Fjör Lúðrasveitin Svanur á æfingu fyrir tónleikana í dag þar sem hljóma munu vinsæl lög úr tölvuleikjum.
Fjör Lúðrasveitin Svanur á æfingu fyrir tónleikana í dag þar sem hljóma munu vinsæl lög úr tölvuleikjum. — Morgunblaðið/Hari
Lúðrasveitin Svanur heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu í dag, laugardag, kl. 14. Á efnisskránni eru lög úr ýmsum tölvuleikjum og samhliða tónlistinni verða sýnd myndskeið úr leikjunum á stóru tjaldi fyrir aftan sveitina.

Lúðrasveitin Svanur heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu í dag, laugardag, kl. 14. Á efnisskránni eru lög úr ýmsum tölvuleikjum og samhliða tónlistinni verða sýnd myndskeið úr leikjunum á stóru tjaldi fyrir aftan sveitina.

Þetta verður í annað sinn sem Svanurinn heldur slíka tónleika í Hörpu en þeir fyrstu voru haldnir haustið 2013 og vöktu, að sögn blásara í sveitinni, stormandi lukku. Hafa þeir síðan reglulega verið beðnir um að endurtaka leikinn og slógu nú til.

Á efnisskránni eru verkin „Fallout 4“, „Undertale“, „I was born for this“, „Megaman Medley“, „Monkey Island“, „The Moon“, „Still Alive“, „Battlefield 1942“, „Elder Scrolls“, „The Legend of Zelda“, „Super Mario Bros.“, „Video Games Live Part 1 & 2“ og síðast en ekki síst „World of Warcraft“.

Stef sem leikjaspilarar þekkja

Lúðrasveitin Svanur er ein elsta hljómsveit landsins, stofnuð árið 1930 og hefur starfað sleitulaust síðan þá. Í tilkynningu um tónleikana í dag er minnt á að Svanurinn hafi sett sinn brag á bæjarlíf Reykvíkinga með því að koma fram í skrúðgöngum og kröfugöngum í áratugi, ásamt hefðbundinni spilamennsku á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Síðustu árin hefur sveitin verið í fremstu röð hljómsveita af þessu tagi og sett mikinn metnað í stóra tónleika sína – sem eru jafnan tvennir á ári. Þar hefur verið frumflutt margskyns tónlist á Íslandi víða að. Stjórnandi Svansins er Carlos Caro Aguilera.

Einn meðlima Svansins er Þorkell Harðarson kvikmyndagerðarmaður og leikur hann á klarínett. Þorkell segist hafa verið félagi í sveitinni á unglingsárunum, byrjaði 13-14 ára gamall og blés með henni fram yfir tvítugt. Þá hafi hann verið lengi á flakki „en ég mætti aftur á æfingu 2014 eftir að hafa búið erlendis í nokkur ár – þá kom í ljós að ég hafði engu gleymt, en ekkert lært!“ segir hann og hlær.

Síðan hefur Þorkell leikið með Svaninum og er nú í stjórn lúðrasveitarinnar. Þegar spurt er út í efnisskrána, tónlist úr tölvuleikjum, þvertekur hann fyrir að þetta sé einhver „hjakktónlist“.

„Í svokölluðum klassískum geirum er oft kvartað yfir því að fólk hlusti ekki mikið á músík af þeirri tegund en engu að síður er fjöldi fólks, og margt í yngri kantinum, jafnvel að hlusta á þessa tónlist í margar klukkustundir á dag. Hún hljómar í tölvuleikjum og er samin af tónskáldum eins og Hans Zimmer og fleirum sem eru mjög virtir og vinsælir og semja fyrir þessa vinsælustu leiki.

Eðli málsins samkvæmt þarf að vera hægt að setja tónlistina í ákveðnar „lúppur“ fyrir leikina en á tónleikum eru verkin flutt í föstu formi, útsett sem tónlistarverk, með öllum þessum stefjum sem fólk þekkir. Það er hörkufílingur í þessu.“ Sum verkin segir Þorkell melódramatísk en önnur meira „slapstick“ eins og allir sem hafa spilar Super Mario þekkja.

efi@mbl.is