Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
Eftir Einar Benediktsson: "Óvissan um samninga Breta er sem skuggi hvílandi á Evrópusamstarfinu."

Efst á blaði þess sem beið nýrrar ríkisstjórnar, voru svonefndu „stóru málin“ – hin miklu verkefni þjóðfélagsumbóta, sem stjórnarflokkarnir höfðu rætt. Það er von margra að stofnað verði til ríkisstjórnarsamstarfs til góðs fordæmis um bætt samstarf á Alþingi. Þjóðarhagur ráði en ekki flokkshagsmunir, eins og sagt var nýlega. Og þeir málaflokkar, sem sátt gæti náðst um, heilbrigðismál, menntamál og uppbygging innviða, ráðast heima, utan alþjóðamálasviðsins.

Á hinn bóginn er ljóst að okkar varnarlausa Ísland byggt á örsmáu, einhliða hagkerfi fær ekki þrifist nema í alþjóðlegu umhverfi stöðugleika, friðsamlegrar sambúðar og frjálsra viðskipta. En þversögn er sú að annars vegar ræður Ísland engu í þróun heimsmála en hefur hinsvegar val um kosti. Skipan Evrópumála, sem er Íslandi eitt mesta hagsmunamálið, er breytingum undirorpin og kallar á viðbrögð aðlögunar fremur en nýja stefnumótun. Það mál hlýtur að bíða frekari framvindu á komandi misserum varðandi úrsögn Bretlands – Brexit – og breytta starfsemi Evrópusambandsins, sem þar af leiðir. Um utanríkisstefnuna er ekki síður þörf breyttrar pólitískrar umræðu lausrar frá úreltum hugmyndafræðilegum kreddum.

Allar götur frá byrjun Evrópusamvinnunnar hafa íslensk stjórnvöld lagt sig fram um að tryggja útflutningshagsmunina. Kannanir um aðild að EFTA hófust 1960 þótt það mál leystist ekki fyrr en 1969 vegna landhelgisdeilnanna. Náin tengsl Íslands að Evrópusambandinu komu í áföngum en með samningi EFTA um Evrópska efnahagssvæðið urðum við aðili að innri markaði ESB. Þótt sú umræða tilheyri fortíðinni má minna á, að hin sjálfsagða aðild að EFTA var tilefni harkalegra átaka. Á þeirri rúmu hálfu öld sem liðin er frá byrjun þátttökunnar í fríversluninni í Evrópu hefur þjóðarhagur okkar tekið stórfelldum framförum. Það á við um landið allt og ekki síst Reykjavík, borg stakkaskipta.

Framfarirnar ber að þakka auknu viðskiptafrelsi, einkum fyrir sjávarafurðir, undirstöðu þjóðarbúsins, samfara því sem mótuð hefur verið heillavænleg stefna í sjávarútvegsmálum að ná hámarki veiðiþols sjálfbærra fiskistofna og arðsemi sjávarútvegs og vinnslu. Ekkert ríki við Atlantshaf stenst Íslandi snúning hvað þetta varðar. Breski markaðurinn er enn sá þýðingarmesti fyrir íslenskar sjávarafurðir. Fersk fiskflök send í flugi eru eitt það síðasta í þróun nýrra afurða til fullnýtingar aflans að hámarksvirði. Gott dæmi um nýsköpun er að finna í uppbyggingu á Siglufirði.

Ekki skal dregið úr þýðingu viðskiptafríðinda Evrópska efnahagssvæðisins. En gallinn á þeirri gjöf Njarðar er að EES er aðeins móttökustöð fyrir EFTA-ríkin á ákvörðunum ESB til innleiðingar á lagalegum gjörningum, sem þau eiga naumast þátt í að undirbúa. EES var tillaga Jacques Delors, forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem viðskiptalausn fyrir hlutlausu EFTA-löndin í kalda stríðinu, einkum Sviss sem fór mikinn í undirbúningsviðræðunum. En fljótlega féll Berlínarmúrinn, Þýskaland sameinaðist og pólitísk hindrun fyrir hlutleysingjana var úr sögunni. Og hlutlausu ríkin gerast sem fyrst farsælir aðilar að Evrópusambandinu. Þetta átti þó ekki við um Sviss sem hafnaði bæði EES og ESB. Þeir skildu þó undirsáta sinn Liechtenstein eftir í EFTA/EES með Noregi og Íslandi, fullgildum Evrópuaðilum, síður en svo hlutlausum, sem gjalda máttu þeirrar sjálfsögðu afstöðu að hafna sameiginlegri sjávarútvegsstefnu, hinni verstu ósvinnu í Evrópumálum.

Evrusvæðið telur 19 ríki af þeim 28 sem eru í Evrópusambandinu og eru vafalaust mörk sett hversu langt sum þeirra geta gengið í frekara samrunaferli. Niðurstaðan í núverandi umróti í ESB gæti orðið s.k. „tveggja hraða“ fyrirkomulag; þ.e. að kjarni aðildarríkja undir forystu Þjóðverja og Frakka kjósi sér einmitt frekari samruna sterkara myntbandalags, samhæfðari efnahagsstjórn og einhverja einingu í utanríkis- og varnarmálum. Um þau atriði og önnur hélt Macron Frakklandsforseti tímamótaræðu í Sorbonne fyrir skemmstu. Ógn stafi af tölvuárásum og hryðjuverkum, sem ekkert eitt land ráði við. Stofna skuli sameiginlega landamæragæslu og skilgreiningu á hælisleitendum og brottvísunum. Sameiginlegu landbúnaðarstefnuna taldi Macron barn síns tíma og úrelta. Mikið væri enn óunnið í Brexit-viðræðunum. Við það að ESB-ríki taki til í sínum ranni yrðu þau reiðubúin að taka síðar aftur á móti Bretum.

Óvissan um samninga Breta er sem skuggi hvílandi á Evrópusamstarfinu. Í núverandi stöðu þeirra mála er það greinilega ríkjandi skoðun að afleiðingarnar verði harla neikvæðar, bæði efnahagslega og fyrir áhrifastöðu Bretlands.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.