Nýsköpun Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann, eigendur Friðheima, ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannssyni sem veitti þeim hin eftirsóttu verðlaun.
Nýsköpun Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann, eigendur Friðheima, ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannssyni sem veitti þeim hin eftirsóttu verðlaun.
Eigendur Friðheima í Biskupstungum í Bláskógabyggð fengu í vikunni Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th.

Eigendur Friðheima í Biskupstungum í Bláskógabyggð fengu í vikunni Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Friðheimum verðlaunin, sem falla jafnan í skaut þeim sem koma með athyglisverðar nýjungar. Er markmiðið með verðlaununum að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar.

Tómatar, hestamennska og ferðaþjónusta

Þetta er í 14. sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 25 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Dómnefnd var einhuga í vali á því fyrirtæki sem í ár hlýtur Nýsköpunarverðlaun SAF, Friðheimum í Bláskógabyggð. Skoðun nefndarmanna er að Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann, eigendur Friðheima, séu frumkvöðlar á sínu sviði en þau hafi tvinnað saman tómataræktun, ferðaþjónustu og hestamennsku og taki árlega við vel á annað hundrað þúsund ferðamönnum.

„Gestir fá að skyggnast inn í líf og störf heimamanna og eru í raun að heimsækja fjölskyldu og fyrirtæki þeirra. Leitast er við að veita hverjum og einum gesti hlýjar móttökur, fræðslu og einstaka matarupplifun. Friðheimar eru skapandi í fræðslu og upplifun, þar er til dæmis boðið upp á stuttar hestasýningar á fjölmörgum tungumálum og áhersla lögð á sögu og sambúð manns og hests frá landnámi. Allt sem til fellur í tómataframleiðslunni er nýtt í veitingahúsinu og í afurðir sem eru seldar sem matarminjagripir og hafa slegið í gegn um allan heim,“ segir dómnefnd og ennfremur:

Tæki til jákvæðrar ferðaþjónustu

„Starfsemi Friðheima er lýsandi dæmi um það hvernig ferðaþjónusta er í sívaxandi mæli að skapa ný tækifæri fyrir hefðbundnar atvinnugreinar um land allt og að greinin er besta tæki til jákvæðrar byggðaþróunar sem fram hefur komið í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Nýsköpun af þessu tagi byggist á fagmennsku og þekkingu á landbúnaði og garðyrkju sem er síðan grundvöllur að vöruþróun í ferðaþjónustu þar sem fræðsla og upplifun eru í fyrirrúmi.“

Mörg athyglisverð fyrirtæki hafa fengið Nýsköpunarverðlaun SAF, sem fyrst voru afhent árið 2004. Í fyrra féllu þau í skaut Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal, Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit fékk þau 2009 og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit árið 2008. Eru þá mörg önnur ónefnd.