Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir
Eftir Ernu Bjarnadóttur: "„Undir merkjum alþjóðavæðingar virðast viðskiptasjónarmið ráðandi en sjónarmið eins og heilbrigði manna og dýra látin litlu skipta.“"

Nýverið féll dómur í máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn íslenska ríkinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins. Í framhaldinu gaf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið út yfirlýsingu þar sem m.a. segir að íslenska ríkinu beri að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómnum og breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu hans. Ennfremur segir að íslensk stjórnvöld muni vinna að því að heimildir EES-samningsins um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum verði nýttar, til dæmis varðandi salmonellu.

Horft framhjá varnöglum

Með dómnum er enn eitt skrefið tekið að því marki að ryðja á brott einum af hornsteinum í stefnu er varðar heilsu búfjár og jafnframt lýðheilsu. Sögu þessa máls má rekja allt aftur til samþykktar EES-samningsins sem var undirritaður fyrir 25 árum. Þar var landbúnaður alveg undanskilinn. Sameiginleg löggjöf um matvælaheilbrigði var ekki til á þeim tíma heldur þróaðist síðar eftir áföll og hneykslismál. Hins vegar var í EES-samningnum að finna ákvæði sem telja má fullvíst að margir þeirra sem fjölluðu um samninginn hér á landi á sínum tíma töldu vera hald í, kæmi til þess að knúið yrði á um breytingar á innflutningi landbúnaðarvara síðar meir. Ágætt er að rifja upp að á þessum tíma var innflutningur landbúnaðarvara að meginreglu bannaður en leyfður þegar þær vörur sem framleiddar voru hér á landi voru ekki til. Þegar samningar innan WTO voru til lykta leiddir tveimur árum síðar og öllum innflutningsbönnum var breytt í tolla fékk Ísland staðfestar heilbrigðisreglur vegna sérstöðu dýraheilbrigðis sem unnið hefur verið eftir æ síðan.

Ísland er ekki aðili að stefnu ESB í landbúnaðarmálum

Augljóst var að 13. grein EES-samningsins var ætlað að skapa möguleika fyrir einstök lönd að bregðast við þar sem sérstakir hagsmunir voru í húfi en þar kemur fram að aðildarríki samningsins megi grípa til aðgerða til verndar heilsu dýra og manna. Hins vegar er að finna ákvæði í 18. gr. EES-samningsins sem gerir ráð fyrir að unnt sé að semja um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Í greininni segir: „Með fyrirvara um sérstakt fyrirkomulag varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir skulu samningsaðilar tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið er á um í 17. gr. og a- og b-lið 23. gr. varðandi aðrar vörur en þær er heyra undir 3. mgr. 8. gr., verði ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Ákvæði 13. gr. skulu gilda.“

Viðskiptasjónarmið ráða för

Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar. Undir merkjum alþjóðavæðingar virðast viðskiptasjónarmið ráðandi en sjónarmið eins og heilbrigði manna og dýra látin litlu skipta. Heilbrigði manna og dýra felur þó í sér mikil gæði sem eru óafturkræf komi eitthvað upp á. Vísindamenn eru ekki allir sammála um þær hættur sem fylgja innflutningi á þeim vörum sem dómurinn tekur til. Það er þó óumdeilt að rannsóknir eru hvergi nærri búnar að upplýsa allt sem hér skiptir máli. Ný eða áður óþekkt smitefni koma fram og þróun sýklalyfjaónæmra klasakokka er hröð. Þegar útbreiðsla þeirra og tengsl milli dýra og manna eru ekki fullrannsökuð er óábyrgt að tefla sérstöðu okkar í tvísýnu. Það eru ekki rök fyrir því að minnka varnir okkar á þessu sviði að við séum að standa okkur illa á öðrum sviðum. Við eigum einfaldlega að bæta okkur og gera allt sem unnt er til að halda í þau verðmæti sem í þessu felast.

Boltinn er hjá stjórnmálamönnum

Í nýjum dómi EFTA-dómstólsins er ekki fjallað efnislega um þau atriði sem haldið hefur verið fram í málsvörn íslenskra stjórnvalda, þ.e. að heimilt sé að halda uppi einhverjum lágmarksvörnum til að vernda það sérstaka heilbrigðisástand manna og dýra sem ríkir hér á landi. Dómurinn virðist eingöngu byggjast á því að þar sem markmið matvælalöggjafarinnar sé að samræma löggjöf á þessu sviði innan EES-svæðisins komi ekki til álita að heimilt sé fyrir einstök lönd sem eiga aðild að samningnum að beita fyrir sig 13. grein hans.

Varla er vafi á að lögfræðingar líta þessa túlkun misjöfnum augum og jafnvel er hægt að álykta að hér sé beinlínis verið að breyta EES-samningnum því að 18. gr. áskilur berum orðum að 13. gr. skuli gilda eins og fyrr segir. Sé svo stenst það vitaskuld ekki þar sem allt annað ferli þarf að eiga sér stað til að gera breytingar á honum.

Dómstólaleiðin á vettvangi EES hefur nú verið tæmd í þessu máli og að öðru jöfnu er íslenska ríkið skuldbundið til að hlíta fyrrgreindum dómi. Standi hins vegar almennur vilji til að verja okkar sérstöðu ber stjórnmálamönnum að slá skjaldborg um hana og leita til þess allra löglegra leiða. Löggjöf og reglur eru mannanna verk.

Höfundur er hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.