Hverfið mitt Kosningu er að ljúka.
Hverfið mitt Kosningu er að ljúka.
Kosningin „Hverfið mitt“ er á lokametrunum. Kosningin hófst 3. nóvember og henni lýkur á miðnætti á sunnudagskvöld, 19. nóvember. Í gærmorgun höfðu 8.660 Reykvíkingar kosið, sem er 8,4% kosningaþáttaka.

Kosningin „Hverfið mitt“ er á lokametrunum. Kosningin hófst 3. nóvember og henni lýkur á miðnætti á sunnudagskvöld, 19. nóvember.

Í gærmorgun höfðu 8.660 Reykvíkingar kosið, sem er 8,4% kosningaþáttaka. „Undanfarin ár hefur verið mikil þátttaka síðustu dagana og við erum því ákaflega vongóð um að þátttakan verði söguleg og fari yfir 10% markið,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg. Þetta er í sjötta sinn sem verkefnið er keyrt og stefnir í að metþátttaka verði í ár.

Kosningin fer fram á vefsíðunni hverfidmitt.is og að sögn Jóns Halldórs hefur borgin fengið hrós fyrir hve það er auðvelt að kjósa. Íbúar geta kosið upp að vissri fjárhæð en þurfa ekki að fullnýta hana.

Framkvæmdafé er 450 milljónir í ár eins og í fyrra.

Öll hverfi fá grunnupphæð, 11,25 milljónir, og síðan hlutfallslega eftir íbúafjölda. Fjölmennasta hverfið, Breiðholt, fær rúmar 70 milljónir, en það fámennasta, Kjalarnes, 13,5 milljónir. Kosin verkefni koma til framkvæmda árið 2018.

Íbúar kusu 112 verkefni til framkvæmda í kosningum sem fram fóru í nóvember fyrir ári. Búið er að framkvæma flestöll þau verkefni, að sögn Jóns Halldórs. sisi@mbl.is