Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Robert Mugabe, forseti Simbabve, lét sjá sig á almannafæri í fyrsta sinn í gær frá því að herinn tók yfir yfirstjórn landsins á miðvikudaginn. Mugabe hefur verið í stofufangelsi síðan þá, en mætti óvænt sem heiðursgestur við útskriftarhátíð opna háskólans í Simbabve, en hann er heiðursforseti skólans.
Þrátt fyrir að Mugabe hafi engan bilbug látið á sér finna er staða hans talin mjög veik, sér í lagi þar sem uppgjafahermenn úr sjálfstæðisstríði landsins hafa boðað til mótmæla gegn honum í höfuðborginni Harare í dag, en þeir hafa verið meðal helstu stuðningsmanna Mugabe í gegnum tíðina.
Grace Mugabe, eiginkona hans, var hins vegar hvergi sjáanleg, en valdabarátta milli hennar og Emmerson Mnangagwa, varaforseta landsins, sem var rekinn á þriðjudag, mun hafa verið ástæða þess að herinn ákvað að taka völdin. Vildu helstu hershöfðingjar landsins að sögn ekki sjá að Grace Mugabe tæki við af manni sínum, en hann er 93 ára gamall. Mugabe sjálfur segist hins vegar ekki vera á förum, þrátt fyrir að hann sé sagður hafa átt í viðræðum við yfirmenn hersins um að víkja úr embætti á fimmtudaginn. Birtust þá myndir í sjónvarpi af honum og Constantino Chiwenga, yfirmanni herráðsins, brosandi hlið við hlið.