Verðlaun Vigdís Finnbogadóttir verðlaunar hér einn af nemendunum 65.
Verðlaun Vigdís Finnbogadóttir verðlaunar hér einn af nemendunum 65. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Sextíu og fimm nemendur í grunnskólum Reykjavíkur tóku við Íslenskuverðlaunum unga fólksins á degi íslenskrar tungu sl. fimmtudag. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fv.

Sextíu og fimm nemendur í grunnskólum Reykjavíkur tóku við Íslenskuverðlaunum unga fólksins á degi íslenskrar tungu sl. fimmtudag. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu en hún er verndari verðlaunanna.

Meðal verðlaunahafa voru ungir lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar, tvítyngdir nemendur sem náð hafa góðum tökum á íslensku á skömmum tíma, sagnahöfundar og ljóðskáld, segir í fréttatilkynningu.

Þetta var í ellefta sinn sem Íslenskuverðlaunin voru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Verðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Allir grunnskólar í borginni gátu tilnefnt nemendur eða nemendahópa, einn á hverju skólastigi.

Verðlaunin voru að þessu sinni viðurkenningarskjal undirritað af frú Vigdísi og bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar.

Verðlaunhafar fá einnig boð frá Reykjavíkurborg og Vigdísarstofnun í móttöku í Veröld – húsi Vigdísar, þriðjudaginn 5. desember nk.