— Morgunblaðið/Kristinn
487 norskar leikkonur stíga fram í Aftenposten og greina frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni af hálfu yfirmanna sinna og samstarfsfélaga í norska leik- og kvikmyndabransanum.

487 norskar leikkonur stíga fram í Aftenposten og greina frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni af hálfu yfirmanna sinna og samstarfsfélaga í norska leik- og kvikmyndabransanum. Konurnar hafa á síðustu vikum rætt saman í lokuðum Facebook-hópi til að fá yfirsýn yfir umfang vandans.

„Í ljós hefur komið að valdakerfinu í okkar starfsgrein hefur mistekist að uppgötva og stöðva kynferðislega áreitni, valdamisnotkun – og í stökum tilfellum – ofbeldi,“ skrifa leikkonurnar í opnu bréfi.

Aftenposten deilir sögum 40 leikkvenna sem flestar urðu fyrir áreitninni þegar þær voru ungar og nýútskrifaðar. Ein konan rifjar upp tökur á sjónvarpsþáttaröð sem hún lék í nýútskrifuð þar sem hún þurfti að leika í ástarsenu. „Fyrsta tökudaginn þurfti ég að vera í mikilli líkamlegri nálægð við karlkyns mótleikara minn. Ég tók eftir því að honum stóð og hann notaði hnéð á mér til að fullnægja sér.“

Önnur leikkona rifjar upp áreitni eldri leikara meðan þau unnu saman hjá virtu leikhúsi í Noregi. „Á sýningum nýtti hann kossasenur til að troða tungunni á sér ofan í kokið á mér. Hann ekki aðeins þuklaði á rassinum á mér heldur reyndi að troða fingrum sínum inn. Eftir lokasýninguna elti hann mig heim og reyndi að brjótast inn í íbúðina mína.“ Í bréfi leikkvennanna kemur fram að helsta ástæða þess að þær hafi ekki þorað að tjá sig um reynslu sína fyrr sé sú að þær óttist atvinnumissi. Blaðamenn Politiken hafa kannað umfang vandans í Danmörku, en þar segjast 60% leikkvenna hafa orðið fyrir áreitni.