[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Armand. Mál og menning, 2017. Innb., 309 bls.

Það er erfitt að festa hönd á nútímanum þegar breytingar í tækni og samskiptum gerast með uggvænlegum og svimandi hraða. Hraðinn er slíkur að vart gefst tími til að standa agndofa yfir einni breytingu vegna þess að sú næsta hefur rutt henni til hliðar. Áhrifaríkasta birtingarmynd þessara breytinga er farsíminn, sem fylgir eigandanum við hvert fótmál og er alltaf við höndina, ef hann er ekki í henni. Farsíminn er allt annað og meira en sími, hann er gluggi, sem getur varpað heiminum til notandans og notandanum út í heiminn.

Aldamótakynslóðin þekkir ekki annað en návist þessarar tækni og hefur tileinkað sér hana með öðrum og rækilegri hætti en eldri kynslóðir. Þar fer hún um jafn fótviss og ratvís og smalar fyrri tíma þegar þeir stukku milli þúfna. En þótt hún rati um þessa heima er annað mál hvernig þeir munu móta hana, hvaða áhrif það hefur að vera stöðugt innan seilingar, vera alltaf til sýnis, nánast í beinni útsendingu, finnast maður þurfa linnulaust að bregðast við.

Hjá hverri kynslóð standa ákveðnir atburðir upp úr. Kúbudeilan árið 1962 stimplaði með rækilegum hætti inn hvað lítið þyrfti til að kjarnorkustríð brytist út. Fólk lærði að óttast kjarnorkubombuna. Kalda stríðinu lauk 1989. Hrun Berlínarmúrsins var atburður sem hafði áhrif á heila kynslóð. Kannski voru farsælar lyktir þess ástæðan fyrir því að svo margir fögnuðu hinu svokallaða arabíska vori 2010. En sagan endurtekur sig ekki eins og fram hefur komið með svo grimmilegum hætti.

Árásin á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 er sennilega sá atburður, sem einna mest mark hefur sett á þá kynslóð, sem var að vaxa úr grasi um aldamótin. Seinni farþegaþotunni var flogið á turnana í beinni útsendingu um allan heim. Heimsbyggðin fylgdist með þegar turnarnir brunnu.

Heimurinn eftir 11. september og hin nýja tækniöld eru rauði þráðurinn í nýrri bók Halldórs Armands, Aftur og aftur , eða eins og höfundur segir sjálfur í stiklu, sem finna má um bókina á netinu (hvar annars staðar?), leiðir hann lesandann inn í „snjallsímaheim með rætur í þessum ótrúlega degi“. Í sömu stiklu segir hann að heimurinn eins og hann þekki hann hafi hafist þennan dag, „að allt sem hafi gerst síðan þá séu gárur 11. september“.

Halldór hefur í skrifum sínum lýst veruleika þessarar kynslóðar og hefur enginn gert það betur í íslenskum skáldskap. Aftur og aftur er hans þriðja bók. Halldór vakti fyrst athygli með bókinni Vince Vaughn í skýjunum . Þá strax var ljóst hvað hann er góður stílisti og frumlegur. Hann skrifar af innsæi og leiftrandi húmor og á auðvelt með að koma flóknum hugsunum til skila með einföldum hætti.

„Ég var orðinn nægilega stálpaður til að átta mig á því hvað var að gerast en um leið var ég nægilega ungur til að meðtaka þetta allt saman af barnslegri einlægni,“ segir Halldór í kynningarmyndskeiði, sem finna má á netinu um bókina.

Í Aftur og aftur segir frá Arnmundi og Stefáni Fal. Arnmundur fær nýjan Nokia-síma daginn sem hryðjuverkið er framið. Sama dag lendir Stefán, sonur ráðherra og framámanns í viðskiptalífinu og trommari í hljómsveitinni Ekkert kjaftæði, í bílslysi sem kostar unga stúlku lífið.

Sagan gerist að mestu leyti nokkrum árum síðar, en rápar nokkuð fram og til baka í tíma. Inn í söguna fléttast hrunið og fjármálagjörningar, ókláruð ritgerð um birtingarmyndir hryðjuverkanna 11. september á netinu, fangelsaðir fjármálamenn, bílslys í Belgíu, Panamaskjölin, peningar, ástir, fáfengileiki og sprotafyrirtæki í leit að algóritmum til að greina „hreyfilögmál múgsins“.

Vegir Arnmundar og Stefáns Fals liggja á endanum saman. Stefán er stórhuga. Hann hefur misstigið sig illilega á lífsleiðinni, en er nú farinn að vitna í ritninguna með tölustöfum.

Líf Arnmundar hefur hins vegar verið átakaminna og hann líður einhvern veginn áfram meira eins og áhorfandi en gerandi, en um leið er eins og hann sé trekt, sem straumum og stefnum samtímans er hellt niður um án afláts. Hann reynir að vega og meta þetta flæði áreitis og veita viðnám.

Að stórum hluta fer líf hans fram á netinu, á hinum ýmsu félagsmiðlum. Þar kemur hann sjálfum sér líka á framfæri og veltir um leið fyrir sér hvernig hann eigi að birtast þar og hvernig hann muni koma fyrir sjónir. Hann sendir myndir af sér á Mesut Özil og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þessi línudans er ekki auðveldur og á einum stað spyr hann sig:

„Hvernig hafði mér mistekist svona stórfenglega að verða að sjálfum mér?“

Lýsingar Halldórs á hugarflæði Arnmundar eru markvissar og vel stílaðar. Oft er honum svo mikið niðri fyrir að lesandinn má hafa sig allan við að fylgja honum frá einni hugsun til annarrar. Velta má fyrir sér hvort sumt kalli á nánari útfærslu, en það getur líka verið nóg að ýta við lesandanum án þess að stafa hlutina ofan í hann. Þá má heldur ekki gleyma því að þótt Arnmundur sé ef til vill uppfullur af spurningum, þá er hann ekki með svörin á hreinu, frekar en við hin.

Með Aftur og aftur hefur Halldóri Armand tekist að skrifa bráðskemmtilega skáldsögu með snjallri lýsingu á tilvist okkar á tímum snjallsíma og tilræða. Sprotafyrirtækið, sem Stefán ræður Arnmund til starfa hjá, leitaði hreyfilögmála múgsins. Í Aftur og aftur er spurt um hreyfilögmál mannsins.

Karl Blöndal