Oddur Pétursson fæddist 2. júlí 1931 á Brautarholti í Skutulsfirði. Hann andaðist á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 24. maí 2018.

Foreldrar Odds voru Pétur Tryggi Pétursson netagerðarmeistari, f. 1903 í Rekavík bak Höfn, d. 1996, og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir húsfreyja, f. 1906 í Hnífsdal, d. 1987. Þau bjuggu á Brautarholti til ársins 1938 er fjölskyldan flutti að Grænagarði. Systkini Odds voru Gunnar, f. 1930, og Unnur, f. 1935, d. 2010.

Eftirlifandi eiginkona Odds er Magdalena M. Sigurðardóttir, f. 1934 í Hrísdal í Miklaholtshreppi. Þau kynntust sumarið 1953 og gengu í hjónaband í desember 1955 og eignuðust sjö börn. Þau voru: 1) Margrét, f. 1955, d. 2009, maki Jón Ásgeir Sigurðsson, f. 1942, d. 2007. Börn þeirra voru þrjú a) Oddur Björn, f. 1991, b) Sigurður Árni, f. 1993, c) Ragnar Már, f. 1993, d. 1993. 2) Elías, f. 1956, maki Ingibjörg Svavarsdóttir, f. 1959. Börn þeirra eru þrjú a) Albertína, f. 1980, sambýlismaður Dofri Ólafsson. b) Þórunn Anna, f. 1985, maki Einar Hrafn Hjálmarsson. Þau eiga tvo syni. c) Oddur, f. 1987. 3) Ólöf Björk, f. 1958, maki Valdimar J. Halldórsson, f. 1953. Ólöf á tvö börn a) Magdalena Margrét, f. 1989, sambýlismaður Baldur Kristjánsson. Þau eiga tvo syni. Magdalena átti áður dóttur. b) Sigurður Á. Sigurðsson, f. 1991. 4) Haukur, f. 1959, maki Margrét Gunnarsdóttir, f. 1957. Fyrir átti Haukur tvö börn a) Richard Odd, f. 1976, og b) Dagný, f. 1983. Haukur og Margrét eiga tvo syni c) Gunnar Pétur, f. 1985, maki Anna Rut Ágústsdóttir. Þau eiga einn son. d) Albert Hauksson, f. 1989, maki Sigrún Erla Ólafsdóttir, f. 1987. Þau eiga tvær dætur, Albert átti áður einn son. 5) Jóhanna, f. 1961, maki Jón Ólafur Sigurðsson, f. 1945. Fyrir átti Jóhanna dóttur a) Brynja Huld, f. 1987, sambýlismaður Daníel Ólafsson. Jóhanna og Jón Ólafur eiga einn son b) Albert, f. 1997, sambýliskona Gígja Björnsdóttir. Fyrir átti Jón Ólafur þrjú börn. 6) Pétur, f. 1963, maki Sigurlín Pétursdóttir. Börn þeirra eru tvö a) Kristný, f. 1992, og b) Pétur Tryggvi, f. 1999. 7) Sigurður, f. 1971. Sigurður á fjögur börn. a) Lydía, f. 1993, sambýlismaður Viktor B. Brynjarsson, b) Natalía, f. 1993, sambýlismaður Hlynur Orri Helgason, c) Sigþrúður, f. 2006, og d) Lena Margrét, f. 2009.

Oddur og Lena byggðu sér hús að Seljalandsvegi 38 og bjuggu þar frá árinu 1963.

Oddur var bæjarverkstjóri á Ísafirði frá árinu 1956 til 1982, en fluttist þá yfir til tæknideildar bæjarins. Árið 1984 tók Oddur við því verkefni að skrá öll ofanflóð innan marka sveitarfélagsins og kanna snjóalög. Árið 1995 var hann ráðinn til Veðurstofunnar sem eftirlitsmaður með öllu svæðinu, þar sem hann starfaði til ársins 2006.

Oddur var mikill skíðamaður og keppti í skíðagöngu á Ólympíuleikunum í Ósló árið 1952 og í Cortina d‘Ampezzo árið 1956. Þegar Oddur hætti keppni tók hann virkan þátt í uppbyggingarstarfi skíðaíþróttarinnar á Ísafirði. Oddur var virkur í verkalýðsstarfi og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum þeim tengdum og var lengi formaður FosVest.

Útför Odds verður gerð frá Ísafjarðarkirkju í dag, 1. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Fallin er frá mín stærsta fyrirmynd og uppáhaldstöffari. Skíðakappi, ólympíufari og á allan hátt toppmaður. Afi virtist vita allt um hafið og fjöllin, og samspil þeirra við veðrið, snjóalög – og það sem mikilvægast var, hvernig skíðaiðkun fléttast saman við þetta allt.

Veðurfar og snjór var hans aðaláhugamál og endurspeglaði það síðasta samtal okkar: Seljalandsdalur, snjóalög, gönguskíði, fatt og fjöllin. Eitt skipti á Seljalandsdal taldi ég mig hafa borið nægilega vel undir og væri með gott fatt, afi hafði fylgst með mér ganga og sagði ekki fatta nóg, bætti undir skíðin og viti menn, fattið stórbatnaði.

Minningarnar um afa eru um nákvæmnismann fram í fingurgóma, hvergi á landinu mátti finna jafn vel útmældar jólaseríur og á Seljó og meira að segja viðgerðarreddingar afa voru vandaðar. Takk elsku afi fyrir að vera flott fyrirmynd á allan hátt og leggja þig fram við að kenna mér það sem þú kunnir.

Þinn

Albert.

Á helginni eru 65 ár síðan fallegasta ástarsaga sem ég þekki hófst þegar nýja ráðskonan hjá Vegagerðinni kom til starfa þar sem verið var að leggja veg um Dýrafjörð. Var þar komin stórglæsileg og drífandi ung kona alla leið frá Hrísdal á Snæfellsnesi, til að vinna sér fyrir skólavist komandi vetrar. Þar hitti hún fyrir skíðakappann Odd Pétursson. Þau felldu hugi um leið og þau sáust – Lena og Oddur, amma og afi.

Afa sem fannst svo gaman að bralla með okkur barnabörnunum. Afa sem þekkti fjöllin betur en handarbakið á sér. Afi sem átti alltaf rúsínusúkkulaði í þvældum plastpoka í nesti þegar á fjöll var haldið. Afi sem ennþá laumaðist til að leiða ömmu þegar við drukkum saman kaffi á Seljó um páskana.

Það eru fáar minningar úr æsku minni sem ekki gerast á Seljó, í sumó, eða á Hesteyri, og þar voru amma og afi í stórhlutverki. Þar fékk ég að upplifa kátínu og ævintýri sem barn og lærði að drekka kaffi og ræða stjórnmál og heimsmál sem ung kona. Það sem er mér efst í huga er þakklæti fyrir að hafa ekki bara fengið að vera barn undir dyggri leiðsögn ömmu og afa, heldur að hafa fengið að upplifa djúpstæða og einlæga vináttu sem fullorðin kona, ómetanlega vináttu sem ég mun búa að allt til æviloka.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Þín,

Brynja Huld.

Ástkær afi minn er nú fallinn frá. Oddur afi hafði að geyma einstaka manngerð sem var birtingarmynd þeirra fjölbreyttu persónukosta sem hann gæddu. Afi var í senn einlægur og heiðarlegur en var auk þess mesta hörkutól og dugnaðarforkur sem sögur fara af.

Það var fátt í æsku sem toppaði það að fljúga vestur til ömmu og afa yfir vetrartímann og detta í þann lukkupott að vera veðurtepptur á Seljó. Það er alveg klárt mál að það hefði ekki verið jafn eftirsóknarvert að vera veðurtepptur í leiðindaveðri á Ísafirði ef það hefði ekki verið fyrir afa. Það var alltaf nóg við að hafast og ævintýri á hverju strái. Ef vel viðraði fórum við á skak, á vélsleðann, að skjóta í dósir eða á skíði. Ef veðrið var leiðinlegt var oftast farið í bílskúrinn og smíðað eða einfaldlega legið og lesið í huggulegheitum. Ég á óendanlega margar góðar minningar af samveru með afa sem ég mun geyma í hjarta mér til æviloka.

Undanfarin ár gaf ég mér ekki eins mikinn tíma og ég hefði viljað til að heimsækja afa og ömmu. Fyrir algjöra tilviljun þurfti ég að fljúga vestur á Ísafjörð vegna vinnu tveimur dögum áður en afi lést. Ég vissi að hann væri orðinn ansi slappur en var brugðið þegar ég hitti hann og var þá ljóst í hvað stefndi. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að sitja við hlið hans og ná síðasta spjalli við hann og kveðja.

Elsku amma, ég votta þér mína dýpstu samúð. Ég lofa að vera duglegur að koma vestur með fjölskylduna mína og heimsækja þig. Þið afi voruð einstök saman og þú getur verið stolt af arfleifð ykkar og því sem þið hafið áorkað í sameiningu.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Gunnar Pétur Hauksson.

Við systur minnumst Odds Péturssonar frá Grænagarði með þakklæti og virðingu fyrir samveru, stuðning og hlýju frá menntaskólaárum okkar og fram til dagsins í dag.

Við tókum báðar það gæfuspor að kjósa Menntaskólann á Ísafirði til að ganga menntaveginn. Að vita af frændgarði á Ísafirði í móðursystur okkar, Lenu, og fjölskyldu hennar, var hvati til að leggja upp í ævintýrið og halda vestur.

Það vafðist ekki fyrir þeim hjónum, Oddi og Lenu, að taka við einni skjátu til viðbótar við barnahópinn sinn á þessum árum og samanlagt nutum við átta ára traustrar samfylgdar og uppeldis af hendi þeirra sómahjóna. Árin fyrir tvítugt eru sannarlega mikil mótunarár í lífi ungmenna og varð dvölin á Ísafirði okkur báðum mikil upplifun og lærdómsrík.

Á Seljalandsveginum var ekkert til sem hét fjas út af engu. Grunngildin sönn og góð. Trú á hæfileika unga fólksins og endalaus hvatning. Oddur Pétursson var eins og stillurnar sem eiga lögheimili í Skutulsfirði. Þegar hann talaði var ástæða til að hlusta því hann sagði ekkert að ástæðulausu. Lét verkin tala. Oddur var þó langt frá því að vera skaplaus, keppnisskap og hæfileikar gerðu hann að einum besta íþróttamanni sem Ísland hefur alið.

Í huga okkar ríkir þakklæti fyrir samveruna og vinskapinn.

Innilegar samúðarkveðjur til elsku Lenu frænku, barna, tengdabarna og annarra afkomenda.

Oddný og Þorgerður Sigurðardætur frá Stykkishólmi.

Oddur var einn af þessum mönnum sem mun lifa í minningum þeirra sem kynntust honum um ókomna tíð. Allt fas og hegðun bar þess vitni hvað þar fór vandaður maður. Hann fór allt með hægðinni, en viljastyrkur, sem sumir myndu kalla þrjósku, gerði honum kleift að komast yfir flestar hindranir. Æðruleysi hans í erfiðum veikindum undanfarinna ára hefur verið einstakt. Þrátt fyrir að blési á móti hjá honum sjálfum var hann með hugann við hvernig öðrum gengi, hvort strákarnir væru ekki að standa sig í skólanum, hvort Gunnar bróðir færi ekki að ná sér, hvernig okkur gengi í vinnunni og fleira. Hann sýndi alltaf afkomendum sínum mikinn áhuga og var alltaf styðjandi og til í að hjálpa til ef eitthvað bjátaði á. Stolt hans af afrekum þeirra fór aldrei á milli mála þó hann væri allra manna síst raupsamur um ágæti sinna.

Ég mun sakna Odds frænda. Hann var fastur punktur í tilverunni. Heimsóknirnar á Seljalandsveginn verða öðruvísi þegar hann er fallinn frá. Missir Lenu er þó mestur, en samband þeirra var einstakt. Samhent með eindæmum og ómæld virðing hvort fyrir öðru. Maður nefndi enda sjaldan annað án hins. Missir afkomenda þeirra, sex eftirlifandi barna og fjölda barnabarna og barnabarnabarna og fjölskyldna þeirra er einnig mikill.

Blessuð sé minning Odds Péturssonar.

Ólafur Þór Gunnarsson.

Í sögustundum verður það sem gert var á Ísafirði fyrir „mörgum“ árum alltaf fyrir valinu. Þá snerust sumarstörf um barnapössun, skógrækt eða fiskvinnslu. Margir þráðu útivinnu eftir veturinn en fiskurinn borgaði betur. Eftir innilokun í frystihúsinu í heila viku fór ég í þungum skrefum heim á leið. Í miðju Hafnarstrætinu gengu Oddur Péturs og Jón skraddari fram og til baka, en Hemmi Guðmunds og Torfi Bjarna lágu fram á skóflu og járnkarl og glottu. Það var vatnsleki og Oddur og Jón vissu nákvæmlega hvar lokukraninn var, en þeir mundu það bara ekki – akkúrat núna! Oddur stoppaði allt í einu: „Rosalega ertu fölur – já, ég er í frystihúsinu! Það var leitt, maður æfist ekkert þar, Ármenningar þurfa að vera úti og hreyfa sig, hvað ertu annars að gera á mánudaginn? – líka í frystihúsinu! Heyrðu – komdu bara niður í Áhaldahús klukkan hálfátta!“

Ég mætti snemma – Einar Gunnlaugs var búinn að opna og kynnti mig fyrir Kitta Lyngmó inni á vélaverkstæði, síðan komu Hemmi og Torfi, þá Oddur og með honum Kitti Muggs! Oddur skipaði Kitta að fara með okkur út á Hlíðarveg að grafa í skurði. Þeir félagarnir stukku beint ofan í, Hemmi með hjökkuna og Torfi með skófluna. „Hvað á ég að gera? – halda þeim við efnið,“ sagði Kitti og var farinn! Þeir byrjuðu strax að rífast, eiginlega um ekki neitt; svo hlógu þeir og eiginlega að engu. Hemmi tók mikið í nefið og kenndi mér að beita hjökkunni og Torfi tróð í pípuna og kenndi mér að skófla væri ekki bara skófla og allt í einu var dagurinn búinn! Það var svo aðfaranótt sunnudags að Oddur hringdi: „Drífðu þig í fötin, það lekur aftur niðri í bæ.“ Hemmi og Torfi voru líka mættir. „Léstu hann líka plata þig? nei – ég sagði bara já“! Oddur hringdi aftur og aftur, líklega af því að ég sagði alltaf já! Það var mikið að gera alla daga, allar helgar, margar nætur og allt í einu var sumarið búið!

Þegar pabbi hringdi og sagði: „Vinur þinn Oddur Pétursson sofnaði út af í morgun, hann var orðinn mjög lasinn.“ Þá sá ég fyrir mér daginn sem við hittumst í Hafnarstrætinu og hann bauð mér vinnu hjá bænum! Það hvarflaði ekki að mér að sumrin yrðu sex en skýringin liggur í Oddi og öllum þeim öðlingum sem með honum störfuðu og ég kynntist með margvíslegum hætti. Oddur kenndi mér hluti og lét mig framkvæma störf sem mér eldri og reyndari hefðu frekar átt að gera – ég skil það ekki enn í dag. Ég spurði aldrei af hverju eða ertu viss, ég sagði bara alltaf já! Þó að það hafi ekki skemmt fyrir að vera Ármenningur þróaðist samvinna okkar, vinskapur og traust langt út yfir að vera bara félagar! Þrátt fyrir fjarveruna frá Ísafirði slitnaði aldrei sambandið. Það var því ljúft að geta síðar veitt til baka ráð og aðstoð þegar hringt var suður. Oddur fékk tvo risa „brotsjói“ á sig sem hann stóð af sér, en lét á sjá. Í dag varð honum að ósk sinni „þetta er komið gott“ og hann sofnaði!

Ég kveð kæran og tryggan vin og Ármenning. Fjölskyldu og ættingjum votta ég dýpstu samúð með kveðjum frá mér og bæjarkörlunum!

Halldór Jónsson yngri.

Oddur Pétursson var einn af minnisstæðustu mönnum sem ég hef kynnst á starfsævinni. Við hittumst í kjölfar mannskaðasnjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri 1995 þegar ég fór að starfa við snjóflóðahættumat og uppbyggingu snjóflóðavarnarvirkja hér á landi. Ég var í hópi nokkurra „sérfræðinga að sunnan“ sem ekki höfðu á mikilli reynslu að byggja í erfiðum verkefnum sem í hönd fóru. Við þurftum oft að leita til Odds sem þekkti snjóflóðasögu og snjóflóðaaðstæður víðast hvar á landinu öllum mönnum betur. Hann hafði lag á því að miðla þessari þekkingu þannig að þeim sem tóku við hans ráðum fannst að þeir hefðu komist að niðurstöðunni sjálfir.

Oddur var einstakt náttúrubarn og það er gaman að hafa átt þess kost að ganga með honum til athugana í fjalllendinu í grennd við Ísafjörð og læra af honum. Hann var afreksmaður á gönguskíðum og kenndi mér að hafa mætur á Fossavatnsgöngunni. Mér er minnisstætt er við komum til baka úr gönguskíðaferð á Seljalandsdal, þegar hann var á áttræðisaldri og ég talsvert yngri, að hann þurfti að sinna erindi svolítið til hliðar við okkar leið. Þá þurfti hann ekki að vera að taka tillit til mín og skautaði af stað með svo hægum og átakalausum hreyfingum að ég áttaði mig á því að ég átti sitthvað ólært í gönguskíðaíþróttinni.

Oddur var meðal þeirra íslensku alþýðumanna sem sameina reynslu af náttúrunni og vísindaleg vinnubrögð þannig að hann stóð jafnfætis færustu sérfræðingum hér á landi og erlendis þegar leggja þurfti mat á snjóflóðaaðstæður. Hann hafði ótrúlegt minni og gat rakið atburðarás frá því fyrir áratugum dag fyrir dag þannig að engu skeikaði. Hann tók mikinn þátt í samstarfi okkar á Veðurstofunni við snjóflóðatæknimenn frá Noregi, Austurríki og Sviss og miðlaði þar þekkingu sinni af hógværð og lítillæti. Hann hafði mikinn áhuga á því að auka skilning á snjóflóðahættu hér á landi og bæta öryggi fólks í snjóflóðabyggðarlögum og gladdist að sjá þá uppbyggingu sem nú á sér stað víða á landinu á því sviði.

Með Oddi er genginn góður vinur og vinnufélagi.

Ég votta Lenu og öðrum ættingjum og aðstandendum samúð við fráfall hans.

Tómas Jóhannesson.

Oddur Pétursson var snjóathugunarmaður á Ísafirði frá 1984 til 2013 er hann lét af störfum sökum aldurs. Starf snjóathugunarmanna mótaðist á þessum tíma. Árið 1984 vann hann hjá tæknideild Ísafjarðar og var þá falið að skrá snjóflóð, fylgjast með snjóalögum og mæla úrkomu. Reynsla af snjóeftirliti var þá ekki mikil hér á landi. Eftir að lög um varnir gegn snjóflóðum voru sett árið 1985 varð starfið fastmótaðra. Fram að þeim tíma höfðu flóð, sem ekki ollu tjóni, ekki verið skráð og lítið var um rannsóknir á snjóalögum. Oddur átti stóran þátt í að móta verklag við snjóathuganir hér á landi í samstarfi við nýtilkomna snjóflóðadeild á Veðurstofunni og var leiðandi í vinnubrögðum og túlkun á niðurstöðum.

Árið 1991 bauðst Oddi að fara í tveggja mánaða kynnis- og þjálfunarferð til Bandaríkjanna og Kanada. Hann vann þar við snjóflóðaeftirlit á þremur stöðum þar sem fjallvegir liggja um hættusvæði. Lengst dvaldist hann í Rogers Pass þar sem meginsamgönguæðar milli vestur- og austurhéraða Kanada liggja um þröngt fjallaskarð. Þar voru margir snjóflóðasérfræðingar við störf og gott skipulag á snjóathugunum. Herflokkur sá um að skjóta niður snjóflóð með fallbyssu og til gamans má nefna að Oddur þurfti að ganga í kanadíska herinn með tilheyrandi pappírsvinnu til þess að geta tekið þátt í að sprengja niður snjóflóð.

Eftir ferðina til N-Ameríku fór Oddur að taka snjógryfjur og mæla snjóalög á skipulagðari hátt en áður og varð í framhaldi af því frumkvöðull í tækni og skipulagi snjóathugana hér á landi. Að sögn Odds þyngdist veðráttan smám saman á seinni hluta síðustu aldar fram til 1995 og stærri og stærri snjóflóð féllu í hans umdæmi, sem á þeim tíma var Ísafjörður og Hnífsdalur. Þar var Oddur snjóathugunarmaður þegar mannskæð snjóflóð féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995 og fór hann fyrir mælingum á flóðunum og var í lykilhlutverki í skipulagi viðbúnaðar í hættuástandinu í kjölfar þeirra. Rólyndi hans, yfirvegun og staðarþekking kom að góðum notum við viðbúnaðinn dagana á eftir í byggðunum í kring. Í framhaldi af mannskaðasnjóflóðunum voru unnar viðbúnaðaráætlanir fyrir helstu snjóflóðabyggðarlög landsins og var þar að miklu leyti byggt á reynslu Odds og annarra staðkunnugra heimamanna sem þekkingu höfðu á snjóflóðasögu og snjóflóðaastæðum viðkomandi byggðarlaga. Við sem þátt tókum í þessari vinnu minnumst Odds sem trausts félaga sem alltaf var unnt að leita til þegar taka þurfti vandasamar ákvarðanir.

Árið 1996 varð Oddur starfsmaður Veðurstofunnar og eftir það sá hann um athuganir og skráningu flóða fyrir Ísafjarðarbæ og Súðavík. Oddur sinnti starfi sínu af áhuga, innsæi og eljusemi. Það verður að teljast afrek hjá honum að hafa tekið við starfinu ómótuðu og þróað það við þær samfélagslegu aðstæður sem ríktu fyrir 1995 þegar almennt var tekið lítið tillit til snjóflóðahættu hér á landi. Hann er frumkvöðull í snjóathugunum og eftir hann liggur mikið starf sem nú er byggt á til þess að bæta öryggi fólks gagnvart snjóflóðavá. Fyrir hönd samstarfsfólks á Veðurstofu Íslands,

Jón Gunnar, Sveinn, Jón Kristinn, Tómas, Auður, Magni, Óliver, Harpa.

Ég flutti til Ísafjarðar árið 2004 til þess að veita nýstofnuðu Snjóflóðasetri Veðurstofunnar forstöðu. Ég var eini starfsmaðurinn á Snjóflóðasetri til að byrja með en á svæðinu störfuðu nokkrir snjóathugunarmenn á vegum Veðurstofunnar sem allir tóku mér vel. Þeirra reyndastur var Oddur Pétursson sem ég kunni strax ákaflega vel við og milli okkar tókst góður vinskapur.

Oddur var mikill náttúrufræðingur í eðli sínu og hafði yfirgripsmikla þekkingu á veðri og náttúrufari svæðisins. Það var mér því mikilvægt að geta leitað til hans. Snjóflóðafræði eru ekki einföld vísindi og ekki er ennþá búið að finna upp tækni sem spáir betur fyrir um snjóflóð en reyndur athugunarmaður með góða tilfinningu fyrir veðri og snjóflóðaaðstæðum. Oddur hafði einstaka tilfinningu fyrir náttúrunni en var líka rökvís og næmur á það sem máli skiptir þegar leggja þarf mat á aðstæður.

Smám saman fjölgaði starfsmönnum á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði og úr varð hressilegur vinnustaður þar sem margt skemmtilegt hefur verið brallað bæði í og utan vinnutíma. Oddur var aldursforsetinn, en hann var alltaf til í að vera með í hópnum á meðan heilsan leyfði. Nokkrum dögum fyrir áttræðisafmæli Odds var ákveðið að fara í leiðangur á línuskautum og Oddur var að sjálfsögðu með. Þegar kom að brattri og grófri, óárennilegri brekku í lok ferðarinnar ákvað hópurinn að taka af sér skautana og ganga niður brekkuna – nema Oddur. Hann skellti sér niður á línuskautunum, svigaði niður götuna á mikilli ferð og við vinnufélagarnir vorum sannfærðir um að hann myndi ekki lifa áttræðisafmælið. En auðvitað komst hann klakklaust niður (enda gamall ólympíufari á gönguskíðum) og beið þar þolinmóður eftir okkur hinum sem trítluðum niður skömmustuleg með línuskautana í fanginu.

Oddur var mikill fjallgöngugarpur og ég á margar góðar minningar um vinnuferðir til fjalla með honum. Hann gekk alltaf öruggum skrefum á jöfnum hraða og tók vel eftir umhverfinu. Hann hafði haukfrána sjón og ég man eitt af fyrstu skiptunum þegar ég var með honum að mæla útlínur snjóflóðs, þá hvarf hann allt í einu og ég var farin að hafa áhyggjur af honum, enda var hann orðinn fullorðinn. En svo sá ég hann skokka léttilega upp hlíðina með riffil um öxl. Þá hafði hann komið auga á rjúpur í fjarska, hlaupið niður í bíl að ná í skotvopnið og aftur upp í fjall í hnédjúpum snjó – og náði að sjálfsögðu rjúpunum. Hélt svo áfram að mæla eins og ekkert hefði í skorist.

Oddur var ekki margmáll en hann hafði ákveðnar skoðanir og hafði lag á að koma þeim á framfæri án mikilla láta. Hann bar virðingu fyrir fólki og sýndi væntumþykju án málalenginga.

Með Oddi er genginn merkur maður og góður vinur. Hann skilur eftir sig farsælt starf sem á eftir að gagnast snjóflóðafræðingum um ókomna tíð.

Harpa Grímsdóttir.

Gömul minning er greypt í hugann. Framundan læknum og kirkjuturninn ber í Arnarnes, okkar bestu mið. Tveir stálpaðir strákar sitja í lítilli bátskel á logni fjarðarins í kvöldskugga fjallsins og draga þaraþyrsklinga. Fara í land með 15 fiska, upp með sér af aflanum og búbótinni sem þeir færa heim. Þessi minningarmynd varð kveikjan að einni sögunni í bókinni Í flæðarmálinu (1988).

Við, krakkarnir fimm á Grænagarði, Gunnar, Oddur og Unnur upp frá og við Haddi niður frá, við ólumst upp svo nánir að kalla hefði mátt okkur sem eins konar óformleg systkin. Feður okkar stjórnuðu netaverkstæðinu og mæður okkar voru nánar vinkonur. Við áttum saman Pollinn fyrir fiskinn og hlíðarnar og dalina fyrir skíðin og vorum í Ármanni inni í sveitinni og æfðum af kappi svig og göngu. Veröld okkar var lokuð umhverfis af háum fjöllum sem voru líkt og vernd, nema hvað þau báru í sér ótta við snjóflóð.

Æskuvinátta hverfur aldrei þótt leiðir skilji og vík sé milli vina. Unnur giftist burt og er dáin fyrir mörgum árum. Við Haddi fórum ungir, en Gunnar og Oddur fóru hvergi og helguðu bernskustöðvunum líf sitt. Og enn lifir Skutulsfjörður innra með mér, enda forsenda fyrir því sem ég er.

Nú er Oddur horfinn og skilur eftir sig sáran söknuð, þótt við höfum ekki sést nema stopult hin síðari ár. Hann bölvaði meira en aðrir menn, en það var alltaf vingjarnlegt og fráleitt illa meint. Hann var ævinlega mildur í skapi og hógvær, hæglátur að yfirbragði, en gat verið fastur fyrir einsog títt er um Vestfirðinga. Engan mann held ég að hann hafi viljað skaða, enda var hann vinsæll og naut virðingar, og ekki að ástæðulausu. Traustur var hann jafnan og einlægur sínum og það verður sjónarsviptir að honum í byggðarlagi fjarðarins okkar.

Þegar maður er kominn á þennan aldur getur maður sagt með skáldinu:

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld.

Ég kem á eftir, kannski í kvöld.

(Bólu-Hjálmar)

Og nú kveð ég æskuvin minn: Farðu vel, bróðir og vinur.

Við Haddi sendum Lenu og öllum afkomendum þeirra Odds innilegar samúðarkveðjur.

Njörður P. Njarðvík.