Tosca „Þegar maður fer í þessi stærri óperuhús og ef hlutverkið gengur vel, þá er það bara hengt á mann,“ segir söngvarinn Kristján Jóhannsson sem syngur nú hlutverk Cavaradossi málara í óperunni Tosca í 400. skiptið
Tosca „Þegar maður fer í þessi stærri óperuhús og ef hlutverkið gengur vel, þá er það bara hengt á mann,“ segir söngvarinn Kristján Jóhannsson sem syngur nú hlutverk Cavaradossi málara í óperunni Tosca í 400. skiptið — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Síðasta sýningin á óperunni Tosca fyrir áramót verður í Hörpu í kvöld, en það er 400. sýning Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara í hlutverki Cavaradossi málara.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Síðasta sýningin á óperunni Tosca fyrir áramót verður í Hörpu í kvöld, en það er 400. sýning Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara í hlutverki Cavaradossi málara. Kristján hefur sungið hlutverkið víða um heiminn síðan 1980.

Uppfærslan í Hörpu að þessu sinni hefur fengið mjög góða dóma og vill Kristján þakka óperustjórnandanum, Bjarna Frímanni Bjarnasyni, fyrir, en uppselt hefur verið á allar sýningarnar.

Langur ferill með Tosca

„Ég hef aldrei sungið í gegnum tíðina nema aðallega titilhlutverk hvort sem er. Menn eru ekkert að spreða körlum eins og mér í neitt annað,“ segir Kristján kátur og bætir við: „Ég byrjaði 1979 að syngja Tosca og þá fyrst í nemendasýningu í skólanum mínum niðri á Ítalíu. Svo var ég mjög lukkulegur og hamingjusamur, 1982 fór skriðan svo af stað, ég söng fyrir English National Opera og síðan á Íslandi með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir það var þetta einskonar titilrulla fyrir mig. Ég söng Tosca úti um allan heim, í Staatsoper í Vín t.d. í þrettán ár. Þegar maður fer í þessi stærri óperuhús og ef hlutverkið gengur vel, þá er það bara hengt á mann. Eins þegar ég söng í Metropolitan Opera í New York, þar gerði ég samning 1986 og var þar þangað til flogið var á turnana og allt fór í vaskinn. Ég söng Tosca líka í Chicago og það má segja að ég hafi orðið einskonar arftaki Luciano Pavarotti í Tosca.“

Um það hvernig sé að syngja óperur í Hörpu segir Kristján að í svona stærri húsum þurfi menn að beita sér meira. „Litlar raddir heyrast illa í stórum húsum, en svo hafa menn verið að stóla of mikið á míkrófóna,“ segir Kristján, en bætir við að hann telji að húsið hafi jafnvel verið sniðið að tónleikum og ráðstefnum frekar en óperusöng.

Óperur fyrir ferðamennina

„Mér fyndist eðlilegt að við færum að sinna þessum tveimur milljónum ferðamanna sem koma hingað, þegar það er uppselt á hverja einustu sýningu eins og verið hefur, sem er auðvitað ofboðslega ánægjulegt í allri þessari samkeppni sem tónlistin hefur,“ segir Kristján, sem lætur engan bilbug á sér finna og kveðst afar þakklátur fyrir velgengnina: „Þetta hefur verið alveg yndislegt!“