Baráttumaður Dr. Sakari Karjalainen segir að með virkum forvörnum megi forða mörgum frá að fá krabbamein.
Baráttumaður Dr. Sakari Karjalainen segir að með virkum forvörnum megi forða mörgum frá að fá krabbamein. — Morgunblaðið/RAX
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Framtíðarsýn Krabbameinsfélags Íslands er að fækka nýjum tilfellum krabbameina, fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins og að auka lífsgæði þeirra sem greinast.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Framtíðarsýn Krabbameinsfélags Íslands er að fækka nýjum tilfellum krabbameina, fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins og að auka lífsgæði þeirra sem greinast. Þetta rímar ágætlega við sýn Samtaka evrópskra krabbameinsfélaga (ECL) en markmið þeirra er að „Evrópa verði krabbameinslaus“. Finnska krabbameinsfélagið hefur svo það markmið „að sigrast á krabbameini“. Þetta er tilgreint hér því finnski læknirinn Sakari Karjalainen, forseti ECL og aðalritari finnska krabbameinsfélagsins, heimsótti Ísland í vikunni. Hann var spurður hvort þessi markmið væru raunhæf?

„Með orðunum „Evrópa án krabbameins“ er aðallega vísað til þess að vinna gegn þjáningum vegna krabbameins. Slagorðið „að sigrast á krabbameini“ vísar til góðs lífs án krabbameins eða með krabbameini,“ sagði Karjalainen. „Við vinnum annars vegar að því að koma í veg fyrir að fólk fái krabbamein. Hins vegar að því að hjálpa þeim sem fá krabbamein svo fólk fái bestu mögulega meðferð og losni, eins og mögulegt er, við einkenni sem fylgja sjúkdómnum.“

Markmiðið er að draga úr dánartíðni vegna krabbameina með því að fækka þeim sem fá sjúkdóminn og að þeir sem veikjast lifi sjúkdóminn af og þjáist sem minnst. Karjalainen sagði að tveimur af hverjum þremur krabbameinstilfellum sem greinast í Finnlandi nú fylgi ekki aukin hætta á ótímabæru andláti.

Forvarnir og áhættuþættir

Mögulega hefði mátt koma í veg fyrir um helming nýrra krabbameinstilfella hefðu lífshættir eða umhverfi viðkomandi verið öðruvísi.

„Tóbaksneysla, í hvaða mynd sem er, er enn stærsti þekkti áhættuþátturinn. Norræn tölfræði sýnir að minni reykingar hafa leitt til fækkunar tilfella lungnakrabbameins og dauðsfalla af þess völdum hjá körlum. Staðan er ekki jafngóð hjá konum. Í Finnlandi reykja fleiri konur nú en áður. Það mun væntanlega leiða til fleiri tilfella krabbameina sem tengjast tóbaksneyslu í framtíðinni,“ sagði Karjalainen.

Offita, hreyfingarleysi og óhollt mataræði eru einnig áhættuþættir. Offita eykur m.a. hættu á ristil- og endaþarmskrabbameini, brjóstakrabbameini og krabbameini í legi.

„Offita er vaxandi vandamál. Fólk þarf að hreyfa sig meira, það situr of mikið. Hreyfingarleysi getur orðið stór áhættuþáttur,“ sagði Karjalainen. Þessir áhættuþættir vega ekki jafnþungt og tóbaksnotkun, en þeim verður að gefa gaum.

Áfengisneysla er einnig áhættuþáttur varðandi krabbamein. Karjalainen sagði að nú væri mikið rætt í Finnlandi að rýmka reglur um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þar má selja allt að 4,7% sterkt öl. Sterkara áfengi fæst í sérstökum vínbúðum. Karjalainen sagði að lýðheilsustofnanir og læknar í Finnlandi hefðu varað við rýmkun reglna um áfengissölu. „Við óttumst að heildarneysla áfengis muni aukast ef leyft verður að selja sterkara áfengi í almennum verslunum,“ sagði Karjalainen. Annað sem ber að forðast er m.a. of mikil sólböð og ljósabekkir, mengandi efni og óbeinar reykingar.

Kostnaðurinn jókst lítið

Krabbamein kosta samfélagið heilmikið. Lengri lífaldri fylgir fjölgun krabbameinstilfella. Læknismeðferð og lyf hafa líka hækkað. Karjalainen sagði að árið 2004 hefðu verið gerðar þrjár spár á mismunandi forsendum um þróun heildarkostnaðar Finna vegna krabbameina næsta áratuginn. Menn höfðu gefið sér að kostnaður vegna krabbameina myndi hækka mikið í tímans rás og jafnvel verða óviðráðanlegur. Rannsóknarhópur kannaði hvernig spárnar hefðu ræst og birti niðurstöður á liðnu sumri. Athyglisverðasta niðurstaðan var sú að raunkostnaður Finna vegna krabbameina hækkaði minna frá 2004–2014 en nokkur spánna gerði ráð fyrir.

„Raunkostnaður á hvern nýjan sjúkling lækkaði lítið eitt á tímabilinu. Um leið varð mikilvæg breyting á krabbameinsmeðferð í Finnlandi. Sjúklingarnir dvöldu skemur á sjúkrahúsum og nutu meiri göngudeildarþjónustu. Framfarir í meðferð ollu því að fólk var skemur frá vinnu en áður og þurfti síður að fara á sjúkradagpeninga. Það hefur dregið úr óbeinum kostnaði,“ sagði Karjalainen. Hann sagði að fólk fengi ekki verri meðferð, þvert á móti fengi það betri meðferð. Þá hefði dánartíðni vegna krabbameina einnig lækkað auk þess sem dregið hefði úr því að fólk þyrfti að fara á örorku.

Norðurlönd standa sig vel

Karjalainen kvaðst vilja segja fyrir hönd ECL að sjúklingar í Evrópu sitji ekki allir við sama borð hvað varðar möguleika á góðri læknismeðferð og lyfjum við krabbameini. ECL er með starfshóp sem vinnur að því að allir sjúklingar í Evrópu fái aðgang að góðum lyfjum og viðeigandi meðferð eins fljótt og auðið er.

Góður árangur hefur náðst í meðhöndlun krabbameina, ekki síst á Norðurlöndunum. Að hluta má rekja það til þess að sjúkdómurinn greinist fyrr en áður og einnig til betri krabbameinsmeðferðar.

Evrópskur samanburður á því hve margir krabbameinssjúklingar lifa sjúkdóminn af sýnir að Norðurlöndin standa sig vel. Karjalainen telur að norrænu heilbrigðiskerfin, sem leggja áherslu á að allir eigi rétt á sömu heilbrigðisþjónustu, án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu, skipti máli í því sambandi. Norðurlöndin nálgist þetta markmið hvert með sínum hætti, en jafnrétti með tilliti til heilbrigðisþjónustu sé eitt af grundvallaratriðum norræna velferðarkerfisins.