„Það er engum til hagsbóta nema vinnuveitendum ef við höldum í sitt hvora áttina,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, FFÍ.

„Það er engum til hagsbóta nema vinnuveitendum ef við höldum í sitt hvora áttina,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, FFÍ. Flugfreyjur og -þjónar hjá WOW air gagnrýna stjórn FFÍ, segja sín mál hafa lítið vægi innan félagsins en þau hafa lengi verið með lausan kjarasamning. Í upphafi vikunnar ákváðu freyjur og þjónar hjá WOW air að stofna nýtt stéttarfélag vegna óánægju með málefni sín innan FFÍ. Berglind segist ekki þekkja hvernig þær fyrirætlanir standi.

Í fyrrakvöld hélt FFÍ fund með starfsmönnum WOW air. Á þeim fundi var samþykkt að formaður FFÍ og fulltrúi WOW air skrifuðu undir kjarasamning sem svo yrðu greidd atkvæði um. Berglind væntir að sá fundur verði strax eftir helgina og að undirskrift lokinni geti samningurinn og efni hans farið í atkvæðagreiðslu.