Sigríður J. Lúðvíksdóttir fæddist í Reykjavík 20. desember 1930. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 6. apríl 2018.
Foreldrar hennar voru Lúðvík Vilhjálmsson skipstjóri, fæddur á Akranesi 11. júlí 1899, dáinn 18. júní 1965, og Þorbjörg Guðrún Jónsdóttir, fædd á Barðaströnd 23. nóvember 1901, dáin 5. október 1969.
Alsystkini Sigríðar voru Ágústa Fanney, f. 1933, d. 2010, og drengur f. 1937, og lést á sama ári. Sigríður átti fjögur hálfsystkini samfeðra: Jakobínu Þóru, f. 1924, d. 1952, Vilhjálm Kristin, f. 1926, d. 1966, Gerði, f. 1942 og Iðunni, f. 1947, d. 2013.
Árið 1949 eignaðist Sigríður dótturina Þorbjörgu Brynhildi, f. 10. júní 1949, safnafræðing, með Gunnari Hermannssyni, f. 1930, d. 1989. Eiginmaður Þorbjargar er Jón Gestur Viggósson, f. 1946. Þau eiga fjögur börn: 1) Ástu Vigdísi, f. 1967. Maki Guðmundur Markússon, f. 1969. Þau eiga þrjú börn. 2) Sigríði Björk, f. 1972. Maki Magnús Árni Magnússon, f. 1968. Þau eiga fjögur börn. 3) Berglindi Völu, f. 1974. Maki Jón Þorvarðarson, f. 1972. Þau eiga þrjú börn. 4) Kjartan Frey, f. 1980. Maki Íris Stefánsdóttir, f. 1981. Þau eiga þrjú börn.
30. desember 1961 giftist Sigríður Elíasi I. Elíassyni, f. 10. apríl 1926, d. 7. apríl 1997, síðar bæjarfógeta á Siglufirði og sýslumanni á Akureyri. Foreldrar hans voru Elías Hjörleifsson, f. 1899, d. 1938, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 1894, d. 1977. Sigríður og Elías bjuggu fyrst í Reykjavík, þar sem Sigríður vann hjá embætti tollstjóra. Árið 1966 fluttu þau til Siglufjarðar og síðan til Akureyrar árið 1980. Eftir lát eiginmanns síns árið 1997 flutti Sigríður aftur til Reykjavíkur, þar sem hún bjó þar til hún lést. Börn Sigríðar og Elíasar eru tvö: Ingibjörg, f. 22. febrúar 1968, lögfræðingur, og Lúðvík, f. 8. mars 1969, hagfræðingur. Fyrrverandi eiginmaður Ingibjargar er Eyþór Þorbergsson, f. 1962. Þau eiga þrjú börn. 1) Elías Árna, f. 1995. 2) Arnhildi Guðrúnu, f. 1998. 3) Iðunni Örnu, f. 2000. Eiginmaður Ingibjargar er Birgir Guðmundsson, f. 1956. Börn Birgis og stjúpbörn Ingibjargar eru: 1) Gunnar Ernir, f. 1987 og 2) Iðunn Dóra, f. 1992. Lúðvík og Sigríður Kristjánsdóttir, f. 1967, eiga þrjá syni; Elías, f. 1998, Kristján, f. 2000 og Hannes, f. 2001.
Útför Sigríðar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 23. apríl 2018, klukkan 13.

Sigríður Jóhanna Lúðvíksdóttir, tengdamóðir mín, fæddist í upphafi kreppunnar miklu á Íslandi, árið 1930. Það má því segja að ævi hennar hafi einmitt spannað þann tíma í íslensku þjóðlífi þegar þjóðin braust úr fátækt og basli til bjargála og velsældar og skapaði samfélag menntunar, jafnréttis og velferðar alls þorra fólks. Og þessi umskipti í lífi þjóðarinnar spegluðust á vissan hátt í lífshlaupi Sigríðar þar skiptust líka á skin og skúrir og þar varð sólskinið líka lengst af ofan á. Sigríður ólst upp í Reykjavík sem barn ásamt yngri systur sinni, Ágústu. Foreldrar þeirra skildu þegar Sigríður var 10 ára og í kjölfarið veiktist Þorbjörg móðir hennar þannig að daglegt heimilishald og umhugsun lenti á hennar herðum barnungri. Heimilisaðstæður löguðust þó og fluttu þær mæðgur í íbúð í Meðalholti og undir lok stríðsins og árin þar á eftir bjuggu þær þar og höfðu lífsviðurværi meðal annars af því að hafa kostgangara.

Sigríði voru gefnar góðar gáfur í vöggugjöf og með aðstoð og hvatningu góðs fólks fór hún norður til Akureyrar í menntaskóla, en það var síður en svo algengt hvað þá sjálfsagt á árunum eftir stríð að alþýðustúlkur færu í menntaskóla. Mun þar hafa ráðið nokkur hvatning uppeldissystra og frænka Þorbjargar móður Sigríðar, þeirra Fanneyjar og Soffíu Jóhannesdætra (frá Ísafirði), sem þá bjuggu á Akureyri. Menntaskólavistin var örlagarík, en á nokkuð annan hátt en stefnt hafði verið að. Í MA kynntist Sigríður Gunnari Hermannssyni og varð hún barnshafandi, en af frekara sambandi þeirra varð ekki. Hún hætti í námi og flutti suður aftur og bjó í Reykjavík með dóttur sinni, sem fékk nafnið Þorbjörg. Sigríður vann þá í fullu starfi á skrifstofu tollstjóra.

Ugglaust hefur lífið ekki verið einfalt fyrir unga einstæða móður í Reykjavík um miðja síðustu öld, og það rímar vel við mín persónulegu kynni af Sigríði þegar ég heyri Þorbjörgu dóttur hennar tala um þessi ár, að þá er ekki minnst á mótlæti eða erfiðleika. Frekar virðist skína í gegn æska móðurinnar í uppeldi og viðhorfum, en þær mæðgur áttu til að gera óvenjulega hluti á þess tíma mælikvaða, s.s. að fara í bíó eða á kaffihús eftir að Sigríður kom úr vinnunni.

Það er einmitt á þessum tíma sem Sigríður kynnist Elíasi I. Elíassyni, sem átti eftir að verða eiginmaður hennar og lífsförunautur. Hann var þá ungur lögfræðingur sem vann í dómsmálaráðuneytinu, sem var til húsa á sama stað og tollstjóraembættið. Þau tóku saman snemma á sjötta áratugnum og voru í nokkur ár í sambandi áður en þau síðan giftu sig í árslok 1961.

Þau Sigríður og Elías bjuggu síðan um skeið á æskuheimili Elíasar á Njálsgötunni, en árið 1966 ákváðu þau að flytja til Siglufjarðar en þar hafði Elías fengið stöðu sem bæjarfógeti. Dóttirin Þorbjörg var þegar hér var komið sögu orðin það stálpuð að hún fór ekki með norður, en hélt sínu striki í lífi og námi í Reykjavík.

Á Siglufirði bjuggu Sigríður og Elías fram til 1980 og þar fæddust þeim börnin Ingibjörg og Lúðvík. Segja má að á þessum tíma hafi Sigríður verið í hlutverki maka embættismannsins, hún var heimavinnandi og sá um heimilið og börnin. Því hlutverki sinnti hún með eindæmum vel og fölskvalaus hlýjan og þakklætið er augljóst hjá börnum hennar, þegar þau rifja upp það atlæti sem þau nutu á þessum árum. Raunar er þetta ekki bundið við hennar eigin börn því umhyggja hennar náði líka til allra vina og félaga barnanna hennar. Þar var enginn undanskilinn, allra síst þeir sem á einhvern hátt voru minni máttar. Bergmál þeirrar mannvirðingar sem Sigríður ástundaði alla tíð með því að fara ekki í manngreiningarálit hef ég oft heyrt þegar hennar börn nú, löngu síðar, vitna til hennar er þau reyna að hafa áhrif á gildismat og lífssýn eigin barna.

Þessi einkenni Sigríðar voru ekki síður áberandi eftir að fjölskyldan fluttist til Akureyrar 1980 þegar Elías tók þar við embætti sýslumanns. Vinir og félagar þeirra Ingibjargar og Lúðvíks áttu þar sitt annað skjól. Það mátti treysta því að hjá Sigríði einkenndist heimilishaldið af eldamennsku frá grunni, bakstri, hannyrðum og hvers kyns handverki.

Elías lést óvænt árið 1997, aðeins ári eftir að hann hætti að vinna og umturnaði það lífi Sigríðar. Þau Elías höfðu ráðgert að flytja aftur suður - aftur heim - eftir meira en 30 ára ferð norður í land, og hélt Sigríður sig við þau áform. Hún flutti á Dunhagann í Reykjavík og bjó þar þangað til að hún flutti á Sóltún 2010.

Á þessari kveðjustundu minnist ég sérstaklega samtala við Sigríði þegar hún kom norður í heimsókn til okkar Ingibjargar, áður en hún hvarf inn í þann gleymskuheim veikinda sem síðar varð. Þessi samtöl drógu fram persónueinkenni konu sem bjó yfir mikilli reynslu, ljúfri og sárri, konu sem hafði lifað tíma mikilla breytinga og örlaga, en á sinn látlausa hátt unnið úr þeim af æðruleysi og komist að því að fólk er misjafnt og margbreytilegt - að á endanum væri það fyrst og fremst manngildið sem skipti máli. Að því leyti var Sigríður frábær fulltrúi sinnar kynslóðar, kynslóðarinnar sem bjó til Ísland velferðarinnar og jafnréttis.

Birgir Guðmundsson