Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hótaði því í gær að Írar myndu beita neitunarvaldi sínu á frekari framgang Brexit-viðræðnanna í desember ef Bretar gætu ekki fallist á lausn fyrir þann tíma sem þýddi að landamæri Írlands og Norður-Írlands yrðu...

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hótaði því í gær að Írar myndu beita neitunarvaldi sínu á frekari framgang Brexit-viðræðnanna í desember ef Bretar gætu ekki fallist á lausn fyrir þann tíma sem þýddi að landamæri Írlands og Norður-Írlands yrðu áfram opin eftir Brexit.

„Ég tel það vel mögulegt að við getum komist að niðurstöðu í desember um næsta skref viðræðnanna. En ef það þarf að bíða næsta árs, eða við þurfum að bíða frekari eftirgjafar, þá verður að hafa það,“ sagði Varadkar.

Sagði hann jafnframt að svo virtist sem þeir stjórnmálamenn í Bretlandi sem töluðu fyrir Brexit hefðu ekki hugsað málið til enda. „Það eru liðnir 18 mánuðir frá atkvæðagreiðslunni og tíu ár frá því að hugmyndin um hana kom fram. Stundum virðist sem að þeir hafi ekki hugsað þetta til enda.“