur fullri heilsu og löngunin til að semja tónlist vaknaði á ný svo um munaði. Hann samdi yfir 150 verk fyrir píanó, sönglög og verk fyrir minni tónlistarhópa. Þar á meðal er La Petite Messe Solennelle. Fögnuður, endurnýjaður kraftur og sköpunargleði tónskáldsins geislar af verkinu þannig að enginn getur annað en látið hrífast með.“