Launakostnaður Árið 2018 er ráðgert að meðallaunakostnaður Fjármálaeftirlitsins á hvern starfsmann verði um 1,3 milljónir króna á mánuði.
Launakostnaður Árið 2018 er ráðgert að meðallaunakostnaður Fjármálaeftirlitsins á hvern starfsmann verði um 1,3 milljónir króna á mánuði. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Tekjur Fjármálaeftirlitsins af eftirlitsgjaldi munu aukast um 26% á milli ára og verður tæplega 2,2 milljarðar króna í ár, samkvæmt nýbirtri rekstraráætlun fyrir árið 2018.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Tekjur Fjármálaeftirlitsins af eftirlitsgjaldi munu aukast um 26% á milli ára og verður tæplega 2,2 milljarðar króna í ár, samkvæmt nýbirtri rekstraráætlun fyrir árið 2018. Á næstu fimm árum mun eftirlitsgjaldið hækka að meðaltali um 4,4% á ári og verður 2,7 milljarðar króna árið 2022. Þetta kemur fram í rekstraráætlun 2018 sem birt var á vef FME í gær.

Árið 2018 mun stofnunin innheimta í fyrsta skipti 50 milljónir króna í sérstakt eftirlitsgjald BRRD (e. Bank Recovery and Resolution Directive) hjá bönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum vegna tilskipunar Evrópusambandsins. Markmið hennar er að standa vörð um fjármálastöðugleika, draga úr tjóni vegna áfalla í rekstri fjármálafyrirtækja, auka vernd innstæðueigenda og koma í veg fyrir að áföll í rekstri fyrirtækjanna lendi á skattgreiðendum.

Tapaði 269 milljónum

Fjármálaeftirlitið tapaði 269 milljónum króna árið 2016, sem er 66 milljónum minna tap en áætlað var, samanborið við 170 milljóna króna tap árið áður. Gert var ráð fyrir rekstrarhalla í áætlunum til að lækka eigið fé stofnunarinnar og færa það sem næst fjárhæð þess varasjóðs sem stofnuninni er heimilt að mynda lögum samkvæmt. Á næsta ári er ráðgert að FME tapi 5 milljónum króna. Eigið fé FME er 137 milljónir króna en þar af er stofnuninni heimilt að halda eftir 108 milljónum króna í sérstökum varasjóði, eða sem nemur að hámarki 5% af eftirlitsgjaldi næsta árs.

Vaxandi launakostnaður

Launakostnaður er um 80% af rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Í ár er ráðgert að launakostnaður aukist um 9% og á næsta ári er reiknað með að hann vaxi um 7%. Árið 2018 yrði meðallaunakostnaður á starfsmann um 1,3 milljónir króna á mánuði en fjöldi starfsmanna er áætlaður 124.

Fjármálaeftirlitið skýrir aukinn launakostnað í ár annars vegar með því að almennar launahækkanir verði 4,5% á árinu, en FME vekur athygli á í rekstraráætluninni að Þjóðhagsspá geri ráð fyrir tæplega 7% almennri hækkun launa. Hins vegar að stöðugildum fjölgar um þrjú. „Er þar um að ræða fjölgun vegna nýrra verkefna við viðskiptaháttaeftirlit og neytendavernd, þjóðhagsvarúð og reglusetningar- og innleiðingarvinnu á grundvelli lagaskyldu,“ segir FME.

Aukinn launakostnaður á næsta ári er rakinn til almennra launahækkana og að stöðugildum muni fjölga um fimm, þar af eru þrjú rakin til aukinna umsvifa vegna BRRD-reglugerðar.

Ef litið er aftur til rekstursins á árinu 2016 má sjá að húsnæðiskostnaður hækkaði um 19% milli ára og var 114 milljónir króna. „Skýringin á þessari skörpu hækkun er hækkun leiguverðs 1. júní 2016. Á grundvelli ákvæðis í leigusamningi krafðist leigusali Fjármálaeftirlitsins hækkunar til samræmis við núverandi markaðsverð sambærilegs húsnæðis. Að höfðu samráði við skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneyti var að endingu komist að samkomulagi og endurspeglast það samkomulag í hækkuninni,“ segir í rekstraráætlun FME.

Ferðakostnaður
fer lækkandi
» Að meðaltali ferðaðist hver starfsmaður stofnunarinnar fyrir 240 þúsund krónur í fyrra.
» Ferða- og dvalarkostnaðar erlendis lækkaði um níu milljónir á milli ára og nam 28 milljónum króna í fyrra.
» Gengi krónunnar og færri ferðir leiddu til þess.