Í skotgröfum Bretar í grennd við bæjarhúsin í Brautarholti á Kjalarnesi. Fjær er Esjan.
Í skotgröfum Bretar í grennd við bæjarhúsin í Brautarholti á Kjalarnesi. Fjær er Esjan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Vargöld á vígaslóð eru frásagnir tengdar Íslandi úr seinni heimsstyrjöldinni, sem Magnús Þór Hafsteinsson tók saman. Í bókinni er sagt frá sjóorrustum og uppákomum og einnig er þar að finna minningabrot manna sem voru ungir drengir á stríðsárunum.

Hernám í hugum ungra drengja — minningabrot

Hernámsárin á Íslandi hafa löngum verið minnisstæð í hugum margra Íslendinga sem lifðu þessa tíma. Hér verður gripið niður í minningar nokkurra manna sem voru drengir eða unglingar á hernámsárunum og ólust upp við sunnanverðan Hvalfjörð og á Suðurnesjum. Þetta eru þeir Björn Sigurbjörnsson erfðafræðingur, Friðþjófur Björnsson læknir, Jón Fr. Sigvaldason bifreiðasmiður, Ólafur Ólafsson landlæknir og Sigurjón Vilhjálmsson flugvirki. Rætt var við Friðþjóf í ágúst 2016 en þá Björn, Jón, Ólaf og Sigurjón í september 2017 [...]

„Ég man þeir komu sjálfan hernámsdaginn 10. maí með byssur og byssustingi í Austurbæjarskóla og inn í stofu, þar sem við vorum í þriðja bekkjar kennslustund og ráku okkur út. Stefán Jónsson kennari og rithöfundur sem skrifaði meðal annars barnabækurnar um Hjalta litla var kennari okkar. Hann tók þessu af stillingu. Það var ekki kennt meira þetta vorið því þeir ætluðu að taka skólann sem bækistöð fyrir herinn. Við krakkarnir vorum ægilega fegin því það voru að koma vorpróf. Þeim var aflýst og við fengum að fara sjálfkrafa og án prófa upp í næsta bekk,“ segir Björn Sigurbjörnsson frá Kiðafelli í Kjós. Hann menntaði sig síðar á lífsleiðinni sem erfðafræðingur og gegndi meðal annars stöðu forstjóra Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og var ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þarna var hann níu ára gamall.

Friðþjófur Björnsson, síðar læknir, er fæddur 1930. Hann bjó í Reykjavík. Þennan fagra maídag var komið að stórum áfanga í lífi hans. Friðþjófur átti fyrsta sinni að fara einn að heiman. „Ég var ósköp lítill, aðeins níu og hálfs árs gamall. Foreldrar mínir höfðu ákeðið að senda mig í sveit að Oddsstöðum í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Þar skyldi ég vera allt sumarið. Foreldrum mínum var meinilla við stríðið og seinna á móti hernáminu. Á þessum tíma töldu þau ekki koma til greina að barn væri í Reykjavík þar sem mikil óvissa ríkti og jafnvel von á því að Ísland drægist í stríðið og árásir yrðu gerðar á bæinn.“

Nú var runnin upp sú stund að Friðþjófur skyldi fara í sveitina. „Þennan dag átti ég að fara með flóaskipinu Laxfossi yfir Faxaflóa til Akraness og áfram til Borgarness á leið í sveitina. Í Borgarnesi ætlaði kunningjafólk að taka við mér og senda mig áfram daginn eftir með mjólkurbílnum upp í Lundarreykjadal. Þegar skipið var að búast til brottfarar frá Reykjavík var herinn þegar stiginn á land í Reykjavíkurhöfn. Það voru herskip á ytri höfninni og hermenn út um allt. Einhverjir þeirra tóku sér far með Laxfossi upp á Akranes þar sem þeir ætluðu að hernema bæinn.“

Sú sjón að horfa á hermenn með alvæpni brenndi sig í vitund barnsins enda höfðu slíkir menn blessunarlega ekki sést á Íslandi. „Þetta voru ungir Bretar. Ég man alltaf að þeir voru með gasgrímur um hálsinn. Á leiðinni yfir Faxaflóann horfði ég á þá æfa sig í að setja þær yfir andlitin.“

Þarna voru Bretar á leið yfir flóann upp á Akranes til að tryggja yfirráðin yfir Hvalfirði. Þeir gerðu sér grein fyrir mikilvægi fjarðarins sem skipalægis og óttuðust að Þjóðverjar reyndu landtöku þar ef svo færi að þeir birtust með innrásarher við landið. Af þessum sökum var mikilvægt að koma herflokkum fyrir við fjarðarmynnið bæði norðan- og sunnanmegin. Um 120 manna undirfylki hermanna hafði fengið þetta verkefni. Það skipti sér í þrjá hópa. Einn þeirra fór með Laxfossi upp á Akranes á meðan tveir þeirra héldu upp á Kjalarnes og inn í Hvalfjörð. Þannig óku um 70 menn í bílalest um hádegisbil út úr Reykjavík, gegnum Mosfellssveit, fyrir Kollafjörð upp á Kjalarnes og inn í fjörðinn. Þessir bílar voru teknir á leigu hjá Bifreiðastöð Steindórs enda fylgdu engir herbílar fyrstu hermönnunum sem stigu á land í Reykjavík.

Jón Fr. Sigvaldason, fæddur 1929, og síðar bifreiðasmiður, bjó með fjölskyldu sinni í Útkoti í Kjós. Bærinn stendur rétt innan við Tíðaskarð. Þetta skarð er fyrir ofan suðurmunna Hvalfjarðarganga í dag og um það liggur þjóðvegurinn í Hvalfirði. Jón segist muna það vel þegar fyrstu hermennirnir birtust í Hvalfirði strax að morgni hernmámsdagsins. „Þegar Bretarnir komu 10. maí 1940 vorum við úti á hlaði. Við heyrðum í bíl og sáum að vörubíll kom akandi og fór hægt. Eftir smástund birtust svo tveir menn fótgangandi á hæðinni fyrir ofan bæinn. Ég hélt að þetta væru símamenn komnir að sinna streng sem lá þarna yfir. En þetta voru sennilega fyrstu hermennirnir sem komu í Hvalförð þennan hernámsdag. Þeir héldu áfram innúr og voru sjálfsagt í eins konar könnunarleiðangri áður en herflokkarnir kæmu síðar þennan sama dag.“

Á stórbýlinu Brautarholti utar á Kjalarnesi bjó Ólafur Ólafsson, síðar landlæknir, ásamt foreldrum sínum og systkinum. Foreldrar hans þau Ólafur Bjarnason og Ásta Ólafsdóttir sátu jörðina. Ólafur er fæddur 1928 og var 11 ára þegar Bretar stigu á land. Frá Brautarholti er gott útsýni suður til Reykjavíkur.

„Þeir komu siglandi að landinu um nótt og við sáum skipin á sundunum við Reykjavík þegar við fórum á fætur þennan dag. Faðir minn var mikið á fundum í Reykjavík. Hann var formaður samtaka bænda og átti bíl. Hann fór í bæinn til að sinna erindum klukkan níu þennan morgun. Seinna um daginn óku fyrstu bílarnir með hermenn í hlað í Brautarholti. Þeir voru bara komnir með fjóra eða fimm bíla og gengu þarna um,“ segir Ólafur.

„Mamma var heima með okkur börnin. Þarna var líka ráðsmaður okkar sem hét Alexander Árnason og var úr Grindavík auk fleira vinnufólks. Hann var mömmu til halds og trausts. Hún hringdi í pabba sem var kominn til Reykjavíkur og sagði honum frá því að hermenn væru komnir í Brautarholt. Við vorum svo heppin að hjá okkur var danskur fóðurmeistari til að sjá um fjósið hjá okkur sem var stórt og taldi eina 60 til 70 nautgripi. Pabbi hafði alltaf slíka menn hjá okkur. Þessi fóðurmeistari hét Georg og var dálítill ævintýramaður sem hafði farið víða og reynt ýmislegt. Meðal annars hafði hann verið selveiðimaður á Grænlandi í tvö ár. Ég man að mamma ráðfærði sig við Georg og hann sagði: „Auðvitað, þeir ætla að byggja hér bragga við kirkjuna til að fá vernd af henni því þeir telja að Þjóðverjar muni ekki varpa sprengjum að kirkjunni.“ Georg taldi að Bretar væru komnir í Brautarholt til að leita að aðstöðu fyrir búðir eða herstöð á Kjalarnesi. Í Brautarholti var hins vegar ekkert húsnæði á lausu, jörðin í fullum rekstri og sumar í vændum. Svo talaði Georg við pabba í síma þarna síðar um daginn og þá kom fram hugmyndin um að benda Bretum á að það væri laust húsnæði í Arnarholti sem var skammt frá Brautarholti. Þar voru mikil hús sem stóðu auð. Thor Jensen athafnamaður sem rak mjólkurbúið á Korpúlfsstöðum hafði keypt Arnarholt af pabba og notaði það sem sumarbú fyrir mjólkurkýrnar sem voru þá fluttar frá Korpúlfsstöðum í Arnarholt. Þarna var enn svo snemma sumars að kýrnar voru ekki komnar. Bretunum var bent á Arnarholt og þeir fóru þangað. Síðan töluðu Bretar sjálfsagt við Thor Jensen og fengu inni þar því kýrnar komu aldrei frá Korpúlfsstöðum þetta sumar. Arnarholt varð að herbækistöð en Bretar hófust strax handa við að koma upp varðstöðvum, virkjum og húsakosti sem voru braggarnir.“

Ólafur segir að bresku hermennirnir sem fyrstir óku í hlað að Brautarholti hafi komið vel fyrir. „Þetta voru myndarmenn. Náfrændi okkar Þórhallur Vilmundarson, síðar prófessor í sögu við Háskóla Íslands, var staddur hjá okkur. Þarna var hann í Menntaskólanum í Reykjavík og kunni ensku. Hann talaði við Bretana og sagði okkur eftir á að þeir töluðu Oxford-ensku. Þetta voru landgönguliðar breska flotans, svokallaðir Royal Marines, menn úr æðri stéttum Bretlands sem tóku landið þennan dag. Síðar þetta sumar hurfu þeir á braut og í staðinn komu „Cockneyjarnir“ svokölluðu en það voru strákar úr alþýðustéttum, einkum fátækrahverfum stórborganna, sem töluðu allt öðruvísi ensku. Þórhallur sem var enn hjá okkur þá var alveg klár á því, og sagði sjálfur við okkur þegar hann var að reyna að tala við þessa stráka á sinni menntaskólaensku: „Þetta er alveg óskiljanlegur andskoti.““

Ólafur segir að heimilisfólkið í Brautarholti hafi fljótt áttað sig á því að Bretar litu á Hvalfjörðinn sem mikilvægan stað. „Eitt það fyrsta sem þeir gerðu var að setja upp trjádrumba úti á Framnesinu svokallaða fremst á Kjalarnesi sem áttu að líta út fyrir að vera fallbyssuhlaup. Þannig reyndu þeir að blekkja Þjóðverjana sem komu fljúgandi yfir nesið í njósnaleiðöngrum. Seinna komu Bretar svo með litla fallbyssu sem þeir settu upp í Músanesi neðan við Brautarholtsbæinn. Hún vísaði út á Faxaflóa. Þeir settu líka víða upp vígi og varðstöðvar á Kjalarnesi til að fylgjast með umferð á landi, sjó og í lofti. Eitt helsta vígi þeirra á Brautarholtsjörðinni var í Borginni svokölluðu sem er klettaborgin vestur af bæjarstæðinu. Þaðan var gott útsýni yfir Kjalarnesið, mynni Hvalfjarðar, út á Faxaflóa og að sundunum Reykjavík.“

Samskiptin við hernámsliðið

Öllu umstangi Breta við að koma upp aðstöðu og vörnum utanvert á Kjalarnesi fylgdi mikið ónæði. Herinn þurfti líka þak yfir höfuðið og leit allan húsakost hýru auga. Til að mæta þörfum fyrir húsnæði var hafist handa við að reisa bragga í Brautarholti.

„Þessu fylgdi svo mikið brambolt, vesen og læti að við fjölskyldan fluttum okkur um set frá Brautarholti þarna fyrsta hernámssumarið. Við eftirlétum íbúðarhúsið hermönnunum en bjuggum í staðinn í skólahúsinu á Klébergi á Kjalarnesi. Vinnufólkið var hins vegar áfram í Brautarholti. Síðan fórum við bara daglega á milli Klébergs og Brautarholts annaðhvort gangandi, ríðandi eða akandi til að sinna dýrahaldinu, heyskap og öðrum bústörfum. Um haustið voru Bretarnir búnir að byggja sína bragga og við fengum húsið aftur. Það var þá í hræðilegu ástandi. Hermennirnir höfðu gengið svo illa um, ekki síst „Cockneyarnir“. Það varð að framkvæma stórviðgerð á húsinu en breska herstjórnin greiddi kostnaðinn af því. Pabbi var líka að koma upp minkabúi þegar Bretarnir komu. Það varð að leggja það niður vegna þess að herinn olli svo miklu ónæði með skothríð og látum. Þetta fékkst bætt. Bretarnir greiddu líka bætur vegna þess að mikið æðavarp í Andríðsey sem er við Kjalarnesið norður af Brautarholtsbænum spilltist. Þarna hafði pabbi alltaf konur í eynni við dúntekju og fengust allt upp í 70 pund á ári. Þetta lagðist alveg af í stríðinu. Þeir voru að skjóta yfir eyna og fældu kollurnar. Ég veit að pabbi fékk líka bætur fyrir þetta,“ segir Ólafur Ólafsson.

Jón Fr. Sigvaldason frá Útkoti segir að náttúrufar við Hvalfjörð hafi mátt líða fyrir flotaumsvifin í firðinum á stríðsárunum. „Það var mikill sóðaskapur af þessari skipaumferð um fjörðinn. Fjörurnar voru stundum svartar af olíu og mikill fugladauði. Allt æðarvarp í Hvalfirði eyðilagðist. Það var mikill skaði að því. Minni herskipin tóku olíu úr olíuskipum á legunum inni í Hvalfirði og eflaust hefur þá farið olía í sjóinn.“

Það var þó ekki bara olía sem fór í fjörðinn. Mikið af alls kyns varningi rak á fjörur. „Þetta var líkast til ýmislegt sem menn höfðu kastað frá borði í skipunum eða hreinlega misst í sjóinn. Við Friðrik bróðir minn fundum til dæmis fjölmargar reykjarpípur í fjörunum. Við bárum þetta heim en áttum ekkert tóbak í þær. Við leystum það með því að reykja þurra hrossataðsköggla í þeim,“ segir Björn Sigurbjörnsson á Kiðafelli og hlær við endurminninguna. [...]