Bíldshöfði Á efri hæð þessa húss er fyrirhugað að opna gistiskýli fyrir hælisleitendur. Eigendur fyrirtækja á neðri hæð krefjast lögbanns.
Bíldshöfði Á efri hæð þessa húss er fyrirhugað að opna gistiskýli fyrir hælisleitendur. Eigendur fyrirtækja á neðri hæð krefjast lögbanns. — Morgunblaðið/Hari
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum með þjónusturekstur og ég sé ekki að þetta fari saman,“ segir Sæunn Kjartansdóttir, hárgreiðslukona á Klipphúsinu að Bíldshöfða 18.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum með þjónusturekstur og ég sé ekki að þetta fari saman,“ segir Sæunn Kjartansdóttir, hárgreiðslukona á Klipphúsinu að Bíldshöfða 18.

Greint var frá því í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að eigendur fjórtán fyrirtækja að Bíldshöfða 18 krefjist þess að sýslumaður setji lögbann á fyrirhugað gistiskýli Útlendingastofnunar í húsinu. Ráðgert er að þar verði allt að 70 hælisleitendur hverju sinni.

Útlendingastofnun tók nýlega á leigu stóran hluta efri hæðar byggingarinnar. Beiðni um að fá að breyta nýtingu húsnæðisins var upphaflega synjað af Reykjavíkurborg. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti síðar undanþágu frá ákvæðum reglugerðar í málinu. Lögmaður eigendanna sagði að yrði lögbannskrafa ekki samþykkt yrði höfðað skaðabótamál. Ekki náðist í Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í gærkvöldi né upplýsingafulltrúa stofnunarinnar.

„Það er búið að vera að vinna í þessu húsnæði í nokkra mánuði. Ég talaði við iðnaðarmennina og þeir héldu að þarna ætti að vera gistiheimili. Svo fréttir maður þetta útundan sér, þessu er bara skellt fram. Það vissi enginn hvað var í gangi,“ segir Sæunn á Klipphúsinu. „Það þarf auðvitað leyfi frá eigendum hússins og það er ekki til staðar. Þetta er allt saman mjög einkennilegt.“

Geti rýrt verðmæti eigna

Lúðvík Örn Steinarsson, lögmaður fyrirtækjanna, sagði á RÚV að umbjóðendur sínir telji að ónæði geti skapast vegna þess reksturs sem fyrirhugaður er í húsinu. Þeir telji að verðmæti eigna þeirra kunni að rýrna og að þær kunni að verða ill- eða óseljanlegar.

Hann bendir einnig á að í húsnæðinu sé að finna starfsemi sem ekki eigi heima í nágrenni mannabústaða. „Þarna er starfsemi sem er í samræmi við gildandi skipulag; þarna er blikksmiður, trésmíðaverkstæði og þarna er flugeldasala og það sjá það allir sem sjá vilja að slík starfsemi fer aldrei saman við rekstur gistiskýlis.“ Undir þetta tekur Sæunn: „Það er ekki fólki bjóðandi að búa hérna.“