[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannes Hlífar Stefánsson stóð sig best íslensku skákmannanna á Norðurljósamótinu sem lauk í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur á miðvikudagskvöldið. Hannes sem hlaut 6 vinninga af níu mögulegum varð í 2.-4.

Hannes Hlífar Stefánsson stóð sig best íslensku skákmannanna á Norðurljósamótinu sem lauk í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur á miðvikudagskvöldið. Hannes sem hlaut 6 vinninga af níu mögulegum varð í 2.-4. sæti ásamt enska stórmeistaranum Simon Williams og indverska undrabarninu Nihal Sarin. Kínverjinn Yu Yinglun sigraði á mótinu, hlaut 6 ½ vinning. Hann var hætt kominn í síðustu skák sinni við Sarin en slapp með jafntefli eftir erfiða vörn. Sarin, sem er 13 ára gamall, gat með sigri náð öðrum áfanga sínum að stórmeistaratitli. Hann byrjaði rólega en sótti í sig veðrið eftir því sem á leið og vann t.d. góðan sigur yfir enska stórmeistaranum Mark Hebden í 8. umferð.

Hjörvar Steinn Grétarsson varð í 5.-7. sæti, hlaut 5 ½ vinning. Hann tapaði fremur slysalega í 1. umferð og tefldi kvefaður allt mótið þannig að frammistöðu hans má telja viðunandi.

Bandaríkjamðurinn ungi Nihil Kumar hætti keppni eftir tap í 5. umferð og slæmt gengi almennt. Þótti mörgum lítið leggjast fyrir kappann. Hann varð heimsmeistari unglinga í flokki 12 ára og yngri í fyrra.

Ýmsir íslenskir skákmenn náðu góðum stigahækkunum, enginn þó meira en Björn Hólm sem hækkaði um 50 elo-stig. Vignir Vatnar Stefánsson og Björn Þorfinnsson hækkuðu nokkuð á stigum og frammistaða Björns hefði getað orðið enn betri, en viðureignin við sigurvegara mótsins í 6. umferð setti strik í reikninginn en Björn endurtók bókstaflega fræga tapskák Mikhael Tal gegn Lev Polugajevskí frá sovéska meistaramótinu 1969!

Norðurljósamótið er nýtt verkefni hjá SÍ og heppnaðist vel. Tímasetningu þess og of há þátttökugjöld mætti þó endurskoða.

Skák ársins var tefld í kínversku deildakeppninni

Liren Ding komst fyrstur kínverskra skákmanna í áskorendakeppnina sem fram fer í Berlín á næsta ári en þar tefla átta skákmenn um réttinn til að skora á heimsmeistarann Magnús Carlsen. Ding tapaði lokaeinvígi heimsbikarmótsins fyrir Levon Aronjan en 2. sætið gaf engu að síður þátttökurétt í áskorendakeppninni. Í upphafi þessa mánaðar tók Ding þátt í kínversku deildakeppninni sem er þó varla í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að þar tefldi hann skák sem vakið hefur mikla athygli og má með sanni kalla skák ársins. Það koma fyrir margar fallegar myndir í þessari mögnuðu viðureign:

Jinzhi Bai – Liren Ding

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Rf3 O-O 5. Bg5 c5 6. e3 cxd4 7. Dxd4 Rc6 8. Dd3 h6 9. Bh4 d5 10. Hd1 g5 11. Bg3 Re4 12. Rd2 Rc5 13. Dc2 d4 14. Rf3 e5 15. Rxe5 dxc3 16. Hxd8 cxb2+ 17. Ke2?!

Færa má fyrir því rök að þetta sé eini afleikur hvíts í skákinni. Best var 17. Hd2 og eftir 17. ... Hd8 18. Rf3 Bg4 19. Dxb2 er hvíta staðan ekki lakari.

17. ... Hxd8 18. Dxb2 Ra4! 19. Dc2 Rc3+ 20. Kf3 Hd4!!

Kynngimagnaður leikur, svartur hótar 21. ... g4+ og mátar.

21. h3 h5 22. Bh2 g4+ 23. Kg3 Hd2!

Aftur og nýbúinn, hvítur má ekki taka drottninguna, 24. Dxd2 Re4+ og vinnur.

24. Db3 Re4+ 25. Kh4 Be7+ 26. Kxh5 Kg7!

Rýmir h8-reitinn fyrir hrókinn á a8.

27. Bf4 Bf5 28. Bh6+ Kh7 29. Dxb7 Hxf2!

Hótar 30. ... Rg3 mát.

30. Bg5 Hh8 31. Rxf7 Bg6+ 32. Kxg4 Re5+!

Glæsilegur lokahnykkur. Framhaldið gæti orðið 33. Rxe5 Bf5+ 34. Kh5 Kg7+ og mátar.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)