Málfar Það skiptir máli hvaða orð eru notuð.
Málfar Það skiptir máli hvaða orð eru notuð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fer um mann hrollur við lestur fjölmiðla þessa dagana. Það eru frásagnir af valdníðslu, kynferðislegri áreitni og misnotkun í hverjum fréttatíma.

Það fer um mann hrollur við lestur fjölmiðla þessa dagana. Það eru frásagnir af valdníðslu, kynferðislegri áreitni og misnotkun í hverjum fréttatíma. Á Íslandi sprakk ríkisstjórn vegna hávaða einstaklinga sem létu ekki þagga niður í sér með reglugerðarvendinum. Í Hollywood á að hætta að taka upp vinsæla þáttaseríu því aðalleikarinn er sakaður um að níðast á öðrum leikurum. Söngkona, búandi á Ítalíu, segir að þar sé óperuheimurinn svo sýktur að fólk fái ekki hlutverk nema leggjast undir einhvern þeirra sem stjórna. Nágrannar okkar á Norðurlöndunum voru slegnir þegar upp komst að fyrirtæki hefur markvisst niðurlægt konur, jafnvel er slíkt „skemmtiatriði“ á jólasamkomu. Forsvarsmaður fyrirtækisins maldar í móinn og segir að þetta hafi nú bara verið til gamans gert og enginn hafi kvartað, og þar erum við komin að aðalatriðinu. Hvernig stendur á því að enginn segir frá? „Ekki skrifaði ég undir neitt skjal um trúnað þegar mér var nauðgað“ sagði ein stúlka í vikunni en þorir samt ekki að nafngreina gerandann.

Það býr líka ákveðin þöggun í tungumálinu. Það voru ekki mörg hugtök til að segja frá misnotkun og kynferðislegri áreitni þar til nýlega. Áður voru til orð eins og káfa, kássast upp á, negla kellingar, perri, dónakarl og fleiri sem gerðu lítið úr glæpnum. Þetta var bara eðlileg hegðun karla og kannski bara dálítið fyndin. Þannig er reynt að horfa framhjá alvarleika þessara glæpa með orðræðunni. Þeir sem frétta af kynferðislegri misnotkun eru oftar en ekki tilbúnir að verja gerandann í blindni og gera lítið úr þolandanum með setningum eins og „allt er nú reynt til að fá athygli“ eða „ekki má koma nálægt þessum kellingum, þá eru þær farnar að væla yfir kynferðislegri áreitni“ og einn vinsælasti frasinn til að réttlæta kynferðislegan yfirgang er að benda á að þetta hafi nú ekki verið illa meint, gerandinn hafi bara ekki getað stillt sig því „hún“ var svo sæt og freistandi.

Það skiptir máli hvaða orð eru notuð. Er verið að gera lítið úr líðan fórnarlambs, færa sökina á rangan aðila eða réttlæta ofbeldið? Ég hvet alla til að velta fyrir sér hvaða orð þeir nota í þessari umræðu og hvaða aukamerking fylgir þeim orðum. Eru orðin líkleg til að uppræta eða viðhalda kynferðislegu ofbeldi? Munum að í hverjum hópi er mjög líklega gerandi eða þolandi kynferðislegs áreitis.

Þó að sögurnar sem við heyrum þessa dagana séu ljótar og óþægilegar, þá eru þær nauðsynlegar. Það er jákvætt að sjá allt það fólk sem hefur staðið upp og sagt frá. Vonandi að þessi bylgja sé varanleg og þolendur muni áfram hafa hátt, eins hátt og þarf, til að breyta þessu kynbundna óréttlæti og gera samfélagið betra fyrir alla. Við öll getum valið að vera hluti af allsherjar haltu kjafti kór sem verndar vonskuverk með þögninni eða tekið fagnandi þeim röddum sem segja frá.

Lilja Magnúsdóttir liljam@simnet.is