Nóg að gera Svavar byrjar daginn í morgunútvarpinu og starfar síðan sem hárgreiðslumaður seinni hluta dagsins.
Nóg að gera Svavar byrjar daginn í morgunútvarpinu og starfar síðan sem hárgreiðslumaður seinni hluta dagsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Útvarps- og hárgreiðslumaðurinn Svavar Örn Svavarsson segir að jólatörnin sé þegar hafin hjá hárgreiðslufólki og segir að bókanir hafi hrúgast inn að undanförnu.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Útvarps- og hárgreiðslumaðurinn Svavar Örn Svavarsson segir að jólatörnin sé þegar hafin hjá hárgreiðslufólki og segir að bókanir hafi hrúgast inn að undanförnu. „Það er að minnsta kosti þannig hjá mér og mínu fólki og þá finnst mér eins og jólatörnin sé bara byrjuð,“ segir Svavar og bætir við að þetta sé breyting frá því sem áður var. „Það eru afskaplega margir sem í gegnum tíðina hafa alltaf viljað koma í klippingu korter fyrir jól, til að vera fínir í jólaboðinu. En mér finnst eins og fólk sé farið að líta á aðventuna nánast eins og jólin. Þá eru jólatónleikar, jólahlaðborð, jólaskemmtanir í skólum hjá börnum og barnabörnum. Fólk er bara að njóta aðventunnar meira en áður.“

Íslendingar í útlöndum koma seinna í klippingu

Þrátt fyrir að byrjað sé að bóka jólaklippingar, -litanir og annað sem fylgir hárumhirðu eru enn einhverjir sem bóka tíma með stuttum fyrirvara. „Það virðist vera að þeir sem koma heim til Íslands frá útlöndum taki tímana sem eru rétt fyrir jólin. En í rauninni finnst mér eins og fólk sé ekki að stressa sig á þessu eins mikið og var,“ segir Svavar og bætir við að sumar klippingar líti betur út eftir að þær hafi fengið smá tíma til að „dafna“. „Hárið vex ekki nema um sentimetra á mánuði og það verður oft bara betri klipping. Stundum tekur lengri tíma fyrir klippingar að jafna sig. Það erum við strákarnir sem viljum fá klippingarnar rétt fyrir jól.“

Svavar hefur starfað við hárgreiðslu í yfir tvo áratugi og þekkir því vel til jólatímabilsins. „Ég byrjaði í náminu 1991 þannig ég er eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni, búinn að vera að í þessu í meiri en 25 ár,“ segir Svavar og hlær við.