Píanóleikarinn „Ef fólk vill kalla þetta djass þá er það í lagi; það er þá þeirra upplifun á tónlistinni,“ segir Ingi Bjarni um verkin sem hann flytur.
Píanóleikarinn „Ef fólk vill kalla þetta djass þá er það í lagi; það er þá þeirra upplifun á tónlistinni,“ segir Ingi Bjarni um verkin sem hann flytur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Fyrir mér er þetta sérstakur viðburður því að þetta verður í fyrsta sinn sem ég spila sólótónleika á Íslandi,“ segir Ingi Bjarni Skúlason djasspíanóleikari sem flytur eigin tónsmíðar á Háskólatónleikum í dag. Fara þeir fram á Litla torgi og hefjast kl. 12.30. Aðgangur er ókeypis.

Verkin sem Ingi Bjarni mun spila eru af ýmsum toga en öll undir áhrifum af norrænum þjóðlögum og djassi.

Ingi Bjarni nam við Tónlistarskóla FÍH, til 2011, og hélt eftir útskrift í bachelor-nám í Den Haag í Hollandi. Nú er hann búsettur í Gautaborg og hefur verið í norrænu meistaranámi sem tónlistarmaður og tónskáld. „Það fer fram í Gautaborg, Kaupmannahöfn og Osló, ein önn í hverri borg. Þetta er mjög áhugavert og sérstakt nám sem ég hef notið,“ segir hann. „Þetta er fyrir tónlistarmenn sem leika mikið sína eigin tónlist – einmitt það sem ég geri.“

Hann bætir við að í náminu hafi hann mikið stúderað tónsmíðar og æft stíft en líka spilað á djassklúbbum, eins og hann gerði í gærkvöldi á Kex hostel með Frændfólkinu. „Áherslur í náminu í þessum borgum hafa verið ólíkar, sem og kennararnir og fólkið í skólunum – þá eru borgirnar mjög ólíkar.“

En hvernig lýsir Ingi Bjarni tónsmíðunum sem hljóma á Háskólatónleikunum?

„Þetta er mín eigin þjóðlagatónlist sem er opin fyrir spuna og svolitlar tilraunir á köflum; með mínimalískum en þó skilvirkum laglínum ásamt hljómum sem endurspegla hluti og fólk í lífi mínu...“ Hann þagnar, bætir svo við: „Ef ég lýsti tónlistinni of mikið finnst mér það vera eins og að mála myndina of ítarlega fyrir hlustandann. Ég mun leika tónlist og hlustandinn getur ákveðið hvað honum finnst það vera,“ segir hann. „Það er engin ástæða til að setja þetta í flokka en ef fólk vill kalla þetta djass þá er það í lagi; það er þá þeirra upplifun á tónlistinni.“

Sumarið 2015 gaf Ingi Bjarni út sinn fyrsta geisladisk, Skarkala , og fékk hann ágæta dóma í erlendum djasstímaritum. Seinna á þessu ári kemur svo út nýr tríódiskur með tónlist Inga Bjarna, sem fengið hefur nafnið Fundur .

Ingi Bjarni hefur nokkrum sinnum komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur og hefur líka spilað á alþjóðlegum hátíðum eins og í Kaupmannahöfn, Vilníus, Lillehammer og Duketown í Hollandi.