2. desember 1994 | Íþróttir | 358 orð

KÖRFUKNATTLEIKUR Keflavíkurhraðlestin mátaði teinana

KÖRFUKNATTLEIKUR Keflavíkurhraðlestin mátaði teinana HÁVAXNASTI leikmaður á fjölum íþróttahúss Seltjarnarness í gærkvöldi, Lenear Burns úr Keflavík, naut sín undir körfunni þegar liðið sótti KR heim og vann auðveldlega, 64:87, enda KR-ingar búnir að losa...

KÖRFUKNATTLEIKUR Keflavíkurhraðlestin mátaði teinana

HÁVAXNASTI leikmaður á fjölum íþróttahúss Seltjarnarness í gærkvöldi, Lenear Burns úr Keflavík, naut sín undir körfunni þegar liðið sótti KR heim og vann auðveldlega, 64:87, enda KR-ingar búnir að losa sig við Donovan Casanave. Keflavíkurhraðlestin mátaði teinana í þessum leik sem segir samt ekki til um hvort hún sé komin á fullt, til þess var mótspyrnan of lítil.

iðin voru svipuð í byrjun en gestirnir alltaf nokkrum stigum yfir. Það var ekki fyrr en rétt eftir miðjan hálfleik er Keflvíkingar skelltu pressuvörn á Vesturbæinga að bilið fór að breikka. KR-ingar fundu ekki leið að körfunni og náðu til dæmis ekki skoti í 30 sekúndur og misstu boltann. Lenear lék á als oddi á þessum kafla, hirti mikið af fráköstum og skoraði 12 stig í röð.

Tæpar fjórar mínútur án þess að skora stig á meðan gestirnir gerðu 13, var síðan banabiti KR-inga enda voru þeir rétt um hálfdrættingar í stigum er staðan var 31:60. Munur hélst fram eftir leiknum og undir lokin fengu nokkrir af bekknum hjá Keflavík að spreyta sig.

Það vantaði neistann í lið KR. Leikmenn virtust áhugalausir og tókst lítið sem ekkert að komast inní leikinn. "Þetta var erfitt og við verðum að fara að spila sem lið. Það vantaði alveg liðsheildina og baráttuna. Við verðum að taka okkur á, það er það eina sem þarf að gera og þá vinnum við," sagði Ólafur Jón Ormsson, sem sýndi mesta baráttu hjá KR.

"Þetta var ekki svo létt en það var gott að þeir skyldu ekki hafa stóran útlending. Maður eyddi minni orku og hafði meiri tíma en venjulega," sagði Burns sem gerði flest stiga Suðurnesjamanna, 22, og tók rúmlega helminga allra frákasta þegar hann var inná. Jón Kr. herforingi var á sínum stað og gerði fjórar þriggja stiga körfur eins og Kristján Guðlaugsson. "Ég fékk leyfi og tók þá bara skotin," sagði Kristján. Af 19 þriggja stiga skotum skoraði liðið úr 11.

Morgunblaðið/Kristinn

Birgir leitar leiða

BIRGIR Mikaelsson, KR-ingur, leitar leiða framhjá Keflvíkingnum Lenear Burns, sem fékk að njóta sín undir körfunum í gærkvöldi þegar Suðurnesjamenn unnu ósannfærandi Vesturbæinga 64:87 á Seltjarnarnesinu.

Stefán

Stefánsson

skrifar

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.