Ágústína Berg Þorsteinsdóttir fæddist á Hríseyjargötu 6, Akureyri, 18. apríl 1929. Hún andaðist 30. desember 2018 á Sólvangi, Hafnarfirði, þar sem hún dvaldi sl ár.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Sigurðsson vélstjóri og Emilía Jónasdóttir leikkona. Systir Ágústínu er Svava Berg Þorsteinsdóttir, f. 22 febrúar 1928. Hálfbræður hennar voru Jón Ólafsson, Marinó Sæberg, Júlí Sæberg og Sigurður Sæberg Þorsteinssynir.

Ágústína giftist Sigursteini Heiðari Jónssyni, f. í Hafnarfirði 18. ágúst 1931, d. 28. nóvember 2008. Dætur þeirra eru: 1) Emilía Ingibjörg, f. 8. ágúst 1951, d. 2. júní 2004, eftirlifandi maður hennar er Snorri Hallgrímsson. 2) Heiðdís, f. 14. janúar 1955, gift Vilhjálmi Þórðarsyni. Fyrri maður hennar var Þorsteinn Sæmundsson, börn þeirra eru a) Sigursteinn Ívar. Sonur hans er Evan Smári. b) Helma, synir hennar eru Sindri Snær, Klemenz Fannar og Ívar Orri Erlingssynir. Sonur Vilhjálms frá fyrra hjónabandi er Andrés Magnús. 3) Hafdís, f. 14. janúar 1955, hennar maður er Jón Tryggvi Kristjánsson. Fyrir á hann tvær dætur, Guðrúnu Elvu og Aldísi Örnu. Börn Hafdísar eru a) Svava Berglind Hrafnsdóttir, synir hennar eru Theodór Óli, Aron Snorri og Ísak Steinn Davíðssynir. b) Kristín Guðfinna Theódórsdóttir, börn hennar eru Janus Daði Hrafnkelsson, Baldur Bragi, Alex Bjarki og Gunnar Breki Baldurssynir. c) Ómar Ágúst Theódórsson.

Ágústína flutti fjögurra ára frá Akureyri með móður sinni og ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í Austurbæjarskóla og kláraði barnaskólann þar. Á unga aldri ferðaðist hún mikið um landið allt með móður sinni sem lék í revíum. Um 16 ára aldur byrjaði hún að vinna í Nora Magasín í Reykjavík og kynntist Sigursteini sama ár. Þau giftu sig árið 1951. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau á Öldugötu 4 í Gróf í Hafnarfirði á neðri hæð í húsi móður Sigursteins ásamt elstu dóttur sinni, Emilíu. Í desember 1954 fluttu þau í húsið sem þau byggðu sér í Fögrukinn 11 í Hafnarfirði, þá gekk hún með tvíburana Heiðdísi og Hafdísi. Ágústína vann sem aðstoðarkona skólatannlæknis í Lækjarskóla í Hafnarfirði og eftir það vann hún í Kaupfélagi Hafnfirðinga. Samhliða vinnu stundaði hún myndlistarnám hérlendis og erlendis og sótti alls konar námskeið og kennararéttindi. Í kjölfarið starfaði hún sem leiðbeinandi á Kópavogshæli og vann þar í tíu ár, síðast stafaði hún sem iðjuþjálfi á Sólvangi í Hafnarfirði í 15 ár eða þar til hún varð 70 ára.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 15. janúar 2018, klukkan 15.

Þegar ég fór að hugsa um það hvað ég gæti rifjað upp og sagt fallegt um hana Gússý okkar eins og hún var alltaf kölluð fann ég mig vanmáttugan gagnvart verkefninu, þar var af svo miklu að taka, hvernig í ósköpunum er hægt að gera svo stórkostlegri konu skil í örfáum orðum, það er ekki hægt.
Elsku tengdamamma, kæra vinkona, nú þegar leiðir okkar skilja er mér efst í huga þakklæti til þín. Ég vil þakka þér samfylgd þína á lífsins leið þar sem vinátta þín og góðmennska í bland við gáska og gleði  hafa varðað veginn. Segja má að lífið sé að einhverju leyti dans á þyrnum en einstaka sinnum rekst maður á rós eins og þig. Lífsleikni þín og viska hafa verið mér nokkurs konar andleg leiðsögn um það hvernig skuli bregðast við þegar í ölduróti lífsins koma upp erfiðar aðstæður. Ég kalla fram ímynd þína um hvernig þú brást við á sorgarstundum við fráfall dóttur þinnar og eiginmanns. Þó svo vindurinn hafi blásið í fangið og lífsins leið á brattann að sækja þá brá aldrei skugga á gleði þína og jákvæðni til lífsins, hjá þér var þetta alltaf spurningin um hugafar, sjá hið fallega og góða í öllu sem að höndum bar.  Þegar heilsan fór að bresta varst þú ekki tilbúin að láta undan síga, þú hafðir mikið stolt til að bera, sem vildir aldrei láta sjá á sér nein veikleikamerki og persónuleiki þinn og útgeislun sem gleðigjafa og vin beygðu í engu af.
Vinátta þín var mér ótrúlega gefandi, þú varst stórkostleg, full af krafti, gleði og kærleika í allra garð, þú hafðir yndislega nærveru, öllum leið vel í návist þinni, eftir að hafa átt stund með þér fylltist maður af hlýju og varð betri maður en fyrr. Þegar einhver átti um sárt að binda réttir þú ávallt fram kærleiksríka hjálparhönd og á þann hátt gerðir lífsgöngu fólks mýkri undir fæti og auðveldari yfirferðar. Mín kæra vinkona fyrir þetta allt er ég þér ótrúlega þakklátur.

Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd
gleymdu ekki, hvað sem á dynur,
að albesta sending af himnunum send
er sannur og einlægur vinur.
(Höf. ók. Þýð. Sig. Jónsson)



Þú naust þess að ferðast, allt fram á 86 ára aldur fórst þú tvisvar á ári til Spánar er var eins og þín önnur heimkynni, á þínum ferðum eignaðist þú marga vini og ferðafélaga þar sem og annarsstaðar naust þú þess að vera meðal vina þinna og varst þar fremst meðal jafningja. Eitt af því sem einkenndi þína persónu var að þú leist á alla sem jafningja, enginn var yfir annan hafinn, þér fannst kannski að viðmót þitt, góðmennska og glaðlyndi skipti okkur samferðafólk þínu litlu máli  en á þinni braut gaf það ótrúlega mikið af sér. Þú gengdir einstæðu hlutverki í spilverki lífsins hjá þeim er notið fékk. Það mátti alltaf þekkja hana Gússý af hlátri hennar, þið þekkið þetta, andlitið varð eitt stórt bros þannig að maður fékk það á tilfinninguna að sjálf sólin væri að springa, kátínan var svo mikil, að hlæja með Gússý hressti meira en nokkurt lyf er læknir fær skrifað upp á.
Þínar næmu tilfinningar gagnvart öðru fólki og öllu í umhverfi þínu voru aðdáunarverðar, verum þess minnug að líf hinna tilfinningalausu einkennist af tilfinningarleysi, ekkert er dapurlegra en líf án tilfinninga. Gömul hyggindi segja það kemur maður í manns stað svo má vera en það á ekki við um þig, þú varst einstakt góðmenni, sannur vinur er gegndi einstæðu hlutverki í spilverki lífsins. Ekki er fallegt að setja sig  í dómarasæti, en ég geri það samt þú ert ein af þeim fáu sem hægt er að segja um að sé virðingarverð persóna. Kæra vinkona það mun enginn taka þitt sæti eða fylla þitt skarð í huga mér. Ég mun alltaf geyma minningu þína með mér og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér þann tíma sem við áttum hér saman, þú varst og munt alltaf vera vinur minn, ég mun sakna þín.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm
er verður að hlíta þeim lögum
að beygja sig undir þann allsherjardóm
sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu genginn á guðanna fund
það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)



Í okkar samskiptum skiptir þú aldrei skapi við mig þó eflaust hafi stundum verið ástæða til. Við tengdumst órjúfanlegum böndum vináttu og kærleika og minningin um það þegar ég kom til þín s.l. aðfangadag þú varst orðin verulega máttfarin af þínum sjúkdóm en þú bentir mér á að koma nær þér, ég hallaði mér niður að þér og þú sagðir við mig mér þykir svo vænt um þig síðan í örlítið strangari tón mér þykir svo vænt um þig og ég vil að þú munir það Þetta voru þín síðustu orð til mín. Elsku Gússý mín, þessum orðum mun ég aldrei gleyma, þessi loka orð þín munu ávallt standa með mér á göngu minni í gegnum lífið, gera brekkurnar auðveldari yfirferðar og mæðina minni en ella. Þessi lokaorð þín snertu mínar fínustu tilfinningar og hafa fengið mig til að brynna músum svo þær voru við það að drukkna.
Vertu sæl mín elsku tengdamamma, kæra vinkona, og þakka þér samfylgdina, þú varst mikil heiðurskona og sannur vinur. Ég veit þú munt njóta aðdáunar og virðingar á vegferð þinni hér eftir sem hingað til og Steini þinn og Milla þín munu taka þér fagnandi. Hjá okkur er tómarúm eftir en minningin um mikla heiðurskonu munu að einhverju leyti fylla upp í það skarð.
Vertu sæl, mín kæra vinkona og tengdamamma.

Þinn vinur,


Jón Tryggvi Kristjánsson.