Vinningstillagan Samkeppni var haldin um hönnun nýju stúdentagarðanna og hlaut Ydda arkitektar 1. verðlaun.
Vinningstillagan Samkeppni var haldin um hönnun nýju stúdentagarðanna og hlaut Ydda arkitektar 1. verðlaun. — Teikning/Ydda arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Starfshópur á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar mun fara yfir áform um uppbyggingu stúdentagarða og stækkun vísindagarðareits á háskólasvæðinu.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Starfshópur á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar mun fara yfir áform um uppbyggingu stúdentagarða og stækkun vísindagarðareits á háskólasvæðinu. Þetta er gert í kjölfar alvarlegrar gagnrýni Minjastofnunar á þau áform að reisa stúdentagarða á lóð Gamla Garðs að Hringbraut 29.

Erindisbréf starfshópsins var kynnt í borgarráði í fyrradag. Þar kemur fram að hlutverk hans er að fylgja eftir samkomulagi á háskólasvæðinu, frá 2. mars 2016, og þeim athugasemdum sem komið hafa fram um nýtingu lóðarinnar við Gamla Garð.

Fara vandlega yfir málið

„ Hlutverk starfshópsins er að fara vandlega yfir málið að nýju með það að markmiði að breið sátt náist um nýtingu lóðarinnar nr. 29 við Hringbraut, samanber ályktun háskólaráðs, og eftir atvikum skilgreina aðra uppbyggingarmöguleika fyrir stúdentagarða, sbr. samninga og markmið þar um,“ segir m.a. í erindisbréfinu.

Starfshópinn skipa: Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs HÍ, Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ, Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, og Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar borgarinnar. Hann á að skila niðurstöðu eigi síðar en 31. desember næstkomandi.

Háskólaráð fjallaði um bréf Minjastofnunar á fundi 7. september sl. Ráðið bókaði að þar sem um væri að ræða mjög viðkvæmt svæði sem stjórnendum Háskólans og Reykjavíkurborgar væri trúað fyrir á hverjum tíma væri mikilvægt að farið yrði vandlega yfir málið að nýju með það að markmiði að breið sátt næðist um nýtingu lóðarinnar.

Í kjölfarið mótmæltu stúdentahreyfingarnar ákvörðun háskólaráðs um að endurskoða ætti fyrirhugaða uppbyggingu stúdentagarða á reit háskólans við Gamla Garð.

Í áliti Minjastofnunar segir að með fyrirhugaðri uppbyggingu austan við Gamla Garð muni framhlið hússins hverfa að mestu á bak við nýbyggingar. Við það raskist mikilvæg og einstæð skipulagsheild í borgarmynd Reykjavíkur.

Þjóðminjasafnið og Gamli Garður séu verk sama höfundar og kallist á. Saman myndi þau tilkomumikinn jaðar háskólasvæðisins við þá merku breiðgötu sem Hringbrautin er.