Mörður Ingólfsson
Mörður Ingólfsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum óskaplega glaðir að geta boðið öllum notendum póstþjónustu,“ segir Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984 ehf.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum óskaplega glaðir að geta boðið öllum notendum póstþjónustu,“ segir Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984 ehf.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum varð 1984 fyrir algeru kerfishruni í vikunni. Fjöldi íslenskra vefsíðna hefur legið niðri síðustu daga og viðskiptavinir fyrirtækisins hafa ekki komist í tölvupóst sinn. Um hádegisbil í gær komst skriður á málin og svokölluð neyðarpóstþjónsta var tekin í gagnið.

„Nú geta allir notendur sent og fengið póst og fá að auki þann póst sem safnaðist upp meðan kerfið lá niðri. Svo munu eldri póstar viðkomandi birtast þegar okkur auðnast að klára að setja kerfið upp á ný. Það er gríðarlega mikið atriði,“ segir Mörður við Morgunblaðið.

Hversu umfangsmikil er þessi tölvupóstþjónusta?

„Þetta eru á þriðja tug þúsunda notenda sem við settum upp póstþjónustu fyrir.“

Mörður segir að nú þegar tölvupóstur notenda 1984 sé kominn í góðan farveg sé komið að vefjunum sjálfum.

„Nú eru bara vefirnir eftir. Við munum taka þá um helgina. Ég vil að við klárum að setja vefina upp um helgina og á ekki von á öðru en að það takist. Það eru okkar grunnskyldur við okkar góðu viðskiptavini sem virðast vera ótrúlega gott fólk. Það er full ástæða til að ærast við þessar aðstæður en okkur hefur mætt endalaus manngæska.

Þegar við erum búnir að koma vefjunum á sinn stað getum við farið að sinna okkar grunnskyldum sem okkur er greitt fyrir. Við munum ekki unna okkur hvíldar fyrr en við höfum náð í gögn okkar notenda.“

Hann segir að útlit sé fyrir að gögn úr svokallaðri VPS-þjónustu verði endurheimt.

„Við höfum þróað aðferðir við að ná þeim út og getum líklega náð öllu. Við álitum þau glötuð svo þetta eru góðar fréttir. Við náðum til dæmis að endurheimta 40 milljóna króna gagnagrunn hjá fólki sem hafði ekki afritað gögn sín. Það fólk var harmi slegið en við náðum þeim grunni að mestu leyti. Þetta hefur verið rosalega erfiður tími en inni á milli hafa komið ljósgeislar sem þessi sem hafa haldið í okkur vitglórunni.“

Þegar vinnu við að koma starfsemi 1984 í fyrra horf lýkur verður farið að huga að rannsókn á því hvað gerðist, að sögn Marðar.