Lilja Höfundinum tekst „afar vel að viðhalda spennu, en kaflarnir í bókinni eru stuttir og snarpir ...“
Lilja Höfundinum tekst „afar vel að viðhalda spennu, en kaflarnir í bókinni eru stuttir og snarpir ...“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lilju Sigurðardóttur. Forlagið 2017. Innb., 372 blaðsíður.

Agla er ein af helstu persónum og leikendum í stóru markaðsmisnotkunarmáli og afplánar dóm vegna þess á Hólmsheiði. Henni finnst að ekkert bíði sín að afplánun lokinni, ástkonan Sonja horfin úr lífi hennar og fátt blasir við. Niðurbrotin sér hún enga aðra leið en að svipta sig lífi. Það mistekst og þar sem hún baðar sig upp úr eigin vonleysi og eymd kemur fulltrúi erlends stórfyrirtækis til hennar í fangelsið og falast eftir sérfræðiaðstoð hennar í flóknu máli sem tengist fjármálamisferli í hinum alþjóðlega álheimi. Þar sem Agla er á bak við lás og slá og kemst hvorki lönd né strönd leitar hún liðsinnis blaðakonunnar Maríu, sem reyndar er svarinn óvinur hennar frá fornu fari, og í kjölfarið upphefst spennandi atburðarás sem teygir anga sína víða um heim og inn í ýmsa afkima samfélagsins.

Einhvern veginn svona hefst nýjasta bók Lilju Sigurðardóttur, sem er lokabókin í þríleiknum um kærustuparið Öglu og Sonju, en hér er Agla í aðalhlutverki.

Lilja er mjög flinkur glæpasagnahöfundur. Hún er snjöll við að vefa áhugaverðar hliðarsögur inn í það sem lesandinn heldur að sé aðalsagan þangað til eitthvað allt annað kemur í ljós og henni tekst líka afar vel að viðhalda spennu, en kaflarnir í bókinni eru stuttir og snarpir og halda vel við efnið.

Í þessari bók, eins og öðrum bókum Lilju, leika sterkar og úrræðagóðar konur öll helstu hlutverkin, hvort sem það eru góðu eða vondu kallarnir, og hún er býsna góð í að skapa trúverðugar persónur í bókum sínum. Sögupersónur eru marghliða og síður en svo einhverjar staðalmyndir fyrir tilteknar manngerðir.

Það sem kannski mætti helst finna að þessari ágætu bók er að lesandinn þarf helst að hafa lesið hinar tvær bækurnar á undan ( Gildran og Netið ) til að átta sig almennilega á því hvers vegna hitt og þetta er svona en ekki hinsegin. Vissulega eru þessar þrjár bækur þríleikur og ekki ólíklegt að margir þeirra, sem munu taka Búrið sér í hönd til lestrar, hafi þegar lesið hinar tvær. Engu að síður hefði jafn snjall höfundur og Lilja vel getað hugað betur að þessu og komið því úr fyrri bókunum sem helst skiptir máli inn í söguna.

Annars er Búrið dúndurendir á þessum fína þríleik og nú er ekkert annað að gera en að vona að Lilja sé þegar komin með hugmynd að einhverju nýju og spennandi.

Anna Lilja Þórisdóttir