Réttað í málum marxista í Eþíópíu Keisarinn var kæfður með kodda Addis Ababa. Reuter.

Réttað í málum marxista í Eþíópíu Keisarinn var kæfður með kodda Addis Ababa. Reuter.

HERFORINGJASTJÓRN marxistanna sem steyptu Haile Selassie, keisara Eþíópíu, fyrir tveim áratugum, létu myrða hann og þúsundir saklausra manna, að sögn vitna en réttað er í málum valdaræningjanna í Addis Ababa, höfuðborg landsins, þessa dagana. Foringi þeirra, Mengistu, settist að á búgarði í Zimbabwe og um 20 aðrir ráðamenn flúðu einnig land, þeir verða því dæmdir fjarverandi. Þrír af nánustu samstarfsmönnum Mengistus hírast í ítalska sendiráðinu og er talið ólíklegt að mennirnir verði framseldir hljóti þeir dauðadóm.

Alls hafa 67 manns verið ákærðir. Samkvæmt málsskjölum samþykkti dergue, eins og herforingjastjórnin var nefnd, á fundi sínum 23. ágúst 1975 að keisarinn skyldi verða líflátinn vegna þess að hann væri æðsti maður lénsveldis. Selassie, sem var 82 ára gamall, hafði setið í stofufangelsi í ár eða frá því að marxistabyltingin var gerð. Sendur var launmorðingi inn í keisarahöllina og kæfði hann gamla manninn með kodda þar sem hann lá í rúmi sínu.

Alræmd fyrir pyntingar

Mengistu var steypt fyrir þrem árum en einræðisstjórn hans var alræmd fyrir pyntingar og hvers kyns hrottaskap, Sovétmenn studdu stjórnina óspart með vopnum í baráttu hennar gegn uppreisnarmönnum. Um 700.000 smábændur voru fluttir nauðugir af jörðum sínum til að reyna að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn kæmust yfir mat. Nær milljón manna fórst í hungursneyð 1984 sem átti rætur að rekja til samyrkjubúskapar að skipun stjórnvalda og borgarastríðsins.

Haile Selassie.