Sigfríður Runólfsdóttir fæddist á Seyðisfirði 8. mars 1920. Hún andaðist að Hraunbúðum 12. nóvember 2017.

Hún var dóttir hjónanna Friðrikku Einarsdóttur, f. 22. febrúar 1890, d. 12. mars 1979, og Runólfs Sigfússonar, f. 16. febrúar 1893, d. 29. september 1936. Systkini hennar eru Oddný, f. 1916, d. 2005, Einar, f. 1918, Gústaf, f. 1922, d. 1950, Dagmar, f. 1926, Sævaldur, f. 1930.

Eiginmaður Sigfríðar frá 25. apríl 1943 var Alfreð Einarsson fæddur 6. desember 1921, dáinn 1. október 2013. Börn þeirra eru: 1) Erna, fædd 22. nóvember 1942, eiginmaður hennar var Björgvin Guðnason, fæddur 11. nóvember 1935, d. 27. nóvember 1998. Börn þeirra eru: Auðbjörg Svava, fædd 1959, eiginmaður Helgi Gunnarsson. Börn þeirra eru Birkir og Bjartey. Aðalheiður, fædd 1963, eiginmaður Ómar Reynisson. Börn þeirra eru Eva Björk, Bjarki og Fanndís. Guðný, fædd 1966, eiginmaður Georg Skæringsson. Börn þeirra eru Erna, Sindri og Hlynur. Sigfríð, fædd 1966, eiginmaður Hallgrímur Njálsson. Börn þeirra eru Björgvin, Sæþór, Díana og Elísa. Harpa, fædd 1973, eiginmaður hennar var Ólafur Vestmann Þórsson, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Daníel Þór, Aldís Ósk og Sara María. Eiginmaður Arnfinnur Sigurðsson. Barn þeirra er Bryndís Ýr. Erna er í sambúð með Sigurði Kristinssyni. 2) Sigurlaug, fædd 6. nóvember 1947, eiginmaður Sigurjón Óskarsson, fæddur 3. maí 1945. Börn þeirra eru Viðar, fæddur 1965, eiginkona Eygló Elíasdóttir. Börn þeirra eru Sigurjón, Eyþór, Bára og Leó. Gylfi, fæddur 1966, eiginkona Erna Sævaldsdóttir. Börn þeirra eru Bergur Páll, Andri Þór, Daníel Freyr og Sævald. Þóra Hrönn, fædd 1973, eiginmaður Daði Pálsson. Börn þeirra eru Óliver og Sunna. 3) Runólfur, fæddur 25. júní 1949, eiginkona Guðrún María Gunnarsdóttir, fædd 11. júlí 1945. Börn þeirra eru Sigfríð, fædd 1967, eiginmaður Þorvaldur Ólafsson. Börn þeirra eru Bergþór og María Sif. Aðalheiður, fædd 1976, eiginmaður hennar var Guðmundur Ólafsson, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Guðjón Ólafur og Þóra Ýr. Eiginmaður Ólafur Guðlaugsson, þeirra barn er Birna María. Sonur Ólafs er Ægir. Gunnar Bergur, fæddur 1981, eiginkona María Pétursdóttir. Börn þeirra eru Tómas Runi og Pétur Dan. Dætur Maríu eru Henný Dröfn, Sara Dís og Eva Dögg. 4) Hulda, fædd 14. september 1950, dáin 17. mars 1990, eiginmaður hennar var Geir Haukur Sölvason, f. 26. nóvember 1947. Börn þeirra eru Helga Svandís, fædd 1969. Barn hennar Ágúst Már. Alfreð, fæddur 1973.

Sigfríður flutti fjögurra ára gömul með foreldrum sínum til Vestmannaeyja og bjó þar alla tíð að frátöldum nokkrum mánuðum á meðan eldgosið var í Eyjum 1973. Hún vann sem ung kona ýmis störf en mest við saumaskap með mágkonu sinni. Húsmóðurstarfið var þó hennar aðalstarf. Sigfríður var félagskona í Slysavarnadeildinni Eykyndli. Þau hjónin bjuggu í 55 ár á Heiðarvegi 66 þar til þau fluttust að Hraunbúðum.

Útför Sigfríðar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 18. nóvember 2017, klukkan 14.

Elskuleg amma okkar á Heiðó er farin frá okkur. Tárin trítla niður kinnarnar en góðar og fallegar minningar ylja á stundum sem þessum. Við systkinin komum svo oft við á Heiðó á leiðinni heim úr leikfimi og sundi. Þá hitaðir þú mjólk í potti og græjaðir kakó, þetta var besta kakóið. Það eru ófáar peysurnar, húfurnar, sokkarnir, ponsjóin, myndirnar og púðarnir sem þú prjónaðir og saumaðir handa okkur. Ógleymanlegar eru stundirnar þegar stórfjölskyldan kom saman á Heiðó, allir að föndra fyrir jólin, borða kjúkling á þrettándanum eða sunnudagarnir sem voru Heiðó-dagar. Krakkarnir að spila inni í símó eða uppi á lofti að horfa á Húsið á sléttunni. Alltaf varst þú brosandi og blíð að taka á móti öllum þessum krakkaskara og stundum var fjörið helst til mikið. Elsku amma, minning þín lifir í hjarta okkar og barna okkar sem voru svo lánsöm að eiga þig sem langömmu.

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Sigfríð, Aðalheiður og

Gunnar Bergur.

Elsku amma, nú kveðjum við þig í hinsta sinn með söknuði í hjarta og jafnframt þakklæti fyrir þær góðu og ljúfu minningar sem við eigum um samverustundir okkar í gegnum tíðina.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og einstaklega mikið ljúfmenni og skiptir aldrei skapi né hallmæltir nokkrum manni. Það var alltaf svo gott að koma á Heiðó og komum við aldrei að tómum kofanum hjá þér. Alltaf var nóg til með kaffinu og heimsins bestu skonsur sem þú bakaðir sem enginn getur leikið eftir þér, það næst bara ekki sama góða bragðið. Eftirminnilegir eru sunnudagarnir þegar þið hringduð og sögðuð að það væri búið að búa til soppu og hvort við vildum ekki kíkja til ykkar og vorum við ekki lengi að koma okkur á staðinn.

Eftir að við komum upp í Gagnfræðaskóla var örstutt að hlaupa yfir á Heiðó í frímínútum og fá heitt kakó og ristað brauð og nýttu mörg af þínum barnabörnum sér það.

Við getum ekki annað en minnst á hversu mikil handavinnukona þú varst, það lék allt í höndunum á þér, sama hvort það voru litlar eða stórar útsaumaðar myndir og voru þær allmargar. Alltaf var eitthvað á prjónunum og gátum við beðið þig að prjóna sokka, vettlinga, húfur eða hvað sem var og leið ekki langur tími þar til það var tilbúið. Kjólarnir og kápurnar sem þú saumaðir á okkur þegar við vorum litlar voru sannkölluð listaverk. Þótt sjónin hafi verið orðin nánast engin síðustu árin hélstu áfram að prjóna með smá aðstoð frá starfsfólki handavinnustofunnar á Hraunbúðum.

Fyrir jólin kom fjölskyldan oft saman á Heiðó og föndraði jólaskreytingar og var þá glatt á hjalla. Ekki má gleyma jóladegi þar sem þið afi hélduð fjölskyldunni jólaboð þar sem borðin svignuðu af kræsingum. Eftirminnilegur er þrettándinn þar sem allir mættu með sinn kjúkling og var oft þröng á þingi en alltaf jafn gaman og fengu börnin okkar að upplifa þessa hefð og minnast þau þess oft með gleði og hlýju.

Nú ert þú komin til afa og Huldu dóttur ykkar og hafa eflaust orðið fagnaðarfundir þegar þið hittust. Elsku amma, minning þín mun lifa um ókomna tíð í hug okkar og hjarta og munum við halda henni á lofti með börnum okkar og barnabörnum.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Auðbjörg Svava,

Aðalheiður, Guðný,

Sigfríð og Harpa.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Elsku amma og langamma. Nú ertu loksins komin til afa, það held ég að afi sé glaður og kátur. Það var alltaf gaman að koma til ömmu og afa á Heiðó, oft í frímínútum í skólanum fór maður til ömmu í heitt kakó og risting (ristað brauð með osti). Oft gisti ég hjá ömmu og afa er foreldrarnir fóru upp á land eða til útlanda og fékk að sofa inni í símaherbergi.

Nú þegar líða fer að jólum mun ég sakna þess að fara til ykkar afa í spjall og skiptast á gjöfum – tala nú ekki um þrettándann þegar ég var yngri, þar sem allir ættingjar komu saman í mat, og eftir mat var farið að elta jólasveinana og út á völl að fylgjast með grýlu, leppalúða, púkunum og jólasveinunum. Og eftir þessa skemmtun fór maður til ömmu og afa í heitt súkkulaði og til þess að hlýja sér því þau bjuggu rétt hjá, ýmist var spilað bingó eða spjallað á þrettándanum og restinni af flugeldum skotið upp.

Alltaf skemmtilegur tími hjá ömmu og afa. Oft var föndrað uppi í sjónvarpsherbergi; jólakort, óróar, jólakransar og ýmislegt úr filtefni, það voru yndislegir tímar.

Það var gaman að koma í heimsókn til ömmu og afa eftir að þau fóru á elló, spjalla, fá sér kaffisopa og sjá hvað amma hafði verið að prjóna.

Elsku amma og langamma, nú eruð þið afi og mamma saman á ný og ég veit að þið gerið eitthvað sniðugt og gott. Skilaðu kveðju til þeirra og takk fyrir allar góðu stundirnar á Heiðó.

P.S. afi sagar eitthvað flott út, mamma málar og amma býr til heitt súkkulaði.

Hvíldu í friði.

Kær kveðja,

Helga Svandís

og Ágúst Már.