17. desember 1994 | Menningarblað/Lesbók | 2252 orð

Mikilhæfur og glæsilegur listamaður Stefán Íslandi hefur verið einn ástsælasti

Mikilhæfur og glæsilegur listamaður Stefán Íslandi hefur verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar á þessari öld. Nýlega gaf SPOR út geisladisk með söng Stefáns og ritar Jón Þórarinsson formála að útgáfunni.

Mikilhæfur og glæsilegur listamaður Stefán Íslandi hefur verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar á þessari öld. Nýlega gaf SPOR út geisladisk með söng Stefáns og ritar Jón Þórarinsson formála að útgáfunni. Sá formáli er birtur hér í heild, með góðfúslegu leyfi höfundar.

AGA Stefáns Íslandi er rakin í bókinni ÁFRAM VEGINN sem Indriði G. Þorsteinsson skráði og kom út á Akureyri 1975. Sú bók hefst með þessum orðum: "Söguþjóðin hefur geymt margt sinna frægðarmanna á bókum. Slíkar bækur og slíkir menn ylja okkur um hjartarætur, svo okkur finnst að við séum ekki eins yfirþyrmandi smá í hafi þjóðanna. ..."

Við Íslendingar höfum löngum talist bókaþjóð, og hefur okkur víst þótt sá maður allvel geymdur sem geymdur var á bók. En á hinum síðustu tæknitímum eru til fleiri og jafnvel virkari aðferðir til að "geyma menn" eftirkomendunum en að gefa út minningar þeirra eða ævisögur á bókum. Árið 1987, þegar Stefán Íslandi varð áttræður, var gefið út á fjórum hæggengum hljómplötum svo mikið af því sem varðveist hefur af söng hans, hvort sem er á útgefnum plötum, lakkplötum í eigu Ríkisútvarpsins eða segulböndum, að tala má um heildarútgáfu.

Sumt af þessu var í upphafi tekið upp með útgáfu í huga, annað ef til vill á tónleikum eða til flutnings í útvarp einu sinni eða sjaldan, enn annað til varðveislu, án þess að gert væri ráð fyrir opinberum flutningi á upptökunum. Útgefandi var Taktur hf. í samvinnu við Ríkisútvarpið, en umsjón með útgáfunni höfðu Þorsteinn Hannesson og Trausti Jónsson. Þetta eru alls um 70 "númer", íslensk lög og ítölsk, óperuaríur og jafnvel atriði úr óperum, að öllu samanlögðu mikill varanlegur fjársjóður og ómetanleg heimild um lífsstarf þessa mikilhæfa og glæsilega listamanns. Enn hefur tækninni fleygt fram, og nú er svo komið að geisladiskar eru orðnir mörgum aðgengilegri en hinar eldri hljómplötur. Því hefur orðið að ráði að gefa út á geisladiski nokkurt úrval þess efnis sem geymt er á fyrrnefndum plötum. Það er þetta úrval sem hér kemur fram.

Ástsæll með þjóð sinni

Margir íslenskir söngvarar hafa orðið vinsælir með þjóð sinni og nokkrir hafa borið hróður hennar um lönd og álfur. Engum mun þó gert rangt til þótt hér sé staðhæft, að vinsælastur þeirra allra hafi orðið sá maður sem hóf feril sinn undir nafninu Stefán Guðmundsson, en varð brátt kunnur víða um lönd sem Stefán Íslandi. Hann fæddist að Krossanesi í Vallhólmi í Skagafirði 6. október 1907 og þar lifði hann fyrstu bernskuár sín. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson og Guðrún Stefánsdóttir, vinnuhjú í Krossanesi. Þaðan fluttust þau að Vallanesi í Seyluhreppi 1911 og ári síðar til Sauðárkróks. Þau voru fátækt fólk eins og margir voru á þessum tíma, og þegar Guðmundur fórst af slysförum frá þremur börnum ungum, sundraðist heimilið, og fór Stefán þá í fóstur til Gunnars Gunnarssonar bónda í Syðra-Vallholti og Ingibjargar Ólafsdóttur konu hans. Hann var þá á tíunda ári. Þessi góðu hjón urðu honum sem aðrir foreldrar, og hjá þeim átti hann hlýtt athvarf þar til hann lagði út í heiminn á eigin spýtur. En sú ferð hófst með vinnumennsku á þremur bæjum í Skagafirði, árlangt á hverjum stað, áður en leið hans lá úr heimabyggðum.

Það var mikið sungið í Skagafirði á þessum árum, eins og löngum hefur verið, og Stefán var ekki gamall þegar hann var orðinn hlutgengur söngmaður og þekktur í héraðinu fyrir sönggleði og raddfegurð. Kristján kaupmaður Gíslason á Sauðárkróki kvaddi hann stundum til að syngja fyrir gesti sína. Þáttaskilum í ævi Stefáns kann það að hafa valdið, þegar Kristján gerði boð eftir honum til að syngja fyrir Hjalta Jónsson, sem löngum var kenndur við Eldey, skipstjóra og kaupmann úr Reykjavík. Hjalti bað piltinn að hafa tal af sér ef hann kæmi til Reykjavíkur, "en það þarftu endilega að gera", sagði hann.

Fyrst lá þó leið Stefáns Guðmundssonar til Akureyrar. Stóð til að hann skipaði sér í raðir söngfélagsins Geysis, og munu félagar þar hafa haft góð orð um að koma honum til náms í trésmíði. Slík fyrirgreiðsla var ekki óalgeng áður fyrr, þegar um var að ræða söngmenn sem kórunum þótti sér verulegur fengur í. En þessi ráðagerð fór öll út um þúfur, og aldrei varð Stefán Guðmundsson trésmiður. Þá var Reykjavík næsti áfangastaður. En áður fór hann til Siglufjarðar og hélt þar hina fyrstu opinberu tónleika sína, 17 ára gamall, með aðstoð Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara og píanóleikara frá Akureyri.

Til Reykjavíkur

Það var haustið 1926 sem Stefán kom til Reykjavíkur. Hjalti Jónsson útvegaði honum herbergi og tók hann í fæði á heimili sínu, og brátt fékk Stefán vinnu í Málaranum hjá Pétri Guðmundssyni. Starfaði hann aðallega við að "rífa" liti, meðal annars fyrir Jóhannes Kjarval og tókst með þeim góð vinátta. Pétur var söngmaður í Karlakór Reykjavíkur, sem Sigurður Þórðarson tónskáld hafði stofnað snemma á þessu ári, og var Stefán brátt tekinn í kórinn. Þegar Stefán hætti að hræra liti í Málaranum starfaði hann um tíma við vegagerð uppi hjá Lágafelli, og síðan réðst hann til náms í rakaraiðn hjá Kjartani Ólafssyni.

En hugur hans var allur við sönginn, og ekki átti það fyrir honum að liggja að gerast hárskeri. Hjalti Jónsson kom honum í kynni við Pál Ísólfsson, sem þá og lengi síðan var fremstur íslenskra tónlistarmanna, og hreifst Páll þegar af hinni undurfögru náttúrurödd Stefáns. Það varð að ráði að Stefán hóf söngnám hjá Sigurði Birkis, síðar söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Hann var um þessar mundir að hefja söngkennslu í Reykjavík en var síðan um áratugi aðalsöngkennari þjóðarinnar og mikill örlagavaldur mörgum ungum söngmönnum. Í manntali í nóvember 1927 er Stefán titlaður söngnemi, og næsta vor kom hann fram, ásamt öðrum ungum söngmönnum, á fyrstu nemendatónleikum Sigurðar Birkis. Sigfús Einarsson tónskáld og dómkirkjuorganleikari var gagnrýnandi Morgunblaðsins um þessar mundir og talinn strangur. Honum þótti rödd Stefáns ekki þróttmikil en fögur og sönggáfan ótvíræð.

Stefán átti snemma hauk í horni þar sem var Magnús Jónsson síðar guðfræðiprófessor, alþingismaður og ráðherra, en hann var prestssonur úr Skagafirði. Hann var óvenjulega fjölhæfur maður og áhugamaður um margvísleg menningarmál, ekki síst starf Karlakórs Reykjavíkur, og var stundum fararstjóri í söngferðum kórsins. Stefán starfaði í kórnum á þessum árum, en einsöngvari með honum var hann fyrst snemma árs 1929.

Í mars og apríl 1929 hélt Stefán einnig sjálfstæða tónleika á vegum söngskóla Sigurðar Birkis, og eftir þetta blandaðist mönnum ekki hugur um að hér var óvenjulegt listamannsefni á ferð. Þetta haust var líka sýnd í Nýja bíói kvikmyndin "Ramona", og í auglýsingum var tekið fram að lagið sem fylgir myndinni yrði nú sungið af hinum "góðkunna unga söngvara Stefáni Guðmundssyni". Sýningarkvöldin urðu þrettán í röð, og var víst met á þeim tíma. Hafi söngvarinn verið "góðkunnur" áður en sýningarnar hófust var hann áreiðanlega stórfrægur að þeim loknum.

Söngnám á Ítalíu

Um þessar mundir réðst það fyrir milligöngu Magnúsar Jónssonar að Richard Thors, forstjóri útgerðarfélagsins Kveldúlfs, ákvað að styrkja Stefán Guðmundsson til söngnáms á Ítalíu. Ferðin þangað hófst í desember 1929 og endaði í Milano. Richard Thors hafði búið þannig um hnúta, að ekkert átti að geta hamlað því að Stefán næði fyllsta árangri við nám sitt. Hann gat því valið úr kennurum og gerði það. Eftir að hafa reynt fyrir sér hjá tveimur kennurum öðrum, staðnæmdist hann hjá baritonsöngvara frá Sikiley, Ernesto Caronna að nafni, og varð hann Stefáni hvort tveggja í senn, kennari og vinur. Undir leiðsögn hans þroskaðist rödd Stefáns með undraverðum hætti, hann lærði óperuhlutverk og jafnvel heilar óperur sem hann æfði með samnemendum sínum, en á kvöldin var hann löngum í Scala-óperunni og sat þá einatt á sjöttu svölum með nótnabók á hnjánum.

Þegar komið var fram um nýjár 1933 mun Caronna hafa talið að nú væri Íslendingurinn orðinn fær í flestan sjó. Kom hann því svo fyrir að Stefán þreytti frumraun sína á leiksviði í hlutverki Cavaradossis í óperunni "Tosca" 12. febrúar 1933 í Dante-leikhúsinu í Florens, þar sem sjálf vagga óperulistarinnar hafði staðið meira en þremur öldum fyrr. Hann söng á fjórum sýningum og hlaut mikið lof fyrir. Skömmu síðar söng hann hlutverk Pinkertons í "Madame Butterfly", og í umsögn um þá sýningu kom fram í fyrsta skipti nafnið Stefano Islandi, sem Stefán tók þá upp, ekki síst til að hlífa Ítölum við þeim erfiðleikum sem föðurnafn hans olli þeim. Stefano Islandi söng á ýmsum stöðum á Ítalíu á árunum 1933 og 1934, m.a. hlutverk hertogans í "Rigoletto" og Alfredos í "La traviata", auk þeirra hlutverka sem fyrr voru nefnd, og var ætíð vel tekið, bæði af áheyrendum og gagnrýnendum.

En þegar líða tók á árið 1934 fóru atvinnuhorfur versnandi. Það var yfirleitt þrengt mjög að útlendingum á Ítalíu, og Stefán vildi ekki sinna ábendingum um að ganga í flokk fasista sem um þessar mundir réð lögum og lofum í landinu. Um skeið leit út fyrir að Stefáni mundi opnast leið til starfa í Vesturheimi, en úr því varð ekki. En því var fagnað heils hugar á Íslandi þegar það fréttist snemma árs 1935 að Stefán Íslandi væri á heimleið. Karlakór Reykjavíkur ráðgerði söngför til Norðurlanda með vorinu og Stefán hafði fallist á að vera einsöngvari kórsins í ferðinni.

Söngförin til Norðurlanda varð mikil sigurför, ekki síst fyrir Stefán, og fleiri frægðarferðir átti hann eftir að fara víða um lönd með karlakórnum og Sigurði Þórðarsyni. Eftir heimkomuna fór Stefán fyrstu tónleikaför sína til Norðurlands, og síðan fylgdu fleiri söngskemmtanir í Reykjavík. Mér sem þessar línur rita eru í minni tónleikar hans á Akureyri þetta sumar. Þótt ég viti nú að minnið er svikult í þessum efnum og lítt að treysta dómgreind unglings milli fermingar og tvítugs eins og ég var þá, finnst mér þó enn að ég hafi varla nokkru sinni heyrt aðra eins rödd og Stefáns um þetta leyti, svo hlýja, mjúka, hreina og bjarta, en þó tindrandi af skaphita og listrænum tilþrifum. Undirtektirnar voru í samræmi við þetta, og svo var hvar sem Stefán lét til sín heyra. Hann átti jafnan hug og hjarta áheyrenda sinna.

Á faraldsfæti

Næstu árin var Stefán á faralds fæti. Hann söng í Kaupmannahöfn og víðar á Norðurlöndum og hélt sambandi við kennara sinn í Mílano. Um skeið dvaldist hann líka í Þýskalandi. Sumarið 1936 gerði hann samning við hljómplötufyrirtækið His Master's Voice í Lundúnum og tók upp tvær fyrstu hljómplötur sínar. Sumarið 1937 var hann aftur heima, hélt söngskemmtanir í Reykjavík við eindæma aðsókn og hrifningu og fór síðan söngför um Austur- og Norðurland, frá Seyðisfirði norður og vestur um. Um haustið var síðan lagt upp í aðra söngför með Karlakór Reykjavíkur, nú til Þýskalands og Austurríkis.

Dönsk blöð höfðu allt frá því að Stefán lét fyrst til sín heyra í Kaupmannahöfn látið ljós það álit að Konunglega leikhúsið ætti að tryggja sér starfskrafta hans til að hressa upp á óperuflutning sinn. Úr því varð þó ekki fyrr en vorið 1938. Söng hann þá Pinkerton í "Madame Butterfly" og varð sú sýning stórsigur fyrir hann. Sýningarnar urðu fleiri en en áætlað hafði verið og uppselt á þær allar, og var ekki farið leynt með að þetta var þakkað Stefáni. Þótti það raunar trygging fyrir góðri aðsókn öll þau ár sem Stefán starfaði í Kaupmannahöfn ef nafn hans stóð á leikskrá.

Söngferill í Danmörku

Vinsældir hans í Danmörku voru óbrigðular. Upp frá þessu má segja að Konunglega leikhúsið væri aðal starfsvettvangur Stefáns Íslandi, þótt hann kæmi fram við ýmis tækifæri víða annars staðar, allt þar til hann fluttist hingað heim alfarinn 1966. Hann var fastráðinn við leikhúsið 1940 og varð konunglegur hirðsöngvari 1949, en sú nafnbót er mesti heiður sem söngvara getur hlotnast í Danmörku. Helstu hlutverk hans til viðbótar þeim sem áður eru nefnd voru Rudolf í "La Bohéme", titilhlutverkið í "Faust", Turiddu í "Cavalleria rusticana", Lenski í "Eugen Onegin", titilhlutverkin í "Werther" og "Don Carlos", Don Jose í "Carmen", Nadir í "Perluköfurunum", Almaviva í "Rakaranum frá Sevilla", Nemorino í "Don Pasquale" o.fl. Ennfremur tenorhlutverkin í "Requiem" Verdis og "Stabat mater" bæði eftir Rossini og Dvorák.

Stefán var söngkennari við Konunglegu óperuna frá 1959 og prófdómari við Konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn frá 1961. Eftir að einangrun styrjaldarinnar lauk kom Stefán oft hingað heim á sumrin og hélt þá tónleika í Reykjavík, á Akureyri og víðar. Vorið 1951 tók hann þátt í fyrstu óperusýningunni sem Þjóðleikhúsið setti á svið og söng þar hlutverk hertogans af Mantua í "Rigoletto". Þar fengu Íslendingar loks að sjá hann og heyra í réttu umhverfi óperunnar. Einnig söng hann í Þjóðleikhúsinu 1957 Cavaradossi í "Tosca". Á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands var hins vegar "Carmen" sem flutt var á tónleikum í Austurbæjarbíói og margendurtekin við metaðsókn bæði vor og haust 1958, en þar söng Stefán Don Jose.

Stefán var þannig skapi farinn að hann vildi ljúka söngferli sínum með reisn og áður en röddin gæfi sig. Hann hætti því störfum hjá Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn 1. júlí 1964 og fluttist heim til Íslands 1966, þótt honum stæðu til boða álitleg störf við söngkennslu í Danmörku. Hann hafði alltaf ætlað að eyða síðustu æviárunum hér heima. Hann kenndi nokkur ár við Tónlistarskólann í Reykjavík og víðar, en eftir að heilsan tók að bila hafði hann hægt um sig. Hann lést á nýjársdag 1994 á áttugasta og sjöunda aldursári.

Stefáni Íslandi var sýndur margháttaður sómi, auk þess sem fram hefur komið hér að framan. Hann varð riddari Hinnar íslensku fálkaorðu 1940, stórriddari 1952, og 1960 var hann sæmdur Dannebrogsorðunni dönsku. Mörg síðustu árin naut hann heiðurslauna listamanna sem Alþingi veitir. Með plötuútgáfunni 1987 voru ævistarfi hans gerð verðug skil, og enginn vafi er á því að þessi nýi geisladiskur á eftir að gleðja marga, bæði gamla og nýja aðdáendur Stefáns Íslandi.

STEFÁN Íslandi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.